birt 15. ágúst 2006

Ég er búinn að vera töluvert á ferðinni í sumar. Heimsótti m.a. gamla hlaupafélaga mína í Noregi og Þýskalandi. Segi nánar frá þeim ferðum í næstu hugrenningum. Síðasta ferðin í bili var til London á tónleika með Madonnu í Wembley Arena þann 9. ágúst. Ég er nú enginn sérstakur aðdáandi hennar en konan mín hefur dáð hana til margra ára. Hún lagði mikið á sig til að kaupa miða framarlega og tókst að lokum að fá miða í áttundu röð en húsið tekur um 12.000 manns. Síðan gerðist það þegar við vorum sest að vörður einn vinkaði mér og bað mig um að tala við sig. Erindið var að spyrja hvort við værum tilbúin að færa okkur í fyrstu röð því miðaldra hjónum þótti það vera of nálægt. Ég var nokkuð sporskur á svip þegar ég lagði spurninguna fyrir konuna sem tókst á loft og öskraði yfir salinn. Heyrðist hún segja yeeeess. Það fór því svo að við vorum alveg við sviðið og verð ég að viðurkenna að það var nokkuð sérstakt að vera aðeins tvo metra frá stórstjörnunni. Þetta var heilmikil sýning enda viðar Madonna gjarnan að sér flinkum dönsurum og fimleikafólki sem gerði hinar ýmsu kúnstir. Mér fannst þetta bara hin ágætasta skemmtan þó svo ég hvorki hoppaði eða stappaði. Sýndist drottningin hvessa á mig augun tvívegis eins og hún væri að spyrja hvað þessi rólegi maður væri að gera í fremstu röð. Það er víst ætlast til þess að þeir fremstu láti öllum illum látum.

London er skemmtileg borg og maður fær aldrei leið á því að ganga um helstu ferðamannastaðina í miðborginni. Í þetta sinn ákváðum við að gera meira úr ferðinni og fórum einn dag til Brighton sem er fallegur strandbær og málaður í björtum litum. Annan daginn fórum við í Windsor kastala. Þegar maður sér íburðinn í húsnæði, málverkum, borðbúnaði og öðru sem kóngafólkið kom sér upp á öldum áður verður manni hugsað til alþýðunnar í þá daga. Það er með ólíkindum að kóngafólkið skyldi hafa komist upp með það að auka skattaálögur á almenning til þess eins að geta gullskeytt herbergi sín. Vinnan og fjármagnið sem var lagt í gerð sumra hluta er svo fáránlegt að ekki tekur nokkru tali.

Meðan við vorum í London náðum við að kíkja annað slagið á útsendingu frá Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum sem fram fór í Gautaborg. Þar voru gamlar hlaupahetjur í þularstarfi m.a. þeir Brendan Forster og Steve Cram. Forster var upp á sitt besta á áttunda áratugnum og setti m.a. heimsmet í 10.000 m (27:30) og varð Evrópumeistari í 5.000 m árið 1974 (13:14 mín að mig minnir). Cram setti hins vegar heimsmet í 1.500 m og míluhlaupi á nýjunda áratugnum. Alltaf gaman að heyra í þeim sem rifjar upp gamlar minningar. Ágúst Ásgeirsson keppti oft við Forster og náði m.a. að vinna hann einu sinni í 800 m hlaupi. Minnir að hann hafi hlaupið á 1:53,6 mín. Skrítið hvað maður man marga hlaupatíma. Gagnlausar upplýsingar myndu margir segja. Fannst slæmt hversu íslenski hópurinn var fámennur, aðeins tvö og langt frá úrslitasæti, en Silja, Óðinn og Þórey voru meidd. Verður betra næst. Sá hlaupið með Birni Margeirssyni og það gladdi mig að hann skyldi bæta sig. Ef ekkert kemur upp á ætti hann að vera vel samkeppnisfær við þá bestu eftir tvö ár. Björn hefur hæfileika til að hlaupa á 1:47 í 800 og 3:39 í 1.500.

Við komum heim rétt fyrir miðnætti þann 10. ágúst og þótti vel sloppið. Á Heathrow flugvellinum voru lögreglumenn og hermenn við öllu búnir og var leitað hátt og lágt á öllum. Meiri vitleysan sem þetta er orðið í heiminum. Ekki hægt að bregða sér í frí án þess að vera meðhöndlaður sem glæpamaður.