birt 09. janúar 2019

Rannveig Oddsdóttir frá Akureyri hefur verið einn fremsti hlaupari landsins um árabil. Þrátt fyrir að hafa fengið sinn skammt af meiðslum hefur Rannveig ávallt komið til baka með krafti. Meðal afreka Rannveigar er sigur í Laugavegshlaupinu 2018 á besta tíma sem íslensk kona hefur náð.

Við á hlaup.is fögnum því að Rannveig sé tilbúin að geysast fram ritvöllinn til að skemmta og fræða íslenska hlaupasamfélagið. Vonum við svo sannarlega að framhald verði þar á. Hér á eftir fer pistill Rannveigar.

Flestir hlauparar þurfa einhverntíman á ferlinum að takast á við meiðsli. Oft er um að ræða verki sem tengja má of miklu álagi á ákveðna vöðva eða liði vegna einhæfrar þjálfunar en einnig getur verið um að ræða áverka vegna slysa á hlaupum svo sem við að misstíga sig eða detta. Meiðslin eiga það sameiginlegt að halda þeim meidda frá hefðbundnum æfingum um tíma sem getur komið niður á hlaupaforminu og reynt á þolrifin því fátt er leiðinlegra en að geta ekki sinnt því sem maður hefur ástríðu fyrir.

Laugavegur 2018
Rannveig að leggja drög að sigri á Laugaveginum 2018

Undirrituð hefur á undanförnum árum mátt sætta sig við það að þurfa ítrekað að halda sig frá hlaupum í styttri eða lengri tíma vegna meiðsla. Þessi tímabil hafa oft tekið nokkuð á andlegu hliðina og þegar verst lætur hef ég vart verið mönnum sinnandi vegna hlaupaleysisþunglyndis. Með tímanum hef ég lært að takast á við þessi tímabil af meira æðruleysi en áður og lært að nýta þau á uppbyggjandi hátt. Í þessum pistli deildi ég með ykkur nokkrum ráðum sem mér hafa reynst vel til að komast í gegnum meiðslatímabilin.

Hugsaðu um það sem þú getur gert

Í flestum tilvikum eru meiðsli hlaupara þess eðlis að hægt er að stunda aðra hreyfingu meðan ekki er hægt að hlaupa. Í stað þess að gráta yfir því að geta ekki hlaupið borgar sig að einbeita sér að því að finna út hvaða hreyfing er í lagi og nota hana til að halda þolinu við og fullnægja hreyfiþörfinni. Oft er það höggálagið sem líkaminn þolir ekki en hreyfing eins og sund, hjólreiðar og gönguferðir eru í lagi. Nýttu tímann sem skapast þegar hlaupaæfingarnar detta úr til að fara á skriðsundsnámskeið, reyna fyrir þér í golfi, prófa gönguskíði eða hvaða hreyfinu aðra sem hægt er að stunda þrátt fyrir meiðslin. Undirrituð hefur góða reynslu af því að halda sér við í meiðslum með því að synda, sundhlaupa, hjóla, ganga á fjöll og stunda gönguskíði.

Nýttu tímann til að styrkja þig og liðka

Sá sem æfir hlaup af kappi hefur oft ekki mikið svigrúm fyrir aðra hreyfingu, -eða kannski réttara sagt lætur aðra hreyfingu sitja á hakanum vegna þess að hlaupin eiga hug hans allan. Álagsmeiðsli eru oft áminning til okkar um nauðsyn þess að vinna með styrk og liðleika samhliða hlaupaþjálfuninni. Eitt af því sem meiddur hlaupari ætti því að hugleiða er hvort það sé mögulega skortur á styrk eða liðleika sem veldur vandanum. Í þessu sambandi getur verið gott að fá greiningu og leiðsögn hjá sjúkraþjálfara eða öðrum fagaðilum og vinna í framhaldinu markvisst með veikleikana. Þess utan gera góðar styrktaræfingar, teygjur og jafnvægisæfingar öllum gott og ættu að vera partur af æfingaprógrammi allra hlaupara.

Njóttu þess að hvíla þig á stífu æfingaskipulagi

Hlauprar sem æft hafa markvisst til að hámarka árangur sinn kannast eflaust margir hverjir við þá tilfinningu að æfingaprógrammið sé farið að taka af þeim völdin. Taka þarf ákveðnar æfingar á ákveðnum dögum og önnur hreyfing verður að taka mið af því. Það gengur til dæmis ekki að taka erfiða fjallgöngu daginn fyrir lykilæfingu í maraþonprógramminu og eftir langa túrinn á laugardegi er hlauparinn ekki endilega í stuði til að fara í hjóltúr með fjölskyldunni. Meiðslatímabil geta verið kærkomin hvíld frá stífu æfingaskipulagi sem er eitthvað sem allir þurfa á að halda öðru hvoru á ferlinum.

Fyndu þér nýjar áskoranir og markmið að keppa að

Ef meiðslatímabilið dregst á langinn er um að gera að finna sér nýjar áskoranir að takast á við þar til líkaminn er tilbúinn í hefðbundnar hlaupaáskoranir. Hluti af lífstíl hlauparans er að setja sér markmið og hafa eitthvað að stefna að og meðan ekki ert hægt að setja sér hlaupamarkmið getur verið gefandi að hafa önnur markmið að keppa að.

Laugavegur 2018 Rannveig
Hlaupið til sigurs á frábærum tíma á Laugaveginum 2018

Í mínum meiðslum undanfarin ár hef ég þjálfað mig upp í því að synda skriðsund, náð góðum tökum á sundhlaupi, lært á gönguskíði, gengið á 50 fjöll á einu ári og núna er ég að vinna í því að ná tökum á snúningnum í sundinu. Þegar ekki er hægt að stunda hlaupin eins og maður vildi er hvetjandi að geta hakað við það að öðrum markmiðum sé náð.

Harðari haus

Langhlaup reyna ekki síður á andlegt en líkamlegt þrek. Það þarf úthald og seiglu til að komast í gegnum þung æfingatímabil og keppa í löngum vegalengdum. Meiðslatímabilin geta gefið gott innlegg í þessa þjálfun. Það herðir hausinn að gefast ekki upp þegar á móti blæs og halda út í styttri eða lengri tíma í æfingum sem eru ekki þær sem hlauparinn helst vildi iðka. Ég hef oft spurt mig þegar ég dóla mér í tilbreytingarlausu sundhlaupi alein og yfirgefin í sundlauginni til hvers ég sé eiginlega að þessu.

Af hverju ég sætti mig ekki bara við það að hlaupaferillinn sé búinn og fari að nota tómstundirnar í eitthvað annað en misleiðinlegar æfingar sem fyrst og fremst miða að því að halda í þolið svo ég sé ekki alveg á byrjunarreit þegar ég get farið að hlaupa aftur. En um leið og ég kemst aftur út að hlaupa og finn að þolið er ekki alveg farið gleðst ég yfir því að hafa ekki gefist upp og hafa haldið haus í gegnum meiðslin.

Ekki láta sannfæra þig um að hlaup séu óholl

Háðsglósur frá antísportistum um íþróttabölið sem alla er að drepa er oft það fyrsta sem hlaupari fær að heyra þegar það berst í tal innan um almenning að hann eigi við hlaupameiðsli að stríða og margir kannast eflaust við það að hafa velt því fyrir sér hvort þeir séu að eyðileggja eigin líkama með hlaupunum.

Álagsmeiðsli geta verið merki um að við höfum ofgert líkamanum á einn eða annan hátt en oftar er um minniháttar vandamál að ræða sem lagast á stuttum tíma. Oft eru meiðslin þess eðlis að þau trufla ekki daglegt líf þótt þau komi í veg fyrir að hægt sé að hlaupa. Vandamálin sem við hlauparar köllum meiðsli eru því oft á tíðum eitthvað sem kyrrsetufólk lítur á sem eðlilegt ástand, truflar ekki daglegt líf þess og þarf því ekki að vinna bót á. Því það gefur jú augaleið að sá sem ekki stundar neina hreyfingu finnur tæplega fyrir verkjum tengdum íþróttaiðkun.

Tíðari heimsóknir hlaupara til lækna og sjúkraþjálfara vegna stoðkerfisvanda er því ekki endilega afleiðing þess að hlaup séu óholl heldur einfaldlega tilkomin vegna þess að hlauparar sætta sig ekki við það að þurfa að hætta að hreyfa sig.

Rannveig Oddsdóttir er pistlahöfundur á hlaup.is.