Pistill 1: Goðsögn á Mývatni

birt 01. febrúar 2004

Mig rak í rogastans þegar ég las úrslitin frá Mývatnsmaraþoninu. Í flokki 60 ára og eldri í hálfmaraþoni var sigurvegarinn Ron Hill frá Bretlandi á 1:38 klst. Svo virðist sem viðstaddir hafi ekki áttað sig á hver maðurinn er, en Ron Hill er einn allra þekktasti langhlaupari sem uppi hefur verið. Ekki einungis fyrir árangur í hlaupum heldur sem upphafsmaður maraþon "diet", innleiðingu á netabolum í keppni og síðast en ekki síst sem öflugur framleiðandi íþróttafatnaðar.

Árið 1969 varð Ron Hill Evrópumeistari í maraþonhlaupi og árið eftir samveldismeistari á 2:09:28 klst. sem var breskt met í nokkur ár og vann sama ár einnig Boston maraþonið. Ron Hill er einnig þekktur fyrir æfingahörku sína. Á sínum keppnisferli gekk hann alltaf út frá þeirri fílósófíu að það sem þú leggur inn getur þú tekið út aftur (input = output). Með það í huga æfði hann og æfði og lét ekki veður, veikindi né meiðsli aftra sér. Ég minnist þess þegar hann hélt upp á 20 ára afmæli þess að hafa ekki misst einn einasta dag úr æfingum frá því í desember 1964. Mér kæmi ekki á óvart þó að hann hefði haldið því áfram.

Til þess að geta þetta þarf ýmsar tilfæringar og eru af því margar skemmtilegar sögur sem sjá má í æfisögu hans "The long hard road". Ég á þessa bók, sem er í tveimur bindum enda mjög nákvæmlega sagt frá öllum æfingum og keppnum, og fletti upp í henni í gærkvöldi. Þar mátti sjá m.a. "hljóp 1 mílu í flugstöðvarbyggingunni í Bahrain, máttum ekki fara út." Reyndar mörg dæmi um að Ron tæki æfingar í flugstöðvum á leið í keppni til fjarlægra landa. Ástæðan, jú ekki mátti sleppa degi úr. Eitt sinn fótbrotnaði Ron og skrifaði þá í dagbókina: "hoppaði á öðrum fæti hálfa mílu." Hvað getum við lært af Ron Hill. Jú, æfingin skapar meistarann. Ef þú ætlar að bæta árangur þinn verður þú að leggja meira á þig.

Annað er skipulagning, en Ron var mjög útsjónarsamur. Þegar þau hjón keyptu sína fyrstu íbúð dró hann hring á borgarkortinu út frá vinnustað sínum og sagði sem svo að á þessari línu skildu þau leita að íbúð (þetta var fyrir tíma jafnréttisumræðunnar). Það var vegalengdin sem hann vildi hlaupa á morgnana til vinnu og til baka aftur.

Í mörg ár æfði Ron alltaf tvisvar á dag nema sunnudaga, vegalengdin á viku oftast á bilinu 150-200 km. Ekki gerði Ron alla hluti rétt og hefur hann viðurkennt að stundum hafi skynsemi og raunsæi vantað. Hann hafi of oft tekið erfiðar æfingar kvefaður sem leitt hafi síðan ítrekað til flensu og líka gert meiðsli verri með því að þjarkast á þeim. Segir hins vegar að erfitt sé að hætta að vera manískur þegar maður hefur bitið eitthvað í sig. Aðstæður eru flestar mun betri í dag en þegar Ron var upp á sitt besta og baðaði sig eftir æfingar upp úr eldhúsvaskinum.

Það er auðvitað hverjum og einum í sjálfvald sett hvað hann er tilbúinn að leggja mikið á sig, en ég verð að segja að mér finnst okkar ungu langhlauparar æfa allt of lítið. Það er eitthvað að þegar okkar framtíðarmenn í langhlaupum eru að æfa langt innan við 100 km á viku oftast nær, mun minna er margir skokkarar á miðjum aldri. Íslandsmet Sigfúsar Jónssonar í 10.000 m er nú 25 ára um þessar mundir og kemst á miðjan aldur ef ekki verður breyting á metnaði okkar ungu hlaupara.