Pistill 10: Af hverju eru Afríkumenn bestir í langhlaupum?

birt 01. febrúar 2004

Ólympíuleikarnir nálgast, en þeir hafa alltaf verið mesta hátíð frjálsíþróttafólks. Oft hefur verið mikil spenna og miklir spádómar um líklega sigurvegara í einstökum greinum. Nú virðist hins vegar nokkuð ljóst að Vesturlandabúar eiga mjög undir högg að sækja í millivegalengdum- og langhlaupum karla og kvenna þar sem Afríkumenn hafa verið mjög sigursælir á stórmótum síðustu ára. Hver ætlar t.d. að vinna "eyðimerkurstorminn" frá Marókkó í 1.500 m, Gebreselassie í 10.000 m, Keníabúana í 3.000 m hindrunarhlaupi eða Mutolu í 800 m kvenna? Áfram mætti telja því fjöldi stórhlaupara frá Afríku er ótrúlegur. Það virðist alveg sama þó einn hætti að þá kemur bara annar jafn góður fram á sjónarsviðið. Toby Tanser, sem dvaldi um nokkurn tíma við æfingar í Kenía, segir í bók sinni að einungis 10-15 bestu hlaupararnir fái að fara til keppni erlendis. Heima fyrir sé ávallt fjöldi góðra hlaupara sem bíði eftir tækifærinu. Samkeppnin sé gífurleg og nefnir hann sem dæmi eitt meistaramót Kenía í víðavangshlaupi. Allir hafi farið mjög hratt af stað þannig að einungis þriðjungur kláraði hlaupið (12 km) og það hefði verið ótrúlegt um að litast meðfram hlaupaleiðinni, eins og á vígvelli þar sem sprungnir hlauparar lágu hver um annar þveran.

Margar tilgátur hafa verið settar fram fyrir því af hverju Afríkumenn ná svona góðum árangi. Hluti skýringarinnar liggur eflaust í umhverfinu, landfræði- og félagslegu. Hlauparar í Eþíópíu og Kenía eru vanir að æfa í þynnra lofti en Vesturlandabúar. Flestir hafa hlaupið mikið frá blautu barnsbeini og eru þekktar sögurnar um hlaup í og úr skóla. Það er líka til mikils að vinna náirðu góðum árangri, að losna frá fátæktinni og eymdinni. Það sama má segja um hlaupara austan gamla járntjaldsins. Fyrir marga er það lífsspurnsmál að komast í keppnir á Vesturlöndum og ná góðum árangri.

Hvað með líffræðina? Í nýjasta tölublaði (okt) Runners World segir frá nýlegri rannsókn vísindamanna í Suður-Afríku. Þeir báru saman 16 hlaupara, 8 litaða Afríkumenn og 8 hvíta Evrópumenn. Allir voru á svipuðum aldri, með svipaða líkamsþyngd og fituhlutfall og álíka bestu tíma í 10 km. Þeir voru allir settir í súrefnisupptökupróf (VO2max) og þar kom fram að Evrópubúarnir voru 13% hærri en Afríkumennirnir. Í næsta prófi, þar sem allir hlupu 10 km á sama hraða, kom hins vegar í ljós að Afríkumennirnir nýttu súrefnið mun betur en hlaupararnir frá Evrópu. Þeir komust af með 8% minna súrefni og hagkvæmnin (running economy) í hlaupinu var einnig 8% betri. Annað sem kom í ljós var að Afríkumennirnir virtust geta pínt sig meira þar sem þeir náðu að hlaupa á töluvert hærra hlutfalli af hámarkssúrefnisupptöku en Evrópubúarnir, 92% á móti 86%, og héldu hærri púlsi án þess að mjólkursýran yrði hærri en hjá þeim hvítu. Í greininni kemur fram að vísindamennirnir telji sig ekki reiðubúna til að útskýra þessar niðurstöður nánar.

Þessi athugun er athyglisverð, en verður að skoðast einungis sem vísbending. Miklu ítarlegri rannsóknar er þörf til að færa sönnur á að um líffræðilegan mun milli hvítra og svartra sé að ræða. Margt virðist þó benda til þess sbr. spretthlaupin, en þar er hending núorðið ef hvítur maður kemst í fremstu röð bæði meðal karla og kvenna. Svarti maðurinn er talinn vera mýkri í hreyfingum og einhverju sinni las ég að hluti skýringarinnar sé að leita í byggingarlagi t.d. á hælbeinið að vera lengra hjá blökkumönnum.

Ég hallast hins vegar að því að munurinn á viðhorfi sé ein stærsta skýringin á mismuninum á árangri undanfarin ár. Vesturlandabúar eru almennt orðnir góðu vanir og hafa e.t.v. ekki sömu þörf til að sanna sig og Afríkubúinn. Líf Vesturlandabúans er margflókið og hann mjög upptekinn af lífsgæðakapphlaupinu og alls konar "social" viðburðum meðan líf hins almenna Afríkubúa er mun fábreyttara og fremur spurning um að komast af.

Athugið að bók Toby Tansers, "Train Hard, Win Easy - The Kenyan Way" fæst í verslun Hlaupasíðunnar.