Pistill 12: Uppgjör og framhald

birt 01. febrúar 2004

Sumartímabilinu í almenningshlaupunum er svo til lokið og því ástæða til að staldra aðeins við og taka stöðuna. Þátttakan var í heild svipuð og árið áður. Heldur fjölgaði í Reykjavíkurmaraþoni og virtist breytingin af sunnudegi á laugardag gefa góða raun. Þó framkvæmd hlaupa hafi á heildina tekist nokkuð vel finnst mér enn of mikið um hnökra. Nefni ég þar brautarvörslu, umferðarstjórnun, mælingu á vegalengd og tímatöku. Krafa kúnnans er að hann geti treyst því að fá það sem framkvæmdaraðilar auglýsa. Þá er spurningin hver á að halda utan um þetta og vera framkvæmdaraðilum til upplýsingar og ráðgjafar. Lengi vel var það starfsmaður Reykjavíkurmaraþons sem sinnti þessum atriðum, en mér skilst að svo sé ekki nú. Þá hlýtur þetta að vera hlutverk Almenningshlaupanefndar FRÍ. Hvort sem er, þá er það allavega mikilvægt að einhver þjónusti hlaupin og sinni nauðsynlegu eftirliti þannig að hlaupin geti talist lögleg.

Nýjungar eru mikilvægar til að viðhalda og auka áhuga. Þá er ég að tala um ný hlaup eða nýtt fyrirkomulag á hlaupum. Ekki var mikið um nýjungar á síðasta tímabili. Helst að fjallahlaupin séu að vinna sér meiri sess. Ég hef hins vegar frétt af 10 km seríuhlaupum (stigahlaup) sem áformuð eru í vetur. Viss um að þau munu vekja áhuga þeirra sem ánægju hafa að keppni.

Samantekið vil ég sjá eftirfarandi gerast á næsta ári:

1.Staðlaða framkvæmd á hlaupum.
2.Aukna þátttöku. Það hlýtur að vera markmið hjá framkvæmdaraðilum að ná til sem flestra, en þeir þurfa sumir að bæta kynningarþáttinn verulega.
3.Betri árangur og meiri samkeppni milli bestu hlauparanna. Mikilvægt til að ná athygli fjölmiðla og til að fá stuðningsaðila.

Gaman væri að heyra frá lesendum hvernig þeim fannst síðasta hlaupatímabil og fá tillögur um það sem betur má fara. Eins væri gaman að heyra tillögur um nýbreytni á næsta ári.