Pistill 13: Niðurtalning að maraþoni

birt 01. febrúar 2004

Þeir sem tekið hafa þátt í maraþoni þekkja hversu krefjandi undirbúningurinn getur verið. Fyrst er að setja sér markmið, þá að gera æfingaáætlun og síðan að reyna að fara eftir henni. Það getur verið erfitt, - ýmislegt getur sett strik í reikninginn. Ég er núna á viðkvæmu stigi í maraþonundirbúningi fyrir Frankfurt 29. október. Síðasta vika var 130 km, og vikurnar á undan 110, 104, 92, 81, 23 (vikan eftir RM). Í gær hljóp ég 34 km. Ég er mjög þreyttur þessa dagana, en rúllið er þó að koma. Þegar ég fór fram úr rúminu í morgun (mánud) verkjaði mig í fæturnar (eins og morgnana á undan) og staulaðist fram á bað (ætli ég sé ekki bara orðinn miðaldra), svo stirður var ég.

Það er hins vegar engin ástæða til að slaka á, því ég hef sloppið við kvef og meiðsli hingað til. Reyndar var bakið farið að kvelja mig fyrir tveimur vikum en ég fór strax til sjúkraþjálfara og líður betur. Það er allt í lagi að æfa mikið ef skynsemin er líka með. Í miklu æfingaálagi er maður í rauninni að þræða einstigi. Við hvert horn getur blasað við fall (kvef/meiðsli/ofþreyta). Ónæmiskerfið er undir miklu álagi. Við þessar aðstæður verður maður að vera vel á varðbergi og reyna að draga úr áhættuþáttum. Hlaupa t.d. meira á mjúku undirlagi, passa upp á mataræði og svefn og forðast kvefað fólk. Ekki er þetta allt einfalt. Ég verð t.d. að viðurkenna að ég er búinn að svindla of mikið á svefntímanum undanfarið vegna Ólympíuleikanna.

Þetta er líka spurning um þrautseigju. Ég nota gömlu aðferðina mína, niðurtalningaraðferðina eins og börnin þegar þau telja dagana til jólanna. Framan af hugsa ég um að klára hverja viku fyrir sig, en nú þegar styttist í hámarksálagið hugsa ég um hvern dag. Þetta er sama prinsippið og knattspyrnuþjálfarar nota, hugsa um einn leik í einu. Ég veit t.d. að næsta fimmtudagsæfing verður erfið, en þá ætla ég að hlaupa 18 km hratt með Daníel og fleirum, en ég ætla ekki að hugsa um hana fyrr en á þeim degi.

Staðreyndin er einfaldlega sú að undirbúningur fyrir maraþon verður að vera erfiður og krefjandi, annars næst ekki árangur. Það er ekki hægt að treysta á neitt annað en formið, ekki vind eins og spjótkastarar eða kringlukastarar eða heppni eins og stundum ræður úrslitum í knattspyrnuleik. Dagsformið skiptir að mínu mati ekki eins miklu í maraþonhlaupi og í mörgum öðrum greinum. Mín trú er sú að ef maður er með góðan undirbúning að baki þá kemur sjálftraustið og það skiptir mjög miklu í maraþonhlaupi. Síðustu tvær vikurnar eiga að vera léttar til að hvíla og stilla sig af. Ef æfingamagnið hefur náðst á "gufuþrýstingslögmálið" að ganga upp þ.e. þegar lokið er tekið af "pottinum með öllum kílómetrunum" (þ.e. þegar hvíldin fer að virka) á forminu að skjóta upp eins og gufunni. Nú er bara að bíða og sjá hvort þetta gengur eftir hjá mér.