Pistill 14: Hvert er hlutverk Reykjavíkurmaraþons ?

birt 01. febrúar 2004

Mér finnst vænt um Reykjavíkurmaraþon (RM), enda kom ég töluvert að undirbúningi fyrsta hlaupsins og hef oft starfað við framkvæmd þess m.a. sem framkvæmdastjóri 1992-94. Undanfarin ár hef ég orðið var við töluverða óánægju með RM. Mörgum finnst hlaupið staðnað og vanta meiri metnað hjá forsvarsmönnum til að gera hlaupið betra.

Að mínu mati stendur Reykjavíkurmaraþon á nokkrum tímamótum um þessar mundir. Í fyrsta lagi er óvissa um eignarhald og ábyrgð á hlaupinu, en um það hefur verið nokkur togstreita á milli Frjálsíþróttasambandsins (FRÍ) og stjórnar RM. Þessu þarf að koma á hreint, því svona óvissa stendur hlaupinu fyrir þrifum. Ég get ekki séð að stuðningsaðilar eins og Reykjavíkurborg hafi neinn áhuga á að eiga hlaupið. Í mínum skilningi er eðlilegast að hlaupið falli undir starfsemi FRÍ, en fulltrúi skokkhópanna eigi einnig sæti í stjórn þess. Mér finnst ágæt sú hugmynd að FRÍ og ÍSÍ komi á fót mótaskrifstofu sem hafi með að gera framkvæmd RM, Kvennahlaupsins og fleiri viðburða. Þannig myndu kraftarnir og fjármagnið nýtast betur og framkvæmdin verða öflugri. Í öðru lagi er mikilvægt að RM snúi vörn í sókn, rífi sig upp úr kyrrstöðunni með breytingum á umgerð. Það er nauðsynlegt til að tryggja að RM verði áfram stórviðburður, hátíð hlaupara.

Mér finnst full ástæða til þess að stjórnendur Reykjavíkurmaraþons endurskoði nú hlutverk sitt og setji sér markmið til næstu ára. Jákvæð gagnrýni á alltaf rétt á sér og í ljósi þess set ég hér niður nokkur atriði sem mér finnst að ættu að vera í hlutverki RM:

1. Bjóða upp á áhugaverðan viðburð

Markmið númer eitt er að bjóða upp á vel framkvæmda og áhugaverða viðburði (RM- Miðnæturhlaup - Laugavegur), jafnt fyrir þátttakendur sem áhorfendur og fjölmiðla. RM hefur oftast staðið sig vel hvað varðar föstu atriðin (merkingar, drykkjarstöðvar o.s.frv.) að umferðarmálunum undanskyldum. Það er lífsspurnsmál fyrir hlaupið að koma bílunum af hlaupaleiðinni. Allir framkvæmdaraðilar verða að vera vakandi fyrir nýjungum til að eðlileg þróun geti orðið. Eitt af því sem ég tel vera nauðsynlegt er að flytja rásmark og endamark inn í Laugardal. Þar er öll aðstaða fyrir hendi og undirbúningur og frágangur miklu auðveldari í framkvæmd. Stjórn RM verður að skilja það að miðbærinn árið 1984 er ekki sá sami og miðbærinn árið 2001. Fyrir 17 árum var enn mikið líf í miðbænum og ákveðinn sjarmi þar yfir. Þessi stemmning er löngu farin og engin ástæða að halda í þessa staðsetningu. Hún hefur þvert á móti hamlandi áhrif á hlaupið sökum þrengsla, mikillar umferðar og aðstöðuleysis.

Leggja þarf meira upp úr hvatningu fyrir líklega þátttakendur t.d. með auknum verðlaunum til einstaklinga og í sveitakeppni. Mér fannst það t.d. mikil afturför þegar peningaverðlaunin voru aflögð. Eins finnst mér allt of mikil níska hafa verið viðhöfð varðandi boð til erlendra þátttakenda undanfarin ár. Til að RM geti staðið undir nafni sem alþjóðlegt maraþon verður árangur fyrstu manna að vera skammlaus. Tími sigurvegarans 1999 (2:48 klst.) hefði t.d. aðeins nægt í 4. sætið í Mývatnsmaraþoni það ár.

2. Vinna að uppbyggingu almenningshlaupa

RM á að hafa veigamiklu hlutverki að gegna í uppbyggingu almenningshlaupa á Íslandi. Við skulum ekki gleyma því að RM hefur úr töluvert meiri fjármunum að spila en önnur almenningshlaup og hefur m.a. fastan starfsmann árið um hring. RM ætti að sinna viðskiptavinum sínum betur, leita þá uppi, fræða þá og hvetja. Að sama skapi á RM að aðstoða önnur hlaup og vinna að uppbyggingu nýrra hlaupa. Þetta hlutverk hefur verið frekar ómarkvisst undanfarin ár. Vissulega hefur starfsmaður RM verið öðrum framkvæmdaraðilum innan handar og m.a. séð um samantekt og útgáfu á hlaupadagskránni. Það er þakkarvert. Ég vil hins vegar sjá meira af skipulagðri útbreiðslustarfsemi. Það er örugglega hægt að fá öfluga samstarfsaðila til þess.

3. Stuðla að betri árangri í langhlaupum

RM hefur tækifæri til að styðja við bestu íslensku langhlauparana, en hefur einhverra hluta vegna ekki haft áhuga á því. Af hverju hvetur RM ekki bestu hlauparana til afreka með því að bjóða sérverðlaun (flugmiði eða peningaupphæð) fyrir að fara undir tiltekin tímamörk í heilu og hálfu? Það ætti að vera metnaður RM að allir bestu hlauparar landsins stíluðu á að vera með og ná sem bestum árangri í hlaupinu. Það myndi skapa áhuga hlaupara jafnt sem fjölmiðla. RM gæti líka stofnað sjóð, sem í rynni tiltekin prósenta af þátttökugjaldi. Úr sjóðnum yrði síðan veittur styrkur árlega til verðugra verkefna, - einstaklings eða hlaupahóps. Vel gæti verið að hægt væri að fá fyrirtæki til að koma með mótframlag í slíkan sjóð.

Annað sem ég vil vekja athygli á og það er að halda í breiddina í árangri, mikilvægi þess að halda í viðskiptavinina - fá þá til að koma aftur of aftur. Árið 1993 var þeim hlaupurum sem tekið höfðu 10 sinnum þátt í RM veitt sérstök viðurkenning. Af hverju ekki að halda því áfram og veita viðurkenningar í ágúst n.k. fyrir 10. og 15. skiptið?