Pistill 20: Söfnun á hlaupaskóm

birt 01. febrúar 2004

Ég er að flytja þessa dagana og hef verið að fara í gegnum geymsluna. Þar kennir margra grasa. Skólabækur frá háskólaárunum, föt sem ég hélt að ég myndi fara aftur í, margir gamlir árgangar af Athletics Weekly, Running og Runners World, ársskýrslur FRÍ, ÍBH, UMFÍ og fleiri samtaka, alls konar mótaskrár, maraþonbæklingar og ýmis gögn varðandi framkvæmd hlaupa og móta, hlýrabolir sem ég kemst varla í núna (eigum við ekki að segja að tískan hafi verið svona aðskorin hér áður fyrr) og síðast en ekki síst margir pokar af hálfónýtum hlaupaskóm.

Ég ákvað að fara með pokana upp í íbúð og raða skónum upp á sóffaborðið og setti síðan þá sem ég er með í notkun í augnablikinu ofan á. Hvað haldið þið að þetta hafi verið mörg pör? Þau reyndust vera 49, hvorki meira né minna. ,,Hvaða vitleysa er þetta eiginlega," sagði konan þegar hún sá öll ósköpin. ,,Af hverju hendirðu ekki þessu drasli," bætti hún síðan við með vandlætingarsvip. Eina svarið sem mér kom til hugar var að það væri nú gott að geta brugðið sér í gamla skó þegar maður væri að mála og svo hefði það gjarnan vakið lukku að sýna fólki forna hlaupaskó á skokknámskeiðum. Máli mínu til stuðnings greip ég par af Adidas Waterproof, árg. 1985, og Nike Hurache sokkskónum, árg. 1992, úr haugnum og spurði hróðugur hvort hún hefði séð svona týpur áður. Konan sýndi engin svipbrigði. Hugsaðu þér, hélt ég áfram, að þessi hrúa á samanlagt að baki um 30.000 km. ,,Þú segir nokkuð," sagði konan og mér fannst að það vottaði fyrir smá skilningi. ,,Þú ættir nú samt að henda þeim," bætti hún við og veifaði framan í mig stórum svörtum ruslapoka.

Ég hef vissulega hent mörgum slitnum hlaupaskóm í gegnum tíðina, en verið tregur til. Kannski er það draslaraskapur og líka það að maður ætlar alltaf að nota þá gömlu aðeins meira. Nú svo er þetta auðvitað sérviska. Sálfræðingarnir myndu hins vegar örugglega leita að ástæðunni í bernsku minni. Reyndar voru æfingaskór illfáanlegir á þeim tíma. Sem krakki hljóp ég um á gúmmískóm og þótti mikið til um að eignast strigaskó endrum og eins. Ég eignaðist mína fyrstu gaddaskó 14 ára og voru þeir keyptir í Hellas búðinni á Skólavörðustígnum. Í upphitun og í götuhlaupum notaðist maður við strigaskóna og síðan handboltaskó. Held ég hafi verið 17 ára þegar Adidas SL hlaupaskórnir komu í sportbúðirnar í Reykjavík, sem þóttu mikil breyting. Sólinn var t.d. mun þykkari en á handboltaskóm. Fjöðrun var hins vegar lítil og má líkja þessum skóm við týpurnar í stórmörkuðunum sem kosta 1.000-2.000 kr. í dag. Á þessum árum átti maður aldrei nema eitt par í einu og þótti eðlilegt að slíta skónum út þ.e. þar til gat var komið á botninn. Þjálfarar í þá daga spáðu ekki mikið í höggdempun eða hvort skældir skór gætu valdið meiðslum. Skortslögmálið gæti því átt við um þessa sérvisku mína.

Vorin 1975 og 1976 var ég við æfingar og keppni í Englandi. Það var hrein opinberun hvað hlaupaskó varðar enda úrvalið orðið nokkurt. Jim Alder, samveldismeistari í maraþonhlaupi, seldi grimmt úr sendibílnum sínum á flestum mótum í norðurhluta Englands. Hann var eldhress og tók okkur Íslendingunum vel. Það er hins vegar ekki fyrr en um 1980 sem sprenging verður á skóframleiðslunni með skokkbylgjunni í Ameríku og síðan í Evrópu. Ný merki komu fram á sjónarsviðið og samkeppnin varð mikil. Síðan hefur mikil þróun átt sér stað. Hlaupaskór eru háðir tískusveiflum eins og flestar aðrar vörur. Stundum finnst mér að tískan ráði meira ferðinni en notagildið. Flestar nýjungar eru þegar framkomnar þannig að breytingarnar t.d. hvað varðar endingu og dempun eru frekar litlar milli ára. Ég hef þó alltaf gaman af að prófa nýja hlaupaskó og hef gjarnan reynt að lesa mér til um þá. Rétt val á hlaupaskóm er mjög mikilvægt. Skórnir eru í raun besta forvörnin gegn meiðslum. Þess vegna passa ég mig á því að hlaupa ekki of lengi í skóm sem eru farnir að skælast. Sumir skór endast ágætlega í 1.000-1.200 km meðan aðrir eru orðnir þunnir undir táberginu og farnir að skekkjast verulega eftir 600 km. Haugurinn minn býr eflaust yfir merkilegri sögu hvað varðar endingu einstakra tegunda. Aldrei að vita hvaða vitleysu manni dettur í hug, allavega ákvað ég að koma pokunum undan í nýja geymslu. Eru ekki einhverjir aðrir sérvitrir um hlaupaskó?