Pistill 21: Blendnar tilfinningar

birt 01. febrúar 2004

Ég er á leiðinni í sumarbústað næsta föstudag, daginn fyrir Reykjavíkurmaraþon. Sótti um bústað í apríl hjá mínu stéttarfélagi og fékk úthlutað þessari viku. Hefði sjálfsagt getað fengið því breytt en einhvern veginn var ég bara sáttur við þessa niðurstöðu. Það er orðið ansi langt síðan að ég hef ekki eitthvað komið að RM sem keppandi, starfsmaður, að kynna tímaritið Hlauparann eða fylgja eftir fólki sem ég hef verið að þjálfa.

Allt hefur sinn tíma og í þetta sinn verð ég í fjallgöngu í sveitinni meðan hlaupararnir keppast við að ná sínum persónulegu takmörkum. Örugglega mun hugur minn verða eitthvað bundinn við RM á hlaupdag, enda hef ég alltaf haft gaman að keppa og umgangast allt þetta hressa og skemmtilega fólk sem tekur þátt í almenningshlaupunum. Sá félagsskapur er frábær og vonast ég til að geta sótt í hann um mörg ókomin ár.

Fróðlegt verður að sjá hvernig breytingarnar á hlaupaleiðinni koma út. Þetta er vissulega tilraun, en mér finnst hlaupaleiðin gegnum Fossvoginn og fyrir Flugvöllinn vera hálfgerð feluleið. Möguleikarnir voru hins vegar ekki margir í stöðunni og rétt að bíða og sjá hvað hlaupararnir hafa um leiðina að segja eftir hlaupið.

Gagnrýni hefur verið töluverð undanfarin misseri, m.a. á Hlaupasíðunni, vegna ýmissa þátta í framkvæmd RM. Það er eðlilegt þegar um stærsta hlaupaviðburð ársins er að ræða. Það er ekkert að því að þátttakendur geri kröfur. Ég þykist þekkja þetta umhverfi nokkuð vel eftir áratuga reynslu. Að mínu mati skiptir öllu máli fyrir framkvæmdaraðila að vera í góðu sambandi við þátttakendur (kúnnana). Því miður finnst mér skorta nokkuð á þjónustulund RM. Þeir eru oft ansi staðir og seinir að taka við sér.

Hvað er ég að tala um þetta núna, á leiðinni út í sveit. Jú, vegna þess að mér finnst RM ekki hafa verið á réttum kúrs undanfarin ár. Það vantar meiri metnað og frískleika að mínu mati í framkvæmdina. Árleg fækkun þátttakenda, þar til í fyrra, ber þess merki. Við skulum vona að vel takist til núna og stefnan (kúrsinn) verði hér eftir upp á leið. Það eru allar forsendur til þess með jafn öfluga bakhjarla og hlaupið hefur.

Óska öllum þátttakendum í RM góðs gengis. Gleymið ekki að hafa gaman af þessu. Farið því ekki of geyst af stað.