Pistill 22: Gullmótin og HM - þvílík veisla og þvílík Afríka

birt 01. febrúar 2004

Undanfarnar vikur hafa verið mikil veisla fyrir frjálsíþrótta- og hlaupaáhugafólk. Gullmótin á hverju föstudagskvöldi í Sjónvarpinu og Heimsmeistaramótið í Edmonton í byrjun ágúst. Ég hef beðið með sérstakri eftirvæntingu eftir keppni í millivegalengdum og langhlaupum, þó svo ég hafi líka gaman af öðrum greinum. Mörg skemmtileg og dramatísk hlaup hafa farið fram. Af svona hlaupum má læra heilmargt í taktík. Hvet okkar ungu hlaupara að stúdera upptökur frá þessum mótum í því skyni. Ég og Einar bróðir (þið kannist kannski við hann sem markstjóra í RM og grillmeistara í Laugavegshlaupum) höldum mikið upp á Mútólu frá Mósambik. Okkur finnst hún skemmtileg týpa og mikill karakter. Við stukkum hreinlega í loft upp er hún tók 800 m í Edmonton með þremur hundraðshlutum úr sekúndu. Mútóla er búin að vera lengi að og sýnir ávallt mikinn baráttuvilja.

Keníabúarnir hafa verið ósigrandi í 3000 m hindrunarhlaupi karla um árabil, en nú hefur Boulami frá Marokkó tekið af þeim heimsmetið. Evrópumenn eiga hins vegar ekki möguleika í þessari grein fremur en í öðrum langhlaupum karla um þessar mundir. Þær Evrópuþjóðir sem átt hafa bestu langhlauparana síðustu þrjá áratugina hafa einkum verið Ítalía, Portúgal, Spánn og Bretland. Nú er svo komið að bestu langhlauparar í Evrópu hafa ekki lengur sjálftraust til að keppa við Afríkubúana. Finnst það tilgangslaust og leggja því ekki eins hart að sér í æfingum. Auðveldara að flytja þá hreinlega inn sbr. að bestu langhlauparar Frakka og Belga eru frá Afríku. Ég bind þó nokkrar vonir við að hinn ungi Maríus Bakken frá Noregi sem hlaupið hefur 5.000 m á 13:09 mín. í ár geti staðið í þeim eftir 1-2 ár. Sem betur fer virðast fleiri en Afríkubúar eiga möguleika á fyrstu sætum í millivegalengdahlaupum, a.m.k. ennþá. Bucher frá Sviss og Borsakowsky frá Rússlandi hafa haft yfirburði í 800 m í ár, en enginn á möguleika í "eyðimerkurstorminn" frá Marokkó í 1.500 m. Fyrir 15-20 árum réðu ríkjum í þessari grein Steve Ovett, Sebastian Coe og Steve Cram frá Bretlandi, John Walker frá Nýja Sjálandi og Steve Scott frá Bandaríkjunum. Japanir, Ástralir og Mexíkóar áttu lengi vel maraþonhlaupara í allra fremstu röð, en hafa dalað verulega undanfarin ár.

Í kvennahlaupunum er þetta allt opnara ennþá. Afríkustúlkurnar hafa undanfarin ár verið að sækja fast að hvítu hlaupakonunum. Þær hafa margoft unnið góða sigra í víðavangshlaupunum og í maraþoni, en ekki tekist eins vel til í brautarhlaupunum. Þar eru Evrópubúar sterkir með Szabo, Sekely, Jegerovu og Rathcliff fremstar í flokki. Þetta mun þó eflaust breytast Afríkustúlkunum í hag á næstu árum. Þær komu einfaldlega 15-20 árum seinna fram á sjónarsviðið en karlarnir frá sömu löndum og þurfa því lengri tíma til að ná sama styrkleika. Japanir hafa átt sterkar maraþonkonur undanfarin tíu ár, en virðast ekki hafa styrk til að ná árangri á brautinni. Síðan er spurning hvort Kínverjarnir komi upp aftur í kvennahlaupunum. Þær eiga heimsmetin í vegalengdum frá 1.500 til 10.000 m, hreint ótrúleg met.

Menn hafa velt fyrir sér í hverju þessir yfirburðir Afríkubúa liggja og gerði ég það í einum af fyrstu pistlum mínum. Ég varð dálítið hissa, og reyndar aðeins upp með mér, að lesa á Hlaupasíðunni (sjá grein eftir Rögnvald Ingþórsson eða úrdrátt í DV í dag 27.8 á þessari grein) að ég væri einn þeirra íslensku hlaupara sem hefði verið með netta og létta fótleggi. Vildi að satt hefði verið, held að kálfarnir á mér hafi þó verið líkari og á langstökkvurum en langhlaupurum. Staðreyndin er sú að ég, sem og flestir aðrir íslenskir langhlauparar, er mun þungbyggðari en Afríkumennirnir. Ég er 1,77 m og keppnisþyngdin var á bilinu 63-65 kg þegar ég var upp á mitt besta fyrir 15-20 árum. Afríkuhlauparar af sömu hæð eru langflestir um 53-55 kg og sumir jafnvel léttari. Á þessu er mikill munur, hvort þú þarft að ferðast með allt að 10 kg meira án þess að til komi meiri styrkur. Afríkumennirnir eru að jafnaði miklu beinasmærri en við og vöðvabyggingin einnig minni. Á móti kemur að við þessir þyngri endumst að öllu jöfnu lengur - þeir eru brothættari. Óþarfi er að örvænta. Vöðvamiklir langhlauparar geta líka náð góðum árangri, en þá oftast með gífurlegum æfingum. Það var mér t.d. hvatning að Rob De Castella, sem hljóp best á 2:07 klst. í maraþoni, var sömu hæðar og þyngdar og ég. Ég skal þó viðurkenna að stundum þegar ég var að hita upp við hliðina á þessum Afríkubúum í stórum maraþonhlaupum að þá fannst mér ég hreinlega vera feitur og hálf skammaðist mín. En svona er þetta og ekki getum við breytt upplagi okkar. Það verður bara að hafa það þó þeir séu aðeins betri. Við getum allavega gert okkar besta. Það er mikið svigrúm fyrir bætingar hjá okkur og hef ég trú á því að innan fárra ára munum við eignast langhlaupara sem hleypur undir 14 mín. í 5.000 m og vel undir 30 mín. í 10.000 m. Það yrði góður áfangi til enn frekari afreka. Martha Ernstsdóttir hefur þegar sýnt að íslenskar hlaupakonur geta náð langt.

Áfram, vér þungu hlauparar.