Pistill 23: Í lok sumars: Hvernig var árangurinn og hvert er framhaldið ?

birt 01. febrúar 2004
Í lok tímabils er fróðlegt að líta um öxl og velta fyrir sér hvernig gekk, hverjir komu á óvart, hverjir voru að bæta sig, hvaða hlaup voru athyglisverð eða stóðu upp úr hvað framkvæmd varðar o.s.frv. Í þessum síðasta pistli mínum á árinu ætla ég að stikla á því helsta og velta fyrir mér framhaldinu.

Þátttakan í almenningshlaupunum dróst í heildina saman frá því í fyrra. Mesta fækkunin varð í Miðnæturhlaupinu, sem skýrist að hluta til af því að hlaupið fór nú fram á laugardagskvöldi. Í RM fækkaði þátttakendum um 300 frá því í fyrra og um rúmlega 100 í Heilsuhlaupi Krabbameinsfélagsins svo nokkur hlaup séu nefnd. Þrátt fyrir mjög mikla kynningu á Akureyrarmaraþoni fækkaði í hlaupinu frá árinu áður. Tilraunin með breytta dagsetningu virðist ekki hafa gengið upp. Mörg hlaup héldu sínu, en eru mun fámennari en fyrir 5-6 árum t.d. Akraneshlaupið og Ármannshlaupið. Flugleiðahlaupið bætir hins vegar við sig ár frá ári og er orðið langöflugasta vorhlaupið. Nokkur nýleg hlaup, sem flokkast undir fjallahlaup, efldust verulega s.s. Vatnesfjallaskokkið og Barðsneshlaupið. Síðan eru nokkur hlaup við það að deyja út eins og Bláskógaskokkið. Það eru líklega fáir sem vita að það var fyrsta almenningshlaupið hér á landi. Ég er þá að undanskilja Víðavangshlaup ÍR og sambærilega hlaup, sem ég flokka sem keppnishlaup. Ég tók þátt í Bláskógaskokkinu árið 1972, á öðru ári þess. Hugsið ykkur, það voru um 300 þátttakendur í því. Það fannst manni ótrúlegt á þeim árum þegar þátttakan í götuhlaupunum var oftast á bilinu 10-20 fyrir utan ÍR-hlaupið. Aðaldriffjöðurin að Bláskógaskokkinu var Brynleifur Steingrímsson á Selfossi, sem þá var nýkominn úr læknanámi í Svíþjóð. Þátttakan hélst nokkuð góð fram yfir 1980, en þá komu fleiri götuhlaup til skjalanna að sumri til s.s. Álafosshlaupið (13 km).

Ég tók þátt í fáum hlaupum á þessu ári og get því ekki dæmt um framkvæmd hlaupa í heildina út frá eigin reynslu. Það segir sig sjálft að það er mjög erfitt að ná fullkomnun í framkvæmd hlaupa. Sjálfsagt má alltaf finna einhverja hnökra. Það sem mér finnst skipta miklu máli í undirbúningi hlaupa er að haga hlutum þannig að líkindi til mistaka verði sem minnst. Menn mega ekki, t.d. við ákvörðun á hlaupaleið, hafa hlutina svo flókna að mistök og misskilningur sé hreinlega óumflýjanlegur. Mæling, merking og brautarvarsla eru grundvallaratriði sem mega ekki klikka. Sama gildir um tímatöku, en þar fór t.d. allt í rugl í Óshlíðarhlaupinu þetta árið. Við þurfum að hafa þessa hluti í betra horfi til að þátttakendur geti treyst á framkvæmdina. Spurningin er enn og aftur sú hver eigi að sinna ráðgjöf og eftirliti með framkvæmd almenningshlaupa. Er það FRÍ (almenningshlaupanefnd), RM eða ættu framkvæmdaraðilar hlaupa e.t.v. að koma á fót nefnd þar um.

Ég hef gaman að fylgjast með bætingum hlaupara og er alltaf jafn ánægður þegar ég sé að vel er tekið á í æfingum og keppni. Besta bætingahlaupið í maraþoni var Mývatn, í hálfmaraþoni Reykjavík og í 10 km Ármannshlaupið. Flatasta hlaupaleiðin er án efa í Brúarhlaupinu, en þar kom slæmt veður í veg fyrir almennar bætingar í ár. Í umfjölluninni á eftir er fæðingarár innan sviga. Varðandi umfjöllun um flokka og aldursflokkamet er m.v. afmælisdag eins og alþjóðaeglur segja til um.

Heildin:
Það er eðlilegt að ungu afrekshlaupararnir keppi fyrst og fremst á braut. Þó hljóp Sveinn Margeirsson (78) 10 km í RM á 32:04 sem sýnir að hann getur miklu betur í götuhlaupum en hann hefur gert. Það bíður betri tíma. Burkni keppti lítið, en kemur eflaust sterkari til leiks næsta ár. Gauti Jóhannesson (79) bætti sig í 33:59 og á mikið inni sbr. að hann hljóp 5.000 á 15:54 í Bikarkeppni FRÍ. Jósef (77) bætti sig einnig í 34:20. Guðmundur Gíslason (79) er framtíðarmaður í maraþonhlaupi, hljóp á 2:54:35 í RM og sýndi einnig að hann er smám saman að ná upp hraða sbr. 35:25 í Ármannshlaupinu. Athygli mína vakti 15 ára strákur Kári Steinn Karlsson (86) sem hljóp 10 km á 36:13 í RM.

Martha Ernstsdóttir (64) er að koma til baka eftir meiðsli og var nokkuð langt frá sínu besta (34:49-1:20:06) en ef ég þekki hana rétt verða tímarnir betri á næsta ári. Fríða Rún Þórðardóttir (70) átti nokkur ágæt 10 km hlaup (37:51 í RM). Rannveig Oddsdóttir (73) vann hálfmaraþonið á Akureyri á sínum besta tíma (1:26:19) og bætti sig einnig í 10 km á árinu (38:27). Ebba Kristín Baldvinsdóttir (74) átti gott hlaup í RM (1:32:52) og Bára Ketilsdóttir (68) bætti sig einnig vel, náði best 1:38:11. Rakel Ingólfsdóttir (85) er okkar helsta framtíðarvon í langhlaupunum, hljóp á 39:30 í RM og náði góðum árangri á brautinni m.a. 10:29 í 3.000 m hlaupi.

35 ára flokkur:
Daníel Guðmundsson (61) var sterkastur, en hafði þó hægar um sig en undanfarin ár. Mun eflaust gera tilkall til metanna í 40 ára flokki á næsta ári. Sveinn Ásgeirsson (64) stimplaði sig rækilega inn á árinu (37:14 - 1:22:57 - 3:14), en hann er nýliði í hlaupunum. Hann hefur tekið skjótum framförum og dró m.a. tennurnar úr þjálfara sínum í Barðsneshlaupinu. Ingólfur Gissurarson (62) var í góðu hlaupaformi en náði ekki nægilega út úr sér í keppnum, best 2:49:20 á Mývatni. Þorlákur Jónsson (65) bætti sig vel, náði 36:34 í Ármannshlaupinu og 1:22:18 í RM. Ívar A. Adólfsson, (62) byrjaði árið vel með því að hlaupa maraþon í Florída á 3:09:27 og síðan á 1:24:50 í RM. Dagur Egonsson (64) hljóp einnig vel á árinu (36:40-1:20:16). Engilbert Sigurðsson (64) er nýliði sem vert er að taka eftir, bætti sig stöðugt er á sumarið leið og endaði í 37:19 á Selfossi.

Martha Ernstsdóttir (64) er komin í öldungaflokk, en undanfarin ár hefur Erla Gunnarsdóttir (62), dugnaðarforkurinn í Grafarvogi, verið best í 35 ára flokki. Erla var ekki langt frá sínu besta í RM (1:32:34) þrátt fyrir að hafa verið að klífa fjöll dagana á undan.

40 ára flokkur:
Gautur Þorsteinsson (58) var spútnik ársins og stórbætti fyrri árangur sinn. Vann hálfmaraþonið á Akranesi á 1:19:49 og hljóp maraþonið á Mývatni á 2:58:24. Guðmann Elísson (58) var einnig sterkur, vann á Akureyri (1:20:03) og náði stórgóðum árangri á Laugaveginum (4:54:08). Trausti Valdimarsson (44 ára) átti sitt besta hlaupaár hingað til. Fór í fyrsta sinn undir 3 tímana (2:59:03 í RM) og stórbætti sig á Laugaveginum (5:18:22 ). Athyglisvert er að Trausti hljóp 10 km í Ármannshlaupinu á 37:50, aðeins 5 dögum eftir Laugaveginn. Það leika ekki margir eftir og sýnir best formið hjá Trausta. Jón Jóhannesson (60) byrjaði tímabilið vel (1:20:31 á Akranesi), en varð fyrir því óláni að handleggsbrotna.

Guðný Þöll Aðalsteinsdóttir (55) bætti sig mikið (1:41:19) og sama gerði Katrín Þórarinsdóttir (58) með 1:43:32. Hildur Ríkharðsdóttir stóð sig einnig vel (1:42:23).

45 ára flokkur:
Örnólfur Oddsson (56) er ávallt í góðu formi og bætti aldursflokkametið í 10 km í Ármannshlaupinu (35:28). Hann hljóp hálfmaraþonið undir 1:20 í Óshlíðarhlaupinu, en því miður fór tímatakan í vaskinn. Sigurjón Sigurbjörnsson (55) hefur aðeins æft hlaup í nokkur ár, en bætir sig stöðugt. Hljóp 10 km best á 36:22 og náði athyglisverðum árangri á braut. Varð Norðurlandameistari í 45 ára flokki í 1.500 (4:39) og hljóp 800 á 2:13 á M.Í. Ágúst Kvaran (52), prófessor, gerði góða ferð til Frakklands nýverið og hljóp 100 km rétt innan við 9 klst. Þórhallur Jóhannesson (53), prentari, kom sjálfum sér og öðrum á óvart með því að stórbæta sig á Mývatni (3:05:00) og fylgdi því eftir með bætingum á styttri vegalengdunum (37:57 og 1:28:10). Hörður Sverrisson (54), Grafarvogsbúi, stórbætti sig einnig (37:56 og 3:09:38). Fyrrum Ólympíufari í sundi, Guðjón Guðmundsson (52) frá Akranesi er sjaldséður á götunni hér á landi, en hann hefur búið um árabil í Danmörku. Hljóp vel í RM (1:28:15).

Helga Björnsdóttir (52) bætti fyrri árangur sinn í maraþoni um 7 mínútur (3:18:48) og setti aldursflokkamet. Ávallt létt á fæti, þessi hressa flugfreyja. Valgerður Ester Jónsdóttir (53) bætti sig einnig í maraþoni (3:36:21) og Gunnur Inga Einarsdóttir (55) hljóp gott hálfmaraþon (1:41:32) á Akranesi.

50 ára flokkur:
Stefán Hallgrímsson (48) er síungur og hafði yfirburði í flokknum, hljóp best 10 km á 37:02 í Ármannshlaupinu. Ómar Kristjánsson (48), ferðafrömuður, bætir sig stöðugt og vantaði herslumuninn til að brjóta þekktan múr, hljóp á 40:01 í sama hlaupi.

Bryndís Magnúsdóttir (50) er búinn að keppa um langt árabil og bætti aldursflokkametið í 10 km (43:57). Góður árangur það.

55 ára flokkur:
Birgir Sveinsson (45) er kominn á góða ferð aftur, hljóp á 1:28:54 í RM og síðan 40:11 í Brúarhlaupinu, sem hvorttveggja eru glæsileg aldursflokkamet. Eldri metin átti Akureyringurinn Davíð Haraldsson, sem átti í erfiðum kálfameiðslum í sumar. Gaman er að sjá að Jóhann Heiðar Jóhannsson (45) er kominn aftur í götuhlaupin eftir nokkurt hlé (1:30:49 í RM) en hann er einn frumkvöðlanna í skokkinu. Ég minnist áranna í kringum 1980 þegar Jóhann Heiðar bauð gjarnan upp á sérlagaðan drykk eftir sunnudagstúrana í Heiðmörkinni. Sigurður Gunnsteinsson (41) lætur ekki að sér hæða og hefur nýlokið við keppni í 100 km í Frakklandi. Sigurður K. Jóhannsson (43) hefur verið lengi að og hljóp 10 km prýðilega í Miðnæturhlaupinu (42:47). Sigurjón Andrésson (41) vantar nokkra mánuði í sextugt og skilar ávallt sínu (1:39:13 í RM).

Ég man eftir Fríðu Bjarnadóttur (46) í keppni fyrir 20 árum. Hljóp m.a. Bostonmaraþonið 1984 á 3:25:00. Fríða er ótrúleg og stórbætti aldursflokkametið í 10 km (48:47). Björgu Magnúsdóttur (46) vantaði herslumunin til að bæta metið í hálfmaraþoni (2:01:15).

60 ára flokkur:
Ingólfur Sveinsson (39), frumkvöðull Barðsneshlaupsins, gerði vel í RM er hann hljóp maraþonvegalengdina á 3:51:52. Jörundur Guðmundsson (41) stimplaði sig vel inn í nýjan aldursflokk (1:42:12 í RM). Stefán Briem (38) hljóp líka vel (52:32-1:50:56).

Emililía Súsanna Emilsdóttir (40) hefur tekið þátt í hlaupum í mörg ár og er jafnan í góðu formi (60:54 í RM).

65 ára flokkur:
Eysteinn Þorvaldsson (32), fyrrum júdókappi, hefur tekið þátt í hlaupum um langt árabil og stendur sig ávallt vel. Hann er að nálgast sjötugt, en hleypur enn vel undir 50 mín í 10 km (47:17 í Ármannshl. og 47:31 í Miðnæturhl.).

70 ára og eldri:
Akurnesingurinn Þorsteinn Þorvaldsson (24) er sá elsti sem ég veit til að tekur þátt í almenningshlaupum að staðaldri. Hann hljóp hálfmaraþon bæði á Akranesi (2:12:28) og í Reykjavík (2:18:18). Jón Guðlaugsson (26) er aðeins yngri og er hvergi nærri hættur, hljóp á 1:58:45 á Akureyri og 4:53:55 í Reykjavík.

Öldungar ársins:
Það er ekki auðvelt val. Séu tímar lagðir til grundvallar myndi ég nefna Helgu Björnsdóttur fyrst kvenna. Í karlaflokki vandast valið. Þar finnst mér að komi til greina Birgir Sveinsson, Stefán Hallgrímsson, Jón Guðlaugsson, Eysteinn Þorvaldsson, Guðmann Elísson, Ágúst Kvaran og Sigurður Gunnsteinsson. Sem athyglisverðustu árangra ársins myndi ég nefna hálfmaraþonið hjá Gauti Þorsteinssyni og Laugaveginn hjá Guðmanni Elíssyni og Hafliða Sævarssyni (66). Hjá konunum er maraþonafrek Helgu athyglisverðast að mínu mati.

Lokaorð:
Örugglega hef ég gleymt að minnast á einhvern sem stóð sig vel á árinu, en þið bætið þá úr því. Vonast til að sem flestir æfi vel og reglulega í vetur. Hef nokkrar áhyggjur varðandi þróunina í almenningshlaupunum. Líklegt að þeim muni fækka á næsta ári því ekki er hægt að framkvæma hlaup með litlum sem engum hagnaði til lengdar. Tel mikilvægt að áhugamenn um hlaup hittist í haust og fari yfir stöðuna.