Pistill 28: Fjallahlaup reyna á marga þætti

birt 01. febrúar 2004

Ég tók þátt í Þorvaldsdalsskokkinu sem fram fór 6. júlí síðastliðinn. Veður var mjög gott og synd að einungis 19 mættu til hlaups. Sá á úrslitum úr Krókshlaupinu, sem fram fór sama dag, að nokkrir Akureyringar voru þar á meðal þátttakenda. Vissulega hafa menn frjálst val, en mín skoðun er sú að hlauparar verði að styðja við keppnishlaupin í heimabyggð. Ekkert hlaup getur til lengdar byggt tilveru sína á þátttöku aðkomumanna. Reyndar var engan bilbug að sjá á Bjarna E. Guðleifssyni og félögum sem staðið hafa að hlaupinu með myndarbrag. Höfðu þeir orð um að næsta ár myndu þeir leggja meira í kynningu á Þorsvaldsdalsskokkinu sem þá verður þreytt í 10. skiptið.

Við upphaf hlaupsins við Fornhaga í Hörgárdal ávarpaði Bjarni mannskapinn og sagði m.a. að þátttakendum væri í sjálfvald sett hvaða leið þeir færu svo framarlega sem hún lægi um Þorvaldsdalinn og endað væri við Árskóg. Hlaupaleiðin krefðist úthalds, styrks, fótvissu og ekki síst útsjónarsemi. Þetta er einmitt það skemmtilega við svona hlaup, - það er ekki nóg að vera í góðu úthaldi. Engar merkingar eru á leiðinni og þar sem ég hafði aldrei farið hana áður þurfti ég að byrja að leggja mat á hversu hátt ég mætti fara í hlíðina, en fyrsti spölurinn er vel á fótinn um 450 m hækkun. Síðan er mikilvægt að svipast um eftir kindagötum og reyna að spá í hvert þær liggja. Ekki fannst mér auðvelt að reikna kindurnar út og finna hver væri aðalgatan þeirra. Þóttist stundum kominn á bestu leiðina þegar hún skyndilega fjaraði út. Fyrst í stað taldi ég vænlegast að halda mér nokkuð vel upp í hallanum til að forðast mýrarnar, en þegar leiðin virtist ganga upp og niður eins og í rússíbana fór ég niður á flatann nær ánni og lét vaða í gegnum mýrarflákana.

Ef maður ætlar að reyna að halda uppi sæmilegum hraða er eins gott að hafa einbeitinguna í lagi, því leiðin er oft ansi grýtt og eins gott að vita hvar maður stingur niður fæti. Kannski má líkja þessu við Formúluna. Ekki fannst mér ráðlegt að reyna að hlaupa yfir stærra berghlaupið ca 200 m sem er mjög stórgrýtt. Heyrði hins vegar að nokkrir hefðu farið þann hluta á spretti. Síðustu 5 km eru á þokkalegum malarvegi og þá loks gat ég farið að nýta mér minn aðalstyrkleika sem kalla má vélrænt hlaupalag. Það dugir best á flatanum, en skilar litlu þegar sífellt er verið að stytta skrefin, beygja og hoppa milli steina. Þetta er sjarminn við fjallahlaupin, það þarf fjölþættan styrk til að ná árangri. Þegar litið er yfir úrslit fyrri hlaupa sést að þar hafa nokkrar ,,fjallageitur" náð stórgóðum tímum og vil ég sérstaklega nefna Sigurð Bjarklind, sem þekktastur er fyrir fallhlífarstökk og skíðagöngu, sem hljóp á 2:09:03 klst. þá 49 ára gamall.

Þó svo fjallahlaup séu ekki mín sterkasta hlið finnst mér þau æ meira heillandi. Hafði mjög gaman af að takast á við Barðsneshlaupið í fyrra og Laugaveginn fyrir þremur árum. Fjallahlaupin eru að verða vinsælli erlendis og fer vegur þeirra vaxandi. Þann 7. júlí fór fram á eynni Madeiru fyrsta Evrópumeistaramótið í fjallahlaupi (13,2 km karla og 9 km kvenna). Heimsmeistaramót hefur hins vegar verið haldið um nokkurt árabil. Á hverju ári fer einnig fram stigakeppni 6 hlaupa (Grand Prix). Í fyrra bættist svo við heimsmeistaramót öldunga sem fór fram í Póllandi og var m.a. keppt í 70 ára flokki. Sem sagt margt spennandi að gerast í þessum geira. Mér dettur í hug hvort ekki mætti búa til stigakeppni úr fjallahlaupunum okkar (Laugav-Þorv-Vatnsnes-Barðsnes). Í lokin má nefna að stjórn FRÍ hefur nýlega samþykkt að gerast aðili að Evrópusamtökum fjallahlaupa. Við komum því til með að fylgjast vel með framvindu þessara mála. Hver veit nema einhver af okkar ungu langhlaupurum leggi fjallahlaup fyrir sig þegar brautarferlinum líkur.

Laugavegurinn er framundan hjá mörgum langhlaupurum. Vissulega ærið verkefni en skemmtileg áskorun. Óska hinum stórhuga þátttakendum góðs gengis.