Pistill 29: Þjálfun - Tímarnir breytast og mennirnir með

birt 01. febrúar 2004

Ég var að glugga í bók sem ber heitið ,,Úti-íþróttir" sem ÍR gaf út árið 1934. Höfundar hennar eru þekktir danskir þjálfarar á þeim tíma, Carl Silverstrand og Moritz Rasmussen. Jón Kaldal skrifar formála og hvetur lesendur til að tileinka sér efni hennar. Bókin sé gefin út til að bæta úr mikilli vöntun á tilsögn. Hún hefur vafalaust gert það á sínum tíma, en margt hefur breyst í þjálfunaraðferðum og viðhorfum frá þessum tíma.

Í bókinni er t.d. hvergi minnst á konur enda segir í upphafskafla: ,,Úti-íþróttir eru af öllum sem til þekkja álitnar karlmannlegastar og glæsilegastar allra íþrótta." Mikil áhersla er lögð á að menn beri sig vel, séu tignarlegir og hafi fagrar hreyfingar. Í því skyni er íþróttamönnum ráðlagt að iðka fimleika tvisvar í viku á undirbúningstímabilinu. Fróðlegt er að grípa niður í nokkrar ráðleggingar:

Þjálfun fyrir 1500-3000 m hlaup:
,,Gönguferðir að vetrarlagi, tvisvar í viku 7-8 km til að byrja með og auka svo vegalengdina smátt og smátt. Gangurinn á að vera í léttum, hröðum takt, hreyfingin mátuleg og upplitið djarft og frjálsmannlegt. Sjálfsagt er að venja sig á það í upphafi að bera fæturna beint fram á göngunni, það hefir mikla þýðingu, því á þann hátt nýtast skrefin bezt og afl ristanna eykst. Þegar kemur fram í marzmánuð, er byrjað að hlaupa á vegum, og á sú æfing aðallega að vera þolhlaup allt að 8 km með mismunandi hraða og vegalengdum. Bezt er að æfa sig þrisvar í viku." Eitthvað voru menn byrjaðir á hraðaæfingum á þessum árum því þegar nær dregur keppnistímabili má lesa eftirfarandi: ,,Mikla rækt verður að leggja við viðbragðið og stutta spretti t.d. hlaupa 200 m 2-3 sinnum með 10 mín. hvíld á milli spretta. Einnig er gott að hlaupa 400-600-800 og 1.000 m með miklum hraða, og 3-4 umferðir á hringbrautum þannig að fyrsti hringur er hraður, næsti hægur og þannig til skiftis."

Þjálfun fyrir víðavangshlaup:
,,Það er ekki öllum hennt að leggja fyrir sig víðavangshlaup, það er aðeins fyrir þá, sem eru þolhlauparar. Þeir sem æfa víðavangshlaup verða að sjálfsögðu sterkir og þolnir, en þessir hæfileikar þroskast aðeins þannig að spretthraði minnki. Þeir sem hlaupa á víðavangi, einkum ef þar er harður jarðvegur, verða ætíð nokkuð spenntir í hlaupinu. Hlauparinn verður ætíð að vera viðbúinn að taka hindrunum og ýmsum ójöfnum og það hefir sín áhrif…………Þegar menn eru að æfa víðavangshlaup, er sjálfsagt að vera hlýtt klæddur. Því miður eru þeir æði margir, sem æfa sig illa klæddir, annað hvort af hugsunarleysi eða til þess að sýnast harðfengnir."

Þjálfun fyrir maraþonhlaup:
,,Það má sjálfsagt deila um hvort hlaup þetta hefir tilverurétt, því það er vafasamt hvað það er gott fyrir líkamann, að leggja eins mikið að sér, eins og gert er í svo löngu hlaupi. Sá sem ætlar að leggja fyrir sig hlaup þetta, verður að hafa ódrepandi viljaþrek, óbilandi þol og sterkan líkama. Það er ekki ráðlegt að taka þátt í keppni fyrstu tvö árin, sem maður æfir hlaupið. Fyrst er að reyna að ná góðum árangri í 5 og 10 km hlaupi. Það leiðir af sjálfu sér, að jafnmikil þrekraun og maraþonhlaupið er, stenzt enginn nema að hann hafi langan og nákvæman undirbúning……..Hafið það hugfast, að maður á ekki að leggja of mikið að sér. Aðaltakmark íþrótta er heilbrigði og hreysti, verði útkoman önnur, er eitthvað verulega bogið við það, eða að íþróttin sjálf á ekki tilverurétt……..Þegar að keppni kemur, er engin ástæða til að hlaupa mjög hratt í byrjun. Það verður venjulega til þess, að of mikil orka eyðist, og menn verða fljótlega úr leik. Ró og jafnlyndi er mikils virði. Í keppninni á maður ekki að hyggja of mikið að keppendum sínum, en reyna að dreifa huganum með því að skoða náttúruna í kringum sig…. Þjálfunin er innifalinn í löngum göngum að vetrarlagi, og síðasta mánuðinn fyrir hlaupið, verður að fara alla vegalengdina vikulega gangandi. Þar næst er æft víðavangshlaup og hlaup á vegum, en á brautum er æft 3.000 til 10.000 m hlaup. Það verður að teljast nægilegt, að æfa hlaupin þrisvar í viku, en gott er einu sinni í viku að fara röska gönguferð. Maraþonhlaupari verður að fara vel með fæturna og hyggja vel að skófatnaði. Skórnir eiga að vera úr mjúku leðri með leðursólum og gúmmíhælum - togleðurshælum. Sokkarnir mjúkir og þykkir með vatt- eða ullarilleppum. Það getur líka verið gott að vera í tvennum sokkum og bretta aðra utan yfir skóna, það varnar því að sandur og möl fari ofan í þá. Þeir sem hafa viðkvæma fætur, geta ekki tekið þátt í maraþonhlaupi."

Getum við lært eitthvað af þessu?
Örugglega finnst mörgum í dag að þjálfarar hafa verið ansi varkárir í þá daga, enda virðist mikið lagt upp úr því að iðkendur fari vel með sig og ofreyni sig ekki. Æfingaharkan var lítil og finnst manni skrítið að maraþonhlaupari skuli einungis stunda gönguferðir og fimleikaæfingar á tímabilinu okt-feb. Staðreyndin er líklega sú að mönnum hafi einfaldlega ekki verið ljóst hversu mikið mætti bjóða líkamanum, enda aðstæður og búnaður ekki sá sami og síðustu áratugi. Ég hefði ekki viljað hlaupa 100-150 km á viku á skóm sem voru eins og sandalar. Kannski þess vegna að menn lögðu svo mikla áherslu á gönguferðir. Nútímahlauparinn væri lítt fáanlegur til þess arna, en hafa ber í huga að ganga skipaði á þeim tíma miklu hærri sess sem íþróttagrein en hún gerir í dag. Þekkingu á þjálfun hefur fleygt fram, en eigi að síður eiga sumar ráðleggingar þeirra gömlu enn við í dag. Skoði nú hver fyrir sig.