Pistill 3: Hvernig getum við bætt stöðu lengri hlaupa ?

birt 01. febrúar 2004

Í umræðum um fyrsta pistil minn voru flestir sammála um að staða millivegalengda- og langhlaupa á Íslandi væri óviðunandi hvað árangur varðar. Ég tek undir þetta, en sé jafnframt góða sóknarmöguleika. Ég bind miklar vonir við að þeir bræður Sveinn og Björn Margeirssynir verði innan fárra ára samkeppnisfærir í langhlaupum í landskeppnum. Þeir hafa hæfileikana til að ná núgildandi Íslandsmetum. Eins finnst mér að birta til í millivegalengdahlaupunum þar sem nokkrir ungir hlauparar eru að hlaupa mjög vel.

Staðreyndin er hins vegar sú að þegar til lengdar lætur telur ekki að vera efnilegur. Það er langur vegur og mikil vinna á milli þess að vera efnilegur og góður. Við eigum t.d. einungis að líta á 1:53 mín í 800 m hlaupi hjá 18 ára strák sem vísbendingu um að hann geti orðið góður.

Haustið 1988 var ég fenginn til að halda erindi á fundi með 15-20 bestu hlaupurunum á Íslandi. Þetta erindi á ég til, en fann ekki í geymslunni þegar ég fór að leita, enda er ég búinn að sanka ansi miklu að mér af blöðum, bókum, úrslitum og fleiru tengdu hlaupum. Mætti reyndar vera betra skipulag á þessu. Hvað um það, en mig minnir að ég hafi skipt þessu upp í nokkra þætti: 1) staðan, 2) markmið, 3) leiðir. Ætla ég að styðjast við þau efnistök hér.

Hvers vegna erum við ekki betri ?
Ef maður lítur á ársafrekaskrár FRÍ er ljóst að árangur í millivegalengda- og langhlaupum hefur verið mun lakari undanfarin ár en t.d. á níunda áratugnum. Bæði hvað snertir toppana og breiddina. Af hverju er þetta svona? Maður hefði haldið að nýjar gerviefnabrautir og bætt innanhússaðstaða (hlaupabretti, lenging á Baldurshaga o.fl.) auðveldaði hraðaæfingar. Meira að segja er hægt núna að finna víða í Reykjavík auða götuspotta þegar hált er vegna fleiri hitalagna. Einnig ætti aukinn fjöldi götuhlaupa að virka hvetjandi fyrir bestu hlauparana jafnt sem skokkarana. Fyrir 20 árum voru nánast engin götuhlaup á tímabilinu maí-okt. Yfir veturinn voru nokkur götuhlaup með 10-20 þátttakendum að jafnaði. Hafa íþróttafélögin brugðist eða hefur FRÍ brugðist? Eða er kannski breyttum samfélagsaðstæðum mest um að kenna, þ.e. ungt fólk vilji í dag síður leggja á sig mikið erfiði án þess að fá greitt fyrir það sbr. fótboltann. Fróðlegt væri að fá skoðanir lesenda á þessu.

Markmið
A) Við verðum að stefna að því að eignast hlaupara innan fárra ára sem eru samkeppnisfærir í landskeppnum. Sem dæmi um markmið set ég eftirfarandi upp, sem lesendur geta síðan velt fyrir sér. Tek fram að þessir tímar eru settir niður af tilfinningu, en ekki byggðir á neinni tölfræðilegri úttekt:

             árið 2002       árið 2005
800 m           1:49            1:47
1.500 m         3:49            3:40
3.000 m H       8:45            8:39
5.000 m        14:15           13:55
10.000 m       30:09           29:00

 

Að svo komnu máli set ég ekki upp markmið fyrir konurnar, en það sama á við þær að staðan er ekki góð. Því miður virðist engin í sjónmáli til að taka við af Mörthu Ernstsdóttur.

B) Við verðum að stefna að því að eiga a.m.k. 10 manna hóp langhlaupara sem hægt er að velja úr til þátttöku í Víðavangshlaupi Norðurlanda og Víðavangshlaupi heimsins. Þátttaka í slíkum keppnum er mikil hvatning og góð reynsla. Ekki fráleitt að stefna að þátttöku í þessum hlaupum þegar árið 2001.

Leiðir
Það er örugglega misjafnt hvaða þættir hafa mest áhrif á hvern hlaupara. Þó held ég að um nokkur grundvallaratriði sé að ræða sem skipta alla máli. Þá vil ég nefna skipulag mála hjá félögum og FRÍ. Allir vilja hafa einhver verkefni til að stefna að. Öll óvissa þar um, verðum við með eða ekki, er þreytandi. Æfingabúðir FRÍ 2000 hafa örugglega skilað sér í unglingastarfinu, en því ættu millivegalengda- og langhlauparar ekki að taka slíkt upp líka t.d. um páskana á Laugavatni eða erlendis. Æfinga- og keppnisferðir erlendis skiluðu mér t.d. miklu.

Margt annað má hugsa sér til hvatningar og eflingar áhuga t.d. fræðslukvöld eða félagakvöld (myndasýningar o.fl.) að vetri til. Veturinn er svo langur hjá okkur að nauðsynlegt er að hafa eitthvað til upplyftingar annað slagið. Spurningin er alltaf sú hver er tilbúinn að halda utan um þetta. Félag maraþonhlaupara hefur gert ágæta hluti fyrir sinn félagshóp. Spurning hvort þeir yngri sem stefna frekar að árangri á braut, eru tilbúnir að gera eitthvað svipað eða taka upp samstarf við "miðaldra skokkarana".

Lokaorðin mín hér eru að hlauparar ræði þessu mál og komi síðan saman til fundar í september til að taka stöðuna og ákvarða um framhaldið. Með aukinni samkennd og samstarfi næst betri árangur.

Viltu segja þína skoðun á þessu máli eða ertu til í að senda inn nokkrar vikur úr æfingadagbók? Farðu á umræðusvæðið eða sendu á hlaup@hlaup.is