Pistill 32: Tillaga að nýju fyrirkomulagi um hlaupadagskrána

birt 22. júní 2004

Fyrr á árum hélt Víðavangshlaupanefnd FRÍ, síðar Almenningshlaupanefnd, utan um víðavangs- og götuhlaupin. Starf nefndarinnar var dauft um margra ára skeið og hélt starfsmaður Reykjavíkurmaraþons utan um hlaupaskrána. Hann sinnti hins vegar lítið ráðgjöf og eftirliti með framkvæmd hlaupanna, enda óljóst hvort það væri í hans verkahring. Nú hefur sú breyting orðið að ÍBR hefur tekið að sér framkvæmd Reykjavíkurmaraþons. Hins vegar hefur ÍBR engar skyldur varðandi framkvæmd eða utanumhald um hlaup utan Reykjavíkur. Ljóst er að koma þarf þessum málum í fastari skorður en verið hefur undanfarin ár.

Óumdeilt er að götuhlaup falla undir frjálsíþróttir skv. alþjóðlegri skilgreiningu. Þess vegna tel ég eðlilegt að Hlaupadagskráin verði hluti af mótaskrá FRÍ. Hugmynd mín er í stuttu máli þessi:

Umsjón og eftirlit

  1. FRÍ sjái um og beri ábyrgð á Hlaupaskrá FRÍ. Hlauphaldarar gerist aðilar að henni gegn tilteknu gjaldi, sem renni til kynningarstarfsemi. Hlaupin verði flokkuð í keppnishlaup (5 km, 10 km, hálfmaraþon og maraþon) utanvegahlaup og skemmtiskokk.
  2. Lög og reglur um framkvæmd hlaupa (með vísan í alþjóðlegar reglur) verði útbúnar og dreift af hálfu FRÍ til hlauphaldara. Eins og gefur að skilja eru reglur um framkvæmd keppnishlaupa nákvæmari, enda gert ráð fyrir að árangur í þeim fari á afrekaskrá.
  3. Nefnd (3-5 manna) þar sem sæti eiga fulltrúar FRÍ, skokkhópa og íþróttafélaga sjái um e.k. ráðgjafar- og eftirlitskerfi til að tryggja gæði hlaupanna.
  4. Nefndin sjái um mælingaþjónustu á hlaupaleiðum. FRÍ sjái til þess að til staðar sé mælingarmaður með réttindi m.a. með námskeiðsstyrkjum.

Kynningarstarfsemi

  1. FRÍ geri samkomulag við hlaup.is um að viðhalda hlaupadagskránni ár hvert.
  2. Hlaup.is kynni skrána á netinu, við hlaupaviðburði og í fjölmiðlum.
  3. Hlaup.is birti úrslit allra hlaupa á skránni á netinu.
  4. Þeir sem gerast aðilar að Hlaupaskrá FRÍ greiði tiltekið gjald, sem fari eftir eðli og stærð hlaups. Í staðinn fá þeir aðgang að ráðgjöf, eftirliti og kynningu.

Hvað finnst ykkur ágætu hlauparar ? Þetta mál er hægt að ræða á Spjallþráðunum.