Pistill 6: Fyrir Reykjavíkurmaraþon

birt 01. febrúar 2004

Nú styttist í stóra daginn hjá mörgum. Ég sjálfur er að fyllast spenningi, en jafnframt kvíða. Ég er spenntur yfir því að takast á við maraþonvegalengdina, sem mér finnst alltaf sérstakt og ögrandi verkefni. Ég er hins vegar kvíðinn vegna veðursins, sem alltaf er mikið happdrætti á hlaupdag. Svo hef ég líka nokkrar áhyggjur af mínum gömlu og þreyttu fótum, hvort þeir skili mér alla leið. Ég er nefnilega loks búinn að átta mig á því að ég er orðinn miðaldra og þá er það ekki bara veðrið sem maður þarf að hafa áhyggjur af. Í einu innskotinu við pistlana mína var einn svo vinsamlegur að benda mér á að ég væri núna orðinn ,,miðaldra skokkari." Þetta er auðvitað rétt hjá honum og líklega best fyrir mig að fara því að draga aðeins úr keppnisviljanum áður en verra hlýst af. Vonandi er þó langt í að maður komist á ,,hvernig hefurðu það" aldurinn. Man eftir því í sveitinni að gömlu kallarnir spurðu alltaf hvor annan fyrst að því eða ,,hvernig er heilsan." Svörin voru oft á þá leið að þeir hefðu það bærilegt en bölvuð gigtin gæfi sig ekki.

Mér finnst jákvætt að RM fari fram á laugardegi, en hefði viljað sjá fleiri götum lokað. Við Íslendingar erum skrítnir í þessum efnum. Það virðist ekkert mál vera að loka götum í London, New York og fleiri stórborgum. Ég vonast til að þessi breyting hafi þau áhrif að fleiri áhorfendur verði við hlaupaleiðina. Annað er líka skrítið og það er að þó svo RM hafi farið fram þessa helgi í nærri 20 ár þá er enn til fólk sem rekur í rogastans þegar það þarf að bíða við gatnamót vegna hlaupara. Kannski er orðið svo mikið fjölmiðlaefni á boðstólum að fólk hreinlega kemst ekki yfir að fylgjast með öllu því sem er að gerast. Held það sé til bóta að færa verðlaunaafhendinguna fram og hafa hana í miðbænum. Fólk getur þá í millitíðinni farið í sund og fengið sér kaffi. Þetta setur auðvitað álag á úrslitavinnsluna, en ég treysti vel því afburðafólki sem hefur séð um þann þátt með Friðrik Þór í forystu.

Ég tek undir áhyggjur þeirra sem hafa fjallað um startið, en við verðum að treysta á starfsmenn RM. Þeir hljóta að hafa skoðað þetta vel. Það sem mér finnst óþægilegast eru línuskautafólkið. Þeir voru ekki nema 67 í fyrra en hvað gerist ef þeir verða 200-300 núna. Þar er mestmegnis um að ræða fólk undir tvítugu sem lítið þekkir til hlaupara. Í Miðnæturhlaupinu fór t.d. fram úr mér um 12 ára strákur með miklum látum og tók hann um 2-3 metra á breiddina. Ég er alveg óvanur því að kljást við slíka kappa og þeir við mig. Því ekki láta línuskautana byrja með skemmtiskokkinu? RM er flókin framkvæmd, en ég veit að starfsmenn eru reynslumiklir og gera sitt besta. Það er því engin ástæða til að vera með óþarfa áhyggjur. Aðalatriðið er að hver og einn undirbúi sig sem best. Vonast til að sjá ykkur sem flest á föstudaginn við afhendingu gagna því þar byrjar í raun hlaupið. Menn hittast og bera saman bækur sínar og adrenalínið byrjar að hreyfast.

Bestu óskir um gott gengi í hlaupinu.