Pistill 8: Ekki vanmeta drykkina

birt 01. febrúar 2004

Ég er einn þeirra sem lenti í erfiðleikum í RM vegna þess að ég drakk of lítið framan af. Skyndilega um 27 km minnkaði hraði minn um hálfa mínútu á km og 2-3 km síðar um aðra hálfa mínútu. Ég byrjaði strax að drekka eins og hægt var og tókst að rífa mig nokkuð upp síðustu 5 km af hlaupinu. Fyrir hlaupið var áætlunin sú að taka eins fáa drykki og ég taldi unnt að komast af með og tók ég t.d. fyrsta drykkinn eftir 10 km. Ég taldi mig vera að byggja á reynslunni og framarlega í huga mér var að ég komst af með litla drykkju í Mývatnsmaraþoni 1999, en þá var hitastigið reyndar 6-7 °C ásamt rigningu. Aðalástæðan í ,,gamla" daga fyrir takmarkaðri vökvainntöku minni var að þá var minni hætta á hlaupasting, sem ég var nokkuð viðkvæmur fyrir.

Eftir á séð tók ég rangar ákvarðanir í RM varðandi drykkjarmálin. Í fyrsta lagi var 16-17°C hiti og glampandi sól og því samanburður við Mývatn algjörlega óraunhæfur. Þó þessi hiti sé ekki hár á erlendan mælikvarða hefur hann áhrif á okkur Íslendinga sem erum varnir að æfa og keppa við nær alltaf kaldari aðstæður. Í öðru lagi var óraunhæft hjá mér að taka mið af reynslunni þegar ég var upp á mitt besta. Ég er mun þyngri núna og síðan skiptir keppnisformið miklu máli. Sá sem er léttur og er í góðu formi er eins og lítill sparneytinn bíll í samanburði við hinn sem má líkja við stóran og eyðslufrekan amerískan bíl. Þeir leggja af stað með sömu birgðirnar, en sá sparneytni kemst eðlilegra lengra. Í þriðja lagi eru líkurnar á hlaupasting vegna vökvainntöku minni eftir því sem maður fer hægar þ.e. ekki hægt að bera saman 3:20 mín og 4:00 mín. tempó.

Torfi H. Leifsson skrifaði ágæta grein í Hlauparann (3.tbl. 1995) um nauðsyn þess að drekka við áreynslu. Þar segir hann m.a.: ,,Líkaminn tapar heilmiklu af vökva þegar hann svitnar og ef maður tapar 2% af líkamsþyngd sinni (1-1,5 líter) án þess að bæta líkamanum það upp, þá hefur verið sýnt fram á að afkastagetan minnkar um allt að 10-20%. Þetta þýðir minnkandi hraða hjá hlaupurum, jafnvel 1/2 - 1 1/2 mín á hvern km, sem er mjög mikið. Það er því geysilega mikilvægt að tryggja nægilega vökvainntöku meðan á æfingu og keppni stendur til að viðhalda eðlilegum afköstum." Svo einfalt er nú þetta og ég get einungis sagt við sjálfan mig að ég er enn að læra. Við ykkur sem hafið skemmri keppnisreynslu að baki segi ég: Vanmetið ekki mikilvægi drykkjanna, en prófið ykkur áfram á æfingum.

[Frá Hlaupasíðunni: Greinin "Nauðsyn þess að drekka við áreynslu" er hér á Hlaupasíðunni. Einnig er umfjöllun á Umræðugrunni Hlaupasíðunnar.]