Pistill 9: Hafa afrekaskrár gildi ?

birt 01. febrúar 2004

Ég er núna að vinna að uppfærslu á afrekaskránni, sjá nánari skýringar í lok pistilsins, enda hef ég tilkynnt að hún verði tilbúin í lok þessa mánaðar. Ég byrjaði fyrst að taka saman afrekaskrána í maraþonhlaupi fyrir tuttugu árum og síðan bættist við afrekaskráin í hálfmaraþoni og 10 km skrána byrjaði ég að vinna fyrir átta árum. Þetta er tímafrek vinna ef vel á að vera, en er þó mun auðveldari nú til dags en áður vegna tölvutækninnar. Ég hef gert þetta vegna þess að ég hef áhuga á þessu og hef þá trú að slíkar skrár hafi útbreiðslugildi og jafnframt sagnfræðigildi. Einnig er mér annt um að afrekaskrár séu rétt unnar, en til þess þarf nokkra þekkingu. Ég minnist þess að þegar afrekaskrá 100 bestu í einstökum greinum frjálsíþrótta kom út árið 1972 þá virkaði hún mjög hvetjandi á mig og mína félaga. Við settum okkur t.d. markmið fyrir hvert ár um að komast í 50. sæti, síðan 30. sæti o.s.frv.

Ég hef undanfarin þrjú ár komið með uppfærða afrekaskrá og boðið hana til sölu við afhendingu gagna RM. Salan hefur ekki verið mikil þó svo ég hafi orðið var við töluverðan áhuga. Ég hef því stundum spurt mig að því hvort ég eigi að vera að standa í þessu. Niðurstaða mín af þessum vangaveltum er sú að gefa skrána út núna og sjá til hvernig viðtökur verða. Jafnframt ætla ég að kanna áhuga hlaupara á að gerast áskrifendur að skránni á netinu árið 2001 í samstarfi við Hlaupasíðuna. Fyrirkomulagið yrði á þann veg að afrekaskráin frá upphafi yrði uppfærð fjórum sinnum á ári (t.d. 1. jan, 1. júlí, 1. ágúst, 1. september). Ég hef einnig hug á að uppfæra á sama hátt ársbesta í hverjum aldursflokki (Topp 10). Hver áskrifandi myndi þá fá lykilorð í hendur og geta þannig sótt skrána á netið hvenær sem er. Gott væri að fá viðbrögð við þessu, en töluverða vinnu og peninga þarf til að koma þessu til leiðar.

Afrekaskrána sem kemur út í lok þessa mánaðar býð ég til sölu á kr. 990 að viðbættum sendingarkostnaði. Eftir því sem fleiri lýsa áhuga sínum á að kaupa hana þá get ég lagt meira í hana varðandi útlit og prentun. Markmiðið hjá mér hefur ekki verið að græða á þessu, en ef einhver hagnaður verður þá mun ég verja honum til að greiða skuldir vegna tímaritsins Hlauparans, en þar á ég eftir að greiða upp nokkurt tap, svo og til að netvæða skrána ef áhugi reynist fyrir því.

Nánari upplýsingar: Í afrekaskránni er skrá yfir 50 bestu tímana frá upphafi í heild og í hverjum aldursflokki karla og kvenna (35-39 ára, 40-44 ára o.s.frv) í 10 km, hálfmaraþoni og maraþoni. Auk þess eru upplýsingar um 5 bestu í aldursflokkum í brautarhlaupum frá 800 m til 10.000 m. Einnig afrekaskrá Laugavegsins eftir aldursflokkum og upplýsingar um ofurmaraþon Íslendinga á erlendri grund. Pantið skrána í síma 864-6766 eða á netinu: sigurdur.p.sigmundsson@vmst.stjr.is