Sögubrot úr Gamlárshlaupi ÍR

birt 28. desember 2007

Þegar þetta er skrifað er snjór yfir öllu og töluvert frost, en veðurspáin gerir ráð fyrir hlýnandi veðri. Samkvæmt því gæti orðið ágætis hlaupafæri á Gamlársdag en hugsanlega nokkur vindur. Sagan segir að mjög erfitt sé að spá í áramótaveðrið hverju sinni. Hlauparinn verður að vera tilbúinn að taka hverju sem er á þessum árstíma. Gott færi og gott veður er í rauninni bónus á Gamlársdag.

Ég keppti fyrst í Gamlárshlaupi ÍR árið 1977 er það fór fram í annað skiptið. Þá voru keppendur 13 og þótti ágætt. Hlaupið á Gamlársdag 1978 er hins vegar mun eftirminnilegra. Í umsögn Mbl. segir um hlaupið: ,,Hvorki fleiri né færri en 18 hlauparar mættu til leiks í þessu hlaupi, þrátt fyrir að þennan dag hafi verið mesta fannfergi í 54 ár á höfuðborgarsvæðinu." Ég minnist þess að það snjóaði nær stanslaust alla nóttina og fram eftir morgni. Þegar hlaupið hófst hafði ekki unnist tími til að hreinsa neinn snjó af hlaupaleiðinni, enda hálfgert neyðarástand víða í borginni. Við þurftum því að ösla jafnfallinn snjóinn upp á miðja kálfa og jafnvel upp í hné alla leið, sem er ansi erfitt í tæpa 10 km. Kvöldið eftir var ég í hópi frjálsíþróttafólks í heimahúsi að horfa á fréttamynd í Sjónvarpinu af hlaupinu. Þá vakti mikla kátínu að Jón Guðlaugsson, maraþonhlaupari, kom á miklum spretti í lok hlaupsins en ekki vildi betur til en svo u.þ.b. tíu metrum frá endamarkinu að hann missti fótanna og hvarf inn í snjóskafl svo einungis hvítt snjóský sást á skjánum. Skýringin á þessum hraða endaspretti karlsins var sú að Ómar Ragnarsson, þáverandi íþróttafréttamaður Sjónvarpsins, hafði misst af Jóni koma í mark en beðið hann eftir á um að endurtaka endasprettinn. Karlinn hafði farið einhverja 60-70 metra til baka og tekið sér stöðu eins og spretthlaupari. Í stað þess að hlaupa á eðlilegum hraða langhlauparans setti karlinn allt á fullt eins og kvartmílubíll væri og þá var ekki að sökum að spyrja - endasentist út í skafl.

Gamlárshlaupið 1980 fór fram í 12°C frosti og minnist ég þess hversu kalt það var en ég var þá við nám í Edinborg við heldur betri skilyrði. Hlaupið fór reyndar fram 4. janúar vegna óveðurs á Gamlársdag. Í umfjöllun Mbl. segir: ,,Hörkugaddur var þegar hlaupið fór fram, en samt mættu 25 manns til leiks og slökuðu hvergi á frá því ræsir hleypti af." Það er athyglisvert hversu oft er getið um fjölda þátttakenda í umsögnum fjölmiðla frá hlaupaviðburðum á þessum árum. Í umfjöllun Tímans um Gamlárshlaupið 1983 segir til að mynda: ,,Þátttakendur voru 31 að þessu sinni, næstflest sem orðið hefur, flest í fyrra 36."

Á þessum árum og í rauninni fram á miðjan tíunda áratuginn hófst Gamlárshlaupið alltaf við gamla ÍR húsið á Túngötunni. Hlaupið var á harðarspretti niður götuna í átt að sjó. Þurfti maður að hafa augun vel hjá sér þegar farið var yfir þvergöturnar, Bræðraborgarstíginn og Framnesveginn. Þrátt fyrir oft á tíðum mikið kapp og spennu um að ná góðri stöðu í byrjun hlaups þá minnist ég ekki þess að það hafi orðið nein slys í upphafi hlaups né á öðrum stöðum þó oft hafi munað litlu. Bakkavörin var á mínum keppnisárum sá hluti baráttu hlaupsins þar sem oft skildi milli manna. Þeir sem voru í góðri þjálfun og líkamlega sterkir stíluðu oft inn á að fljóta sæmilega fyrstu 4 km hlaupsins og taka svo á upp brekkuna. Ef það tókst að ná 10-20 m bili þá var reynt af öllum mætti að pressa áfram þar sem skömmu síðar var hægt að hlaupa áreynslulausara niður á Nesveginn. Endaspretturinn var svo hinn krítíski hluti hlaupsins en síðustu 300 m voru upp Túngötuna. Ég minnist þess í eitt skipti að hafa verið að reyna að losna við ÍR-inginn Hafstein Óskarsson sem var millivegalengdahlaupari og líkamlega sterkari en ég. Hugsunin allan seinni hluta hlaupsins var að hafa á hann nokkra tugi metra í botni Túngötunnar. Það tókst ekki og stakk hann mig af í lokin. Það skemmtilega við götuhlaup, umfram brautarhlaupin, er að skipuleggja keppnisáætlun með hliðsjón af landslagi hlaupaleiðarinnar.

ÍR-húsið er fyrir löngu farið upp í Árbæjarsafn og miðstöð Gamlárshlaupsins flutt niður að Ráðhúsinu. Þátttakan skiptir ekki tugum eins og áður var, heldur hundruðum. Í fyrra luku 567 manns hlaupinu, sem er meiri fjöldi en í flestum hlaupaviðburðum yfir sumartímann. Gamlárshlaupið er kjörið tækifæri til að hittast og skiptast á nýjustu fréttum og heillaóskum - ef ekki á hlaupum þá á hliðarlínunni. Ég mæti auðvitað - af sjálfsögðu, en reyndar á hliðarlínuna að þessu sinni.