Um 200 manns í haustmaraþonum erlendis

birt 13. október 2008

Allt útlit er fyrir að hátt í 200 Íslendingar taki þátt í maraþonhlaupum erlendis á þessu hausti sem yrði met. Hugsanlegt er að einhverjir hætti við vegna breytts landslags í fjármálaumhverfi okkar Íslendinga, en ég hygg þó að allir reyni að halda sínu striki. Heyri ekki annað á þeim sem ég er að undirbúa fyrir Frankfurt og New York þó svo gengi krónunnar hafi fallið mikið og ferðin þar með töluvert dýrari.

Berlínarmaraþonið, sem fór fram 29. september, markar venjulega upphaf tímabils maraþonhlaupa á haustin.  Nærri 60 Íslendingar tóku þátt í hlaupinu og bættu margir sig vel. Sérstaka athygli mína vakti árangur Jóhanns Karlssonar (1948) sem setti Íslandsmet í flokki 60-64 ára (3:06:03). Skammt á eftir honum kom Hávar Sigurjónsson (1958) sem bætti fyrri árangur sinn verulega (3:06:09). Óskar Jakobsson (1973) var fyrstur Íslendinga (3:01:40) og bætti sig um 14 mínútur. Margrét Elíasdóttir (1970) náði einnig mjög athyglisverðum árangri(3:19:07). Helgina eftir hljóp Árni Páll Árnason, alþingismaður, sitt fyrsta maraþon á erfiðri hlaupaleið í roki og rigningu í Brussel á 3:52. Ég hef farið þangað nokkrum sinnum og oftast lent í rigningu, en þeir mega eiga það Belgarnir að þar er hægt að fá góðan krækling. Næstu helgi er Amsterdam maraþonið þar sem töluverður hópur Íslendinga tekur þátt. Ég hljóp hálfmaraþon þar árið 1996 og virtist skipulag hlaupsins þá vera frekar slakt. Hollendingarnir hafa hins vegar tekið sig mikið á og sýnist mér á öllu að hlaupaleiðin í maraþoninu og skipulagið sé nú eins og best verði á kosið.

Í New York  maraþoninu 2. nóv. eru 76 Íslendingar skráðir. Breyttir tímar en árið 1983 var ég eini Íslendingurinn í hlaupinu. Á eigi að síður góðar minningar frá því enda hefur NY maraþon mikla sérstöðu vegna mikillar þátttöku og mikillar stemningar. Veit ekki annað en að New York Road Runners Club (NYRRC) sjái ennþá um skipulagningu hlaupsins, en í þeirri sveit er íslensk ættaði Englendingurinn Toby Tanser sem margt hlaupaáhugafólk á Íslandi þekkir. Loks veit ég um hóp Laugaskokkara sem tekur þátt í maraþoni í Mílanó 23. nóvember, en ég skokkaði beint í flasið á þeim fyrir framan Laugar fyrir nokkru.

Það má því gera ráð fyrir að margir bæti sinn fyrri árangur í komandi hlaupum og verður fróðlegt að sjá hvort þeir komast inn á skrá yfir 25 ársbestu. Þeir sem eru nú í 25. sætum eru með 3:11:07 (karlar) og 3:47:23 (konur).