Álafosshlaup Scarpa verður haldið miðvikudaginn 12. júní, í Mosfellsbæ og verður ræst kl. 18:00. Hlaupið verður frá Varmárvelli um austursvæði Mosfellsbæjar og býður Mosfellsbær öllum þátttakendum í sund í Varmárlaug að hlaupi loknu.
Skoðaðu myndir frá:
Vegalengdir
Boðið verður upp á 2 vegalengdir, u.þ.b 5,6 km og u.þ.b 10 km. Tímataka er með flögutímatöku.
Skráning
Forskráning fer fram hér á hlaup.is, sjá efst á þessari síðu og lýkur kl. 8:00 á miðvikudagsmorgni 12. júní. Hægt verður að skrá sig í Vallarhúsinu á hlaupdegi frá kl. 16:30. Forskráning er ódýrari en skráning á staðnum.
Þátttakendur sem velja að kaupa sérmerkta þátttökumedalíu á 1.000 kr geta sótt hana til sjálfboðaliða í Vallarhúsinu við markið strax eftir að þau ljúka hlaupinu.
Afhending hlaupagagna
Afhending hlaupagagna fer fram þriðjudaginn 11. júní í verslun Fjallakofans, Hallarmúla 2 og frá kl. 16:30 á hlaupadegi 12. júní í Vallarhúsinu við Varmárvöll.
Verð
- Einstaklingur 3.500 kr. (4.500 kr. ef skráð á staðnum)
- Fjölskyldur (hjón með börn) borga ekki meira en 7.000 kr. (8.000 kr. ef skráð á staðnum). Skrá þarf fjölskylduna á sama tíma og nota afsláttarkóðann: ALA-FJOLSK til að borga fast gjald 7.000 kr.
- Þátttökumedalíu: 1.000 kr.
Þess ber að geta að allur ágóði hlaupsins fer í barna og unglingastarf frjálsíþróttadeildar Aftureldingar.
Aðstaða
Hægt er að geyma töskur í Vallarhúsi við Varmárvöllinn. Búningsaðstaða er við sundlaug Varmár (Íþróttamiðstöð) og ókeypis er í sund fyrir þátttakendur eftir hlaupið í Varmárlaug. Ath, engin ábyrgð er tekin á því sem geymt er í Vallarhúsinu.
Hressing verður í boði fyrir alla hlaupara að loknu hlaupi við markið.
Verðlaun
Veitt verða verðlaun fyrir fyrstu sætin í báðum flokkum. Útdráttarverðlaun verða veitt en dregið verður úr hlaupanúmerum.
Upplýsingar
Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá Teiti Inga í síma 842-2101 eða á netfanginu frjalsar@afturelding.is.
Einnig á Facebook síðu hlaupsins og þar er hægt að senda inn fyrirspurnir.
Hlaupaleiðin
Hægt er að sjá hlaupaleiðina hér neðst á þessari síðu.
Hlaupið er eftir merktum leiðum, en samt óvenjulegum, göngustígum og malarvegum. Á brattann er að sækja fyrri helming en síðan er farinn malarvegur eða stígar niður í mót. Drykkir verða veittir í hlaupi í 10 km leiðinni og við endamark fyrir alla. Heildarhækkun í 10 km brautinni er um 130 metrar.
Hlaupið er frá Varmárvelli framhjá knattspyrnuvelli Aftureldingar, gegnum útivistarsvæði Mosfellinga við Stekkjarflöt (aparóló) og fram hjá Álafossi sjálfum. Áfram er haldið upp í gegnum Reykjalundarskóg og framhjá Reykjalundi. Þaðan er hlaupin gatan Engjavegur og göngu/reiðstígur í framhaldi upp á Bjargsveg. Hér skiptast leiðir og þeir sem velja styttri vegalengdina þræða sig til baka á stíg meðfram Varmá. Stígurinn er torfærinn fyrstu 100 til 200 metrana, mikið hefur runnið úr honum í vorleysingunum og talsvert er um trjárætur og stubba sem standa uppúr stígnum. Hér þarf því að fara mjög varlega. Áfram er svo hlaupið meðfram Varmánni og markið er við Varmárvöllinn á sama stað og ræst var.
Þeir sem ætla lengri leiðina hlaupa Bjargsveginn að Varmá og beygja þar til vinstri inn hjá útihúsum Reykjabúsins. Þar fyrir ofan er farið yfir Varmá á brú og hlaupið upp brekkuna í átt að Reykjaborginni. Þegar komið er upp fyrir byggð er beygt til hægri og hlaupinn göngu/reiðstígur meðfram Hádegisfelli, fram hjá svæði Skógræktarfélags Mosfellsbæjar í átt að Hafravatni. Þegar komið er að Hafravatnsvegi er beygt til hægri og hlaupið upp brekkuna að drykkjarstöð. Eftir drykkjarstöðina er haldið áfram í átt að Úlfarsfelli á malarvegi að Skarhólabraut, hún er þveruð og hlaupið að Krikahverfi. Þar fer loks að halla undan fæti og stígurinn hlaupinn undir Reykjaveginn í nýju göngunum og þaðan beina leið áfram stíginn aftur niður að Stekkjarflöt. Þá verður hlaupið í mark við Varmárvöllinn aftur á sama stað og ræst var.
Saga hlaupsins
Álafosshlaupið er sögufrægt hlaup sem fyrst var hlaupið árið 1921 að frumkvæði Sigurjóns Péturssonar á Álafossi og hefur verið haldið með hléum síðan. Framan af var hlaupið á milli Álafoss og Melavallarins í Reykjavík, síðan færðist hlaupið í nágrenni Álafoss. Kveikjan var sigling Einars Péturssonar, bróður Sigurjóns, um Reykjavíkurhöfn á kappróðrarbáti sínum með hvítbláa fánann í skut þann 12. júní 1913. Fáninn var tekinn í vörslu danskra varðskipsmanna. Hermt er að atburðurinn hafi hleypt auknum krafti í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á þeim tíma. UMFÍ tók fánann síðar upp og gerði að sínum.
Frjálsíþróttadeild Aftureldingar þakkar styrktaraðilum hlaupsins kærlega fyrir stuðninginn.