Tindahlaup Mosfellsbæjar í boði Nettó

Þátttökugjald

  • 1 tindur - 12,4 km5.000 kr
  • 3 tindar - 19 km6.000 kr
  • 5 tindar - 34,4 km6.500 kr
  • 7 tindar - 38,2 km7.000 kr

Um hlaupið

  • Vegalengdir12,4 km, 19 km, 34,4 km, 38,2 km
  • Dagsetning31. ágúst 2024
Sjá úrslit Myndasafn úr hlaupinu

TILKYNNING FRÁ MÓTSSTJÓRN TINDAHLAUPSINS

Kæru hlauparar,

Umfram allt takk kærlega fyrir skrá ykkur til leiks í Tindahlaupið næstkomandi laugardag á 15 ára afmæli hlaupsins. Við erum ótrúlega þakklát fyrir allar skráningarnar og eru nú um 450 hlauparar skráðir til leiks og enn fáum við fyrirspurnir um hvort hægt sé að hlaupa með á laugardaginn.

Svarið við því er JÁ.

Þar sem veðurspáin fyrir laugardaginn er ekki sú mest spennandi sem hefur sést eða klassísk rigning og rok (11-12 m/s) getur orðið krefjandi að hlaupa á köflum og þá sér í lagi upp og niður fellin hjá þeim sem skráð eru í 5 og 7 Tinda.

Þið getið þó verið viss um að ykkar öryggi er okkar forgangur og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að hlaupið fari bæði vel og örugglega fram. Jafnframt sýnum við því fullan skilning að þið séuð að velta hlaupinu fyrir ykkur og hvernig aðstæður komi til með að vera á hlaupadegi.

Til upplýsinga þá samanstendur Tindahlaupsnefndin af fulltrúum frá Björgunarsveitinni Kyndli, Blakdeild Aftureldingar og Mosfellsbæ og höfum við fundað reglulega alla vikuna sökum veðurspárinnar. Með tilliti til eins margra þátta og við höfum úr að moða auk álits reyndra utanvegahlaupara og veðurfræðinga höfum við tekið ákvörðun að halda hlaupið.

Ef einhverjir treysta sér ekki í hlaupið í ljósi aðstæðna þá í bjóðum við þeim sömu að draga sig úr hlaupinu og eiga miðann fyrir Tindahlaupið 2025.

Við mælum með því við ykkur sem eruð skráð í 5 og 7 tinda, en eruð kannski ekki með mikla reynslu af krefjandi utanvegahlaupum, að þið breytið skráningu ykkar í 1 eða 3 tinda. Eru þær hlaupaleiðir mun einfaldari yfirferðar en bæði 5 og 7 tindar.

Eins er í boði að fá endurgreitt ef þið kjósið að vera ekki með i hlaupinu 2024. Sú tilkynning ásamt fullu nafni, kennitölu og bankaupplýsingum þarf að senda á birgirkonn@gmail.com fyrir klukkan 17:00 föstudaginn 30. ágúst.

Upphitun, ræsing, verðlaunaafhending og hvíldaraðstaða eftir hlaup mun eiga sér stað í Fellinu sem er hluti af Íþróttamiðstöðinni að Varmá. Þar er góð inniaðstaða sem heldur okkur heitum og sem fyrr er frítt í sund í Varmárlaug eftir hlaupið. Hvetjum við ykkur til að nýta þessar aðstæður og/eða sundlaugina bæði fyrir og eftir hlaup.

Verðlaunaafhending og afhending Tindahöfðingja, sem verða að öllum líkindum 15 talsins á 15 ára afmæli hlaupsins, fer fram um leið og fyrstu þrír hlauparar í hverri vegalengd eru komnir í mark.

Það er mjög mikilvægt að ALLIR HLAUPARAR sem hlaupa munu 5 og 7 Tinda séu vel útbúnir og betra að vera meira klædd en minna. Hafið með ykkur auka orku/vökva og nýtið drykkjar stöðvarnar vel í gegnum allt hlaupið.

Hvetjum við ALLA til að hafa síma með sér svo hægt sé að hafa samband ef eitthvað fer úrskeiðis.

Að síðustu minnum við á að það er enn hægt að skrá sig í hlaupið samhliða afhendingu gagna sem fer fram á eftirfarandi stöðum og tímum:

  • Nettó Mosfellsbæ milli klukkan 17 og 20, fimmtudag.
  • Íþróttamiðstöðin að Varmá milli klukkan 17 og 20, föstudag.

Þar verður allt í senn hægt að sækja hlaupagögn, breyta um vegalengdir ef þess er óskað og skrá sig í hlaupið.

Við hlökkum ótrúlega mikið til að eiga þennan dag með ykkur á laugardaginn og treystum á að veður verði okkur hliðhollara en spár segja til um.
Fyrir frekari upplýsingar er velkomið að senda tölvupóst á birgirkonn@gmail.com.

************** ******************* ******************* ****************** ******************

Tindahlaup Mosfellsbæjar verður haldið laugardaginn 31. ágúst 2024. Hlaupið hefst klukkan 9:00 við íþróttasvæðið að Varmá. Ræst verður í þremur ráshópum 5 og 7 tindar klukkan 9:00, 1 tindur og 3 tindar klukkan 11:00. Hlaupið 2024 er jafnframt 15 ára afmæli hlaupsins og því verður um sérstakt afmælishlaup að ræða í samstarfi við Nettó.

Vegalengdir og þátttökugjald

Boðið er upp á fjórar vegalengdir.

  • 7 tindar - 38,2 km með 1822m hækkun, 7.000 kr. Rástími klukkan 9:00
  • 5 tindar - 34,4 km með 1410m hækkun, 6.500 kr. Rástími klukkan 9:00
  • 3 tindar - 19 km með 812m hækkun, 6.000 kr. Rástími klukkan 11:00
  • 1 tindur - 12,4 km með 420m hækkun, 5.000 kr. Rástími klukkan 11:00

ITRA punktahlaup

Tindahlaupið hefur staðist kröfur ITRA (International Trail Running Association) og fengið eftirfarandi hlaupaleiðir viðurkenndar sem punktahlaup:

  • 3 Tindar = 1 ITRA punktur
  • 5 Tindar = 1 ITRA punktur
  • 7 Tindar = 2 ITRA punktar

Skráning og afhending gagna

Skráning í hlaupið fer fram á hlaup.is, sjá hér efst á þessari síðu. Skráning er til miðnættis miðvikudaginn 28. ágúst.

Afhending gagna og skráning verður:

  • Fimmtudaginn 29. ágúst milli klukkan 17:00 og 20:00 Nettó Mosfellsbæ
  • Föstudaginn 30. ágúst milli klukkan 17:00 og 20:00 Íþróttamiðstöðinni að Varmá

ATHUGIÐ AÐ EKKI ER HÆGT AÐ SKRÁ SIG EÐA SÆKJA GÖGN  Á KEPPNISDAG.

Leiðirnar

Hlaupið er utanvega um fjöll, heiðar og dali í bæjarlandi Mosfellsbæjar og komið aftur í mark við Varmá. Leiðin er vel merkt. Hægt er að sjá kort af hlaupaleiðunum inni á www.mos.is/tindahlaup

Kort af leiðinni (útgáfa 1)

Kort af leiðinni (útgáfa 2)

Aðrar upplýsingar

Mikilvægt er að þátttakendur séu komnir að Íþróttamiðstöðinni við Varmá minnst 30 mín fyrir hlaup.

  • Drykkjarstöðvar á leiðinni
  • Markið lokar klukkan 16:00
  • Tímataka með flögum
  • Þátttakendur eru að öllu leyti á eigin ábyrgð í hlaupinu
  • Frítt í Varmárlaug að hlaupi loknu

Verðlaun

Verðlaun fyrir fyrstu þrjú sæti karla og kvenna í öllum vegalengdum. Einnig verða glæsileg útdráttarverðlaun fyrir alla keppendur.

Tindahöfðingi

Til að verða Tindahöfðingi þarf hlaupari að hlaupa allar fjórar vegalengdir hlaupsins. Safnaðu tindum og þú færð glæsilega viðurkenningu og sæmdarheitið Tindahöfðingi (hlaup frá árinu 2010 tekin gild).

Þeir sem gera tilkall til Tindahöfðingjans í ár eru beðnir um að senda póst á birgirkonn@gmail.com.

Nánari upplýsingar um tindana sjö og gönguleiðir.

Nánari upplýsingar

Birgir Konráðsson: birgirkonn@gmail.com.