30 ára þjálfunarafmæli - Siggi P.

uppfært 28. apríl 2022

Sigurður P. Sigmundsson, eða Siggi P. eins og allir í hlaupageiranum þekkja hann, hefur verið að þjálfa hlaupara samfellt í þrjátíu ár. Hann hefur lengi verið með sinn eigin hlaupahóp en auk þess þjálfað hjá mörgum félögum og hlaupahópum. Má þar nefna Ármann, Fjölni, Hlaupahóp Stjörnunnar, Skokkhóp Álftanes og FH. En hvernig byrjaði þetta?

"Þegar ég var keppnismaður þá hafði ég gaman af því að leiðbeina öðrum og ráðleggja þó það væri ekki skipulögð þjálfun. Greip stundum í þjálfun t.d. þjálfaði ég unglinga á Dalvík eitt árið þegar ég bjó á Akureyri á árunum 1987-1991 auk þess að segja hlaupurum í UFA til. Upphafið af þjálfaraferlinum má hins vegar rekja til ársins 1992 en þá hélt ég skokknámskeið í samstarfi við UMFÍ víðs vegar um land. Fór á Hornafjörð, Seyðisfjörð, Bolungarvík, Stykkishólm og Akranes. Man að þátttakan var mjög góð eða milli 20-30 manns á hverjum stað. Náði að vekja áhuga og aðstoðaði heimamenn í að efna til keppnishlaupa. Þannig urðu til Jöklahlaup ÚSÚ, Óshlíðarhlaupið og Akraneshlaupið sem áttu eftir að fara fram í mörg ár. Í framhaldi af þessu fór fólk að biðja mig um æfingaáætlanir. Ég setti einnig kynningarbréf í keppnisgögn Reyjavíkurmaraþons sumarið 1992 og fékk nokkrar beiðnir um þjálfun í kjölfarið. Þannig varð hlaupahópurinn minn til. Þá má geta þess að árið 1992 gáfum við Gunnar Páll Jóakimsson út Handbók skokkarans sem vakti töluvert mikla athygli."

Þú ert þekktur fyrir Excel skjalið, kom það strax til?

"Ég var vanur því sem íþróttamaður að fylgja æfingaáætlunum sem ég hafði fengið, fundið í tímaritum  eða gert sjálfur. Hins vegar var ég í upphafi ekki viss um hvort það hentaði fólki  sem væri einungis með það markmið að komast í gott form. Það sem opnaði hug minn var beiðni  frá Magnúsi Bjarnasyni, verkfræðingi, haustið 1992. Hann sagðist myndu verða fimmtugur árið eftir og ég hefði það verkefni að koma honum undir 4:00 klst í maraþoni. Hann var nákvæmnismaður og vildi hafa alla daga skipulagða. Þetta var ærið verkefni því Magnús hafði lítinn sem engan bakgrunn í iþróttaiðkun. Ég tók þetta af mikilli alvöru, sendi Magnúsi áætlun til fjögurra vikna í senn og hann mætti til mín í Laugardalinn tvisvar í viku allan veturinn. Man að Magnús sendi mér til baka alls konar línurit af æfingum sínum ásamt spurningum um tilgang þeirra. Hann vildi hafa þetta vísindalegt. Niðurstaðan af þessari vinnu var að Magnús hljóp á 3:32 klst í RM 1993 eða langt innan við sett markmið. Þetta sannfærði mig um gildi persónulegra áætlana og mikilvægi markviss undirbúnings fyrir öll getustig."

Siggip Maraþon Heraklion Krít
5.sæti í maraþoni í Heraklion Krít 1986
Hefurðu tölu á því hversu margar æfingaáætlanir þú hefur gert?

"Nei, ég hef ekki tekið það saman. Skipta sennilega nokkrum þúsundum. Veit þó nokkurn veginn hversu margar áætlanir ég hef gert fyrir Laugavegshlaupið en ég hef verið með námskeið í samstarfi við hlaup.is í 14 ár. Við erum búnir að undirbúa um 600 manns á þessum árum en hver og einn fær æfingaáætlun í mánuð í senn í fjóra mánuði. Þetta eru því um 2.400 Excel skjöl."

Hvaða upplýsingar biður þú um þegar þú færð einstakling í þjálfun?

"Ég segi yfirleitt að ég þurfi að vita hvað sé í bakpokanum svo ég geti stillt upp sem bestri áætlun. Þá á ég við yfirlit um hversu mikið viðkomandi hefur hreyft sig og í hvaða hreyfingu undanfarna mánuði og ár, reynslu af þátttöku í keppnishlaupum, meiðsla- og veikindasögu og annað sem kann að koma að gagni. Markmið viðkomandi leggur líka línuna um álag og magn æfinga. Eins þarf að taka tillit til aldurs og líkamslegs ásigkomulags, tíma og aðstæðna til æfinga. Því meiri upplýsingar, því betur mun æfingaáætlunin passa viðkomandi."

Siggip Háskólakeppni 6X2 Mílna Boðhlaup
Í háskólakeppni 6 x 2 mílna boðhlaup í Durham 1982

Hvað þarf góður hlaupaþjálfari að hafa til brunns að bera?

"Reynsla og þekking skipta miklu máli. Ég er ekki menntaður þjálfari en var mjög fróðleiksfús þegar ég var keppnismaður á aldrinum 18-30 ára. Man að ég var áskrifandi að fjölda tímarita eins og Athletics Weekly, Leicht Athletik, Running, Runners World, Dansk Atletik og Kondis. Auk þess keypti ég margar bækur um þjálfun og æfisögur langhlaupara. Þetta er allt í kössum núna í bílskúrnum en ég hef þó reynt að fylgjast með þróun þjálfunar í gegnum árin. Það sem kemur með árunum er aukið innsæi þ.e. að geta lesið viðkomandi einstakling. Skilja hvað hentar hverjum og einum andlega og líkamlega. Þetta er sérstaklega mikilvægt við afreksþjálfun þar sem smáatriði geta skipt máli. Þjálfari þarf að vera þolinmóður og skipulagður. Hann þarf líka að passa að andinn sé léttur á æfingum, vera tilbúinn að segja skemmtisögur þegar það á við. Æfingar mega ekki snúast eingöngu um puð."

Siggip Methlaup Í Berlín 1985
Methlaupið í Berlín 2:19:46 þann 29.sept 1985
Hvaða fólk hefur þú verið að þjálfa?

,,Í rauninni þverskurð af samfélaginu á aldrinum 16 - 70 ára. Langflestir hafa þó verið á aldrinum 40-55 ára. Oft þá fólk sem búið er að koma börnunum vel á legg og hefur þar með meiri tíma fyrir sjálft sig. Einhverra hluta vegna þá hafa margir þekktir lögfræðingar verið í þjálfun hjá mér. Það skemmtilega við hlaupahópa er að þar eru allir jafnir og allir tilbúnir að blanda geði við hvern annan óháð stöðu í þjóðfélaginu. Ég hef aldrei sóst eftir því að þjálfa þekkt fólk en verið eigi að síður með nokkuð af þekktasta fólki landsins í þjálfun hjá mér um einhvern tíma. Nefni Bjarna Ármannsson, Jón Gnarr, Ragnhildi Gísladóttur og síðast en ekki síðst Pétur heitinn Blöndal, sem var hjá mér í mörg ár.“

Siggip Með Má Hermannssyni
Með Má Hermannssyni eftir að hafa sett pb og mótsmet í 10.000 m á MÍ 30:50,3 í júní 1985
Ertu kominn meira út í millivegalengdaþjálfun núna?

"Í rauninni ekki því ég hef jafn gaman að þjálfun fyrir götu- og utanvegahlaup. Hins vegar tók ég að mér þjálfun afrekshóps FH í millivegalengdum haustið 2020 og hef verið að byggja upp öflugan keppnishóp í vegalengdum 800 – 3.000 m. Hafði reyndar áður oft gripið í slíka þjálfun eins og hjá Fjölni á árunum 2011-2016. Finnst gaman að pæla í slíkri þjálfun sem er krefjandi þar sem þjálfunin gengur út á nákvæmt samspil hraða, styrks og þols. Mikilvægt að meta fyrir hvern og einn einstakling hvernig jafnvægið í þjálfun einstakra þátta á að vera svo útkoman verði sem best. Mér hefur tekist að fá hlaupara í mínum hóp sem eru á miðjum aldri til að taka þátt í brautarhlaupum t.d. Íslandsmótum öldunga. Nær undantekningarlaust hefur þeim þótt gaman að spreyta sig á millivegalengdum. Hvet fleiri til að prófa því keppni í vegalengdum 800 – 3.000 m getur verið mjög skemmtileg."

Ætlar þú að halda þjálfun áfram næstu árin?

"Jú, ég reikna með því. Hef ennþá áhuga og metnað til að sinna þjálfun. Það hefur líka verið mér hvatning þegar fólk leitar til mín eftir aðstoð og leiðbeiningum. Meðan svo er þá heldur maður áfram.  Heilsan er góð þó vinstra hnéð mætti vera betra. Sennilega hlaupakvótinn minn búinn en ég get vel við unað. Búinn að fá tækifæri til að hlaupa mikið í gegnum árin. Fór fyrst undir hnífinn 50 ára gamall og get ekki kvartað yfir því."