Búi Steinn Kárason gerir upp hlaupaárið 2018

birt 20. desember 2018

Hlaup.is fékk fjölbreyttan hóp hlaupara í lið með sér til að gera upp hlaupaárið sem nú er senn á enda. Afraksturinn mun birtast á hlaup.is á þeim vikum sem enn lifa af hlaupaárinu. Af mörgu er að taka, afrekin óteljandi, almenningshlaupin eru alltaf að verða fleiri og betri, fleiri og fleiri fara erlendis að hlaupa og utanvegahlaupin verða vinsælli ár frá ári. Búi Steinn Kárason, 29 ára hlaupagarpur er næstur í röðinni til að gera upp hlaupaárið á hlaup.is. Búi Steinn hefur hlaupið í nokkur ár og náð miklum framförum á tiltölulega skömmum tíma. Hann rauf þriggja tíma múrinn í maraþoni New York í nóvember og stefnir á 100 km í Hengli Ultra á næsta ári. Ein hversdagshetjunum í íslenska hlaupasamfélaginu sem er að gera mjög vel.

Hvað stóð upp úr í íslensku hlaupalífi á árinu? Ég var búsettur erlendis stóran hluta ársins en daginn eftir heimkomu fór Laugavegshlaupið fram. Það var því mikill hápunktur að gera sér ferð inn í Þórsmörk og taka þar á móti frænda mínum Nóa Þór sem kom alla leið frá Perú til að hlaupa sitt fyrsta Laugavegshlaup og föður mínum sem heldur áfram að sýna að aldur er bara tala á blaði. Virkilega gaman að fylgjast með af hliðarlínunni eftir að hafa verið þátttakandi síðustu þrjú árin á undan. Einnig vil ég nefna þátttöku í litla Laugaveginum, Volcano trail run.

Virkilega skemmtilegt hlaup og í frábærum félagsskap, mér finnst alltaf skemmtilegast á hlaupum þegar ég næ að draga kærustuna með.

Hvaða íslenski hlaupari stóð upp úr á árinu? Það voru nokkrir djöfulli seigir. Ótrúlegt afrek hjá Elísabetu Margeirs í Góbíeyðimörkinni, titlamoksturinn hjá Arnar Péturssyni og fleira. Í mínum huga ber samt stórvinur minn Kristinn Einarsson höfuð og herðar yfir aðra. Fór úr sófakartöflu í að hlaupa hálft maraþon á flottum tíma eftir að hafa verið nærri farlama í áraraðir vegna erfiðra mjaðmarmeiðsla. Lítið kraftaverk í rauninni.

Hvað kom þér á óvart á íslenska hlaupaárinu? Eftir að hafa verið búsettur í Barcelona í heilt ár og tekið þátt í götuhlaupum þar kom það töluvert á óvart hvað vegalengdir í götuhlaupum eru breytilegar á milli landa.

Hvernig gekk þitt hlaupaár persónulega? Heilt yfir bara nokkuð vel. Hljóp hálfmaraþon í Barcelona í febrúar á 1:18 sem er minn besti tími. En lenti í leiðindameiðslum í pririformis skömmu síðar sem var til þess að ég hljóp heilt maraþon í Barcelona í mars á öðrum fæti og gekk hressilega fram af mér. Þessi meiðsli urðu til þess að ég náði ekkert að hlaupa af viti þangað til ég skellti mér í hálfmaraþon í Reykjavík í ágúst. Eftir það fór ég allur að braggast og náði að æfa þokkalega fyrir New York maraþonið sem við feðgar skelltum okkur í með frábærum hóp á vegum Bændaferða í nóvember. Það var mögnuð upplifun og ekki skemmdi fyrir að mér tókst að kljúfa þriggja tíma múrinn og skila mér í mark á 2:58.

Hvað mun standa upp úr á næsta hlaupaári? Öll utanvegahlaupin sem maður gat ekki tekið þátt í á árinu og þá stefni ég á að taka þátt í Henglinum í fyrsta skiptið. Ætli maður hendi sér ekki 100 km, það er allavega í skoðun.

Eitt atriði sem þarf að bæta í íslensku hlaupasamfélagi? Fleiri hlaup mættu vera með álteppi við endalínuna, manni líður aldrei jafn mikið eins og sigurvegara eins og þegar maður fær eitt slíkt utan um axlirnar eftir krefjandi hlaup.

Sjá einnig:
Arnar Pétursson gerir upp hlaupaárið 2018.
Anna Berglind Pálmadóttir gerir upp hlaupaárið 2018.