Gauti Grétarsson - Hlauparar þurfa að gera meira en að hlaupa

uppfært 04. september 2023

Hlaup.is tók viðtal (sjá hér neðar) við Gauta Grétarsson hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur til að forvitnast um hlaupaleikfimina sem hann hefur boðið upp á um árabil.

Nánari upplýsingar um hlaupaleikfimina.

Gauti sagði að markmiðið með hlaupaleikfiminni væri að byggja upp þá þætti (kerfi) hjá hlaupurum sem almennt eru veik fyrir og hindra að hlauparar geti náð sínum besta árangri. Þetta eru meðal annars vöðvakerfin í heild sinni, liðleiki, samhæfing, færni og jafnvægi. Gauti segir að nauðsynlegt sé að þjálfa þessi kerfi með hlaupunum, því hlaupin séu í eðli sínu frekar einhæf og ef ekki sé hugað að fleiri þáttum í þjálfun þá sé meðal annars meiri líkur á meiðslum.

Gauti sagðist byggja æfingarnar á þekktum alþjóðlegum aðferðum sem allar miða að því að bæta árangur hlaupara og minnka líkur á meiðslum.

Gauti segir líka að einhæfar styrktaræfingar samhliða einhæfum hlaupaæfingum geti líka skapað meiðsli því styrktaræfingar séu meira en að rífa upp þung lóð eða hamast á þyngdum í tækjum. Huga verði að hinum ýmsu styrktarkerfum, vöðvastyrkur sé miklu flóknara fyrirbæri en sá styrkur sem kemur með lóðalyftingum. Um sé að ræða almennan vöðvastyrk, hámarksstyrk, hraðastyrk, snerpu og úthaldsstyrk. Öll þessi kerfi þarf að þjálfa til að fá fjölbreyttan vöðvastyrk.

Einnig segir Gauti að algengt sé að sjá mismunandi vöðvastyrk á milli hægri og vinstri hliðar hjá hlaupurum sem skapar ójafnvægi og eykur hættu á meiðslum. Sérstaklega segist Gauti sjá þennan mun á rassvöðvum sem eru einmitt þeir vöðvar sem mikilvægt er fyrir hlaupara að hafa sterka og í jafnvægi. Því sé sérstaklega passað upp á að jafna út þannan mun með því að tryggja að allar æfingar séu teknar til jafns á hægri og vinstri hlið og tengingu þar á milli með miðjuþjálfun sem samanstendur af djúpvöðvakerfinu, önduninni og grindarbotninum.

Eftir veturinn í hlaupaleikfimi sé búið að taka á öllum þeim líkamlegu þáttum sem snúa að þjálfuninni nema hlaupunum, því það sjá hlaupararnir sjálfir um.

Hægt er að skrá sig í hlaupaleikfimina með því að senda póst á gauti@srg.is og lausir tímar eru núna á fimmtudagsmorgnum kl. 7:30-8:30.