Yfirheyrsla: Guðjón Karl Traustason vill hlaupa 10 km á undir 50 mínútum þegar hann er fimmtugur

birt 23. apríl 2014


Guðjón Karl léttklæddur og fullur af orku í vormaraþoni Félags maraþonhlaupara síðasta vor.

Guðjón Karl Traustason svarar hraðaspurningum á hlaup.is þessa vikuna. Guðjón sem er 35 ára Hafnfirðingur hljóp sitt fyrsta maraþon í Stokkhólmi árið 1993 og í kjölfarið hljóp hann tvö maraþon. Eftir það tók við langt hlé og Guðjón hljóp ekki maraþon aftur fyrr en 2005 en sama ár greindi hann sjálfan sig með brjósklos.

Einkennunum heldur Guðjón niðri með hlaupum, hjólreiðum auk þess að synda. Guðjón er starfandi sjúkraþjálfari, trúlofaður og á níu ára son.

Fullt nafn: Guðjón Karl Traustason.

Aldur: 35 ára.

Heimabær: Hafnarfjörður

Skokkhópur: Tilheyri engum skokkhópi en hef undanfarið verið að æfa ca. einu sinni í viku með Ægi3, aðallega hjólreiðar og brickhlaup.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Því er auðsvararð, maraþon að sjálfsögðu. Þríþraut heillar mikið, ég hef klárað þrjá hálfa járnkarla og einn heilan í Kalmar 2013.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Það fer alveg eftir líkamlegri og andlegri líðan hverju sinni hvort ég fari út eða sé inni að brettahamstrast;) Oft er ég inni ef það er spennandi Manchester United leikur í gangi.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Ég er enginn morgunhani, finnst þægilegast að hlaupa seinni partinn. Þykir pínulítið erftt að fara í maraþon

Besti hlaupafélaginn? Hleyp 90% einn, en stundum hleyp ég með  Örvari Rúdolfssyni,  Fal D kollega mínum mínum, gamla (Trausta Valdimarssyni) og svo rekst ég  oft á hlaupafélaga úti eða í ræktinni;)

Uppáhalds hlaupafatnaður? Er mikið fyrir að prófa ýmiskonar merki. Brooks og Nike skór eru í uppáhaldi. Ofurþunnir Craft sokkar eða Under  Amour eru góðir í keppnum. Þá virka Zoot recovery háir sokkar vel. Ég hleyp í tights, oft Compression veinomuscular og er svo í Nike eða ORCA hlýrabol.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Ómissandi er gott skap, löngunin, Powerade, vatn á meðan og kóksopi á eftir.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Finnst eiginlega Powerade hlaupin og vor- og haustþon Félags maraþonhlaupara standa upp úr. Ég er oftast of hvíldur og pínu stressaður þegar ég fer erlendis og næ yfirleitt ekki mínu besta þar. Fór reyndar Ironman í Kalmar í ágúst og það var mögnuð lífsreynsla.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Best að borða létt kjöt eða fisk kvöldið fyrir, ekkert grænt. Fyrir hlaup þá er það rúnstykki með tvöföldu lagi af skinku og osti ca 2 klst fyrir ásamt Trópí, vatni og kaffi.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Já, nota gjarnan taktfasta tónlist en í maraþoni slekk ég stundum á 5 km kafla á seinni helmingnum. Síðustu 5 km er ég svo með háværa pepp-techno-rock.

Uppáhaldsorkudrykkur? Rautt Powerade er uppáhalds.

Besti matur eftir keppnishlaup? Finnst best af fá mér prótínríka og gjarnan sterka súpu eftir hlaup auk þess að drekka mikið af kóki.

Hvernig slakar þú á? Leggst á gólf til slökunar í hljóðlausu umhverfi.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? 39:46 í Powerade fyrir um tveimur árum ásamt 3:10 í vormaraþoni fyrir ári síðan.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Alltaf skemmtilegt að hlaupa, árstíðirnir hafa allar sinn sjarma.

Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni? 18:58 í 5 km í Atlantsolíuhlaupinu. 39:26 í 10 km í Gamlárshlaupi ÍR 2013. 1:27 í 21,1 km í haustmaraþoni 2012. 3:10 í 42,2 km fyrir ári síðan.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Nota ekki æfingaáætlun en þekki margar mismunandi æfingar, hugtök og fræðileg rök. Geri það sem mig langar hverju sinni.

Hvar hleypur þú helst? Mest hlaupið í Hafnarfirði undanfarið en Elliðarárdals/Poweradehringurinn er alltaf jafn fallegur og fjölbreyttur.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Kröftugur hlaupari sem notar hlaup sem aktíva slökun og hugleiðslu.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Um 20-80 km á viku. Æfi oftast þrisvar í viku. Ein löng æfing 20 km plús, ein æfing tempósprettir, ein fartleg æfing á bretti.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Markmið er að líða vel, líkamlega og andlega. Draumur er maraþon undir 3 klst og að geta hlaupið 10 km á undir 50 mínútum þegar ég verð 50 ára.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Fyrirmynd er sá gamli, alveg magnaður (Trausti Valdimarsson). Einnig fylgist ég með árangri og fastheldni hjá þeim sem eru að stíga sín fyrstu spor.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Skoða hlaup.is 3-4 sinnum í viku. Flott síða. 

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Var endalaust að horfa á garmin fyrir ca. 5 árum síðan í maraþoni. Var farin að horfa ansi oft á tækið eftir 25 km og var næstum dottinn á vegkanti.Hef ekki notað garmin síðan en hlaupið nokkur maraþon án garmins. Töluvert afslappaðra en auðvitað er hættan að fara of hratt af stað eða upplifa runner´s high of snemma og hlaupa á vegginn. Get ekki notað armbandsúr dags daglega heldur. Eitthvað sem pirrar mig í úlnliðunum.