Yfirheyrsla: Guðni Páll Pálsson úr ÍR

birt 04. ágúst 2016

Guðni Páll Pálsson hefur heldur betur verið að stimpla sig inn í íslenska hlaupaheiminn á undanförnum árum. Með árangri sínum hefur Guðni skipað sér á bekk með fremstu hlaupurum landsins og virðist stöðugt í framför. Nú síðast sigraði Guðni Páll í 80 km í Hengli Ultra en áður hafði hann komið fyrstur Íslendinga í mark í Laugavegshlaupinu. Það er þvi löngu kominn tími á að Guðni Páll komi í yfirheyrsluna á hlaup.is.

Fullt nafn:
Guðni Páll Pálsson.

Aldur:
29 ára.

Heimabær:
Vík í Mýrdal.

Fjölskylda
Helga Sæmundsdóttir maki og nýfæddur drengur.

Skokkhópur:
Ég æfi mikið sjálfur, eða með 1-2 öðrum hlaupurum. En ég nýt leiðsagnar Gunnars Páls Jóakimssonar hjá ÍR og hleyp töluvert með þeim hópi.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa?
Ég byrjaði að hlaupa fyrir alvöru haustið 2012. Ég flutti heim frá Danmörku eftir nám, byrjaði í vinnu og fann fljótlega að ég þurfti að hafa meira fyrir stafni. Ég ákvað að fara í Powerade hlaup og byrjaði síðan að hlaupa með Afrekshóp Ármanns undir stjórn Daníels Smára.

Ég hljóp fimm Powerade hlaup þann veturinn og bætti mig í hverju hlaup:

Tími

Mánuður

43:35

Okt

40:15

Nóv

39:00

Des

38:18

Jan

37:30

Feb

Ég missti af síðasta hlaupinu vegna veikinda.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur?
Það er mjög erfitt að segja... ég hleyp allt frá 800 m upp í 85 km hlaup. Það er auðvitað erfitt að bera þetta saman, en ultra hlaupin eru svo miklu meiri upplifun, svo þau standa klárlega upp úr.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa?
Heima í Mýrdalnum.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa?
Besti tíminn fyrir erfiða æfingu er að mínu mati um kl 10. Þannig fær maður góðan svefn, en er samt búinn frekar snemma og á megnið af deginum eftir.

Besti hlaupafélaginn?
Þeir eru nokkrir mjög góðir, hef hlaupið töluvert með Kára Steini upp á síðkastið, en Örvar Steingrímsson stendur alltaf upp úr. Höfum lent í ýmsum ævintýrum saman.

Uppáhalds hlaupafatnaður?
Ég hleyp mikið í CWX stuttbuxum. Þær eru mjög góðar, sértaklega í lengri hlaup þar sem þær veit góðan stuðning og minnka titring í vöðvum.

Hvernig hlaupaskó áttu?
Ég á náttúrulega ansi mörg skópör. Það er mikilvægt að eiga a.m.k. 2-3 pör af skóm og skiptast á að nota þá.

Ég hleyp bæði á götu og utanvegar. Á götunni þykja mér Saucony Kinvara 7 skórnir mjög góðir. En utanvega er ég mjög hrifinn af LaSportiva Helios skónum.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu?
Það er í rauninni ekkert sem er ómissandi. Ég hleyp ekki oft með tónlist í eyrunum, að hluta til vegna þess að ég vil ekki venja mig á það því þá gæti ég átt erfitt t.d. ef i-podinn verður batterýislaus, eða finnst ekki fyrir æfingu. Hlaup er einföld íþrótt, óþarfi að gera hana flókna.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands?
Uppáhalds innlenda hlaupið mitt er Mýrdalshlaupið, 10 km utanvegahlaup á mínum heimaslóðum. Alltaf gaman að hlaupa þarna í þessu fallega umhverfi.

Ég hef nú ekki hlaupið mörg hlaup erlendis, en þar stendur klárlega upp úr heimsmeistaramótið í Ultra trail hlaupi sem fram fór í Annecy síðasta vor. Hlaupið var 85 km með 5100 m hækkun.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum?
Eins og ég sagði áðan þá eru hlaup einföld íþrótt í eðli sínu, og maður þarf lítinn búnað. En þegar maður er á löngum fjallaæfingum þarf maður að vera með góðan drykkjarpoka. Camelbak Circuit pokinn minn hefur reynst mér mjög vel.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í?
Mig langar einhverntíman að taka þátt í UTMB sem er fjallahlaup í kringum Mont Blanc í Frakklandi. Hlaupið er 166 km og 9600 m hækkun.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup?
Almennt séð held ég að það sé best að borða bara eitthvað einfalt fyrir keppni. En ef ég hef tök á því þá finnst mér gott að fá grillaðan lax með sætum kartöflum kvöldið fyrir. Morguninn fyrir keppni fæ ég mér grænt te, borða banana og kannski eina brauðsneið. Einnig finnst mér ágætt að taka nokkra sopa af íþróttadrykk með söltum, steinefnum og sykri í aðdraganda hlaupsins. 

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? (Ef já, hvað tónlist er best að hlaupa við?)
Ég hleyp oftast ekki með tónlist í eyrunum. Helsta undantekningin er þegar ég hleyp á bretti. En þá vil ég helst hlusta á gott þungarokk.

Uppáhaldsorkudrykkur?
Mér finnst Roctane blandan frá GU alveg frábær. Hef notað hana töluvert á löngum æfingum og í keppnum.

Besti matur eftir keppnishlaup?
Það má kannski deila um hvort það er best. En mér finnst voðalega gott að fá mér hamborgara eftir gott hlaup.

Hvernig slakar þú á?
Ég á mjög auðvelt með að slaka á. En best finnst mér að koma heim eftir langan fjallatúr, fara í sturtu, fá mér að borða og leggja mig svo. Það er svo gott að borða þegar maður er svangur, drekka þegar maður er þyrstur og að hvílast þegar maður er þreyttur. Ég held að þessi tilfinning sé stór hluti af ástæðunni fyrir að ég stunda hlaup.

Mesta afrek á hlaupabrautinni?
Ég hef nú ekki lagt mikla stund á hlaupabrautina. En ætli það sé ekki 800 m hlaup árið 2014 sem ég hljóp á 1:59:60 og bætti þar með 25 ára gamalt héraðsmet USVS sem nafni minn Guðni Einarsson átti.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa?
Á vorin, ekki spurning.

Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni?
16:10/ 33:07/ 1:15:34  / 03:00:00

Maraþonið var hlaupið í Peking árið 2013. Undirbúningurinn daginn fyrir hlaupið var ekki eins og best verður á kosið, en ég fór í tvö átta tíma flug þann daginn. Var hálf sjóveikur um morguninn þegar ég átti að fara að hlaupa.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun?
Ég hef ekki alltaf gert það. Ég æfi töluvert með hópnum hjá Gunna Palla, en fyrir utan það reyni ég bara að hlusta svolítið á líkamann og miða æfingaálagið út frá því. Ég hef það nánast fyrir reglu að ef mig langar ekki að fara út að hlaupa, þá geri ég það ekki. Reyndar er ég nýlega byrjaður að fá prógram frá Andy Dubois sem er ástralskur ultra hlaupari. Hann hefur reynst mér vel undanfarnar vikur. 

Hvar hleypur þú helst?
Á vorin og sumrin hleyp ég mjög mikið upp í Heiðmörk. Það er frábær staður til að hlaupa á  og í hæfilegri fjarlægð.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu?
Ég er spretthlaupari sem ákvað að fara í ultra hlaup. 

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku?
Það er dálítið breytilegt eftir tímabilum. En sem dæmi þá hljóp ég 4571 km á síðasta ári sem þýðir 88 km á viku að meðaltali. Inni í því eru líka vikur þar sem ég hleyp mjög lítið eða ekki neitt, vegna hvíldartímabila, veikinda og meiðsla. Ég hef mest hlaupið 200 km á einni viku, það gerði ég í æfingabúðum núna í janúar síðastliðnum. Heildartími á hlaupum á síðasta ári var 414 klst sem þýðir átta klst á viku. Ég er ekki harður á að taka einn algjöran hvíldardag í viku eins og margir gera. En ég tek í staðinn mjög létta daga þar sem ég skokka stutt og létt.

Ég hleyp mjög oft tvisvar á dag og stundum þrisvar. Þannig er auðveldara að hlaupa fleiri kílómetra án þess að skrokkurinn finni of mikið fyrir því. Síðan hentar það líka vel þar sem ég hleyp gjarnan til og frá vinnu

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup?
Ég get ekki sagt það nei. En ég er aðeins að fikta við Cross Fit í hádegishléinu í vinnunni. Síðan hjóla ég stundum til og frá vinnu.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun?
Já, ég tek að meðaltali 2-3 æfingar á viku sem innihalda einhverskonar spretti eða interval. Það eru góðar æfingar til að vinna í hlaupastílnum og auka hraðaúthald.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum?
Markmiðið er í rauninni alltaf það sama. Að halda áfram að hlaupa og hafa gaman af því. Lykillinn að því að bæta sig er að halda sér heilum og hugsa vel um skrokkinn.

En næsta stóra verkefni hjá mér er heimsmeistaramót í fjallahlaupum sem haldið er í Portúgal í lok október. Þetta er 85 km hlaup með 5000 m hækkun.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum?
Killian Jornet hefur verið mikil fyrirmynd fyrir mig síðan ég byrjaði að spá í fjallahlaupum. Hann er spænskur ultra hlaupari og mikill fjallagarpur. Hann er jafn gamall og ég og hefur unnið mörg af stærstu ultra hlaupum heims auk þess að eiga met í að klífa nokkur að erfiðustu fjöllum heims.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti?
Ég nota Strava til að skrá niður æfingar. Mér finnst það alveg frábært tól til þess að halda utanum æfingar og ekki síst minningar sem fylgja skemmtilegum æfingum. Þá er líka hægt að fylgjast með öðrum hlaupurum á Strava og sjá hvað þeir eru að gera. Það gerir þetta mjög skemmtilegt umhverfi sem á bara eftir að stækka. Strava er líka með góðan gagnagrunn sem getur nýst vel þegar velja á hlaupaleið í óþekktu umhverfi, t.d. í útlöndum.

Hér er slóð á síðuna mína á Strava, https://www.strava.com/pros/5966009

Skoðar þú hlaup.is reglulega?
Já, ég geri það. Ég horfi reglulega yfir hlaupadagskrána og hugsa um hvaða hlaup væri gaman að fara í næst. 

Ertu með humyndir til að bæta hlaup.is?
Nei, mér finnst hlaup.is síðan bara fín eins og hún er. 

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum?
Mér dettur bara í hug þegar ég og Örvar vorum á Skarðsheiði síðasta vor. Þetta var í byrjun maí, gríðarlega fallegt veður, logn, sól og kalt. Við vorum á leiðinni upp snarbratta hlíð til að komast upp á Skarðheiðina. Við vorum með svona „Esju brodda" sem er auðvelt að festa neðan á hlaupaskónna, en eru ekki alvöru mannbroddar. Þegar við erum alveg að komast upp skrikar mér aðeins fótur og ég stoppa aðeins. Þegar ég ætla aftur af stað finn ég að ég hef ekki nægilegt grip.

Ég kalla á Örvar og segi honum að ég sé í smá vandræðum. Hann er svona 5 m fyrir ofan mig. Hann stoppar og snýr sér við, en segir svo strax að það sé ekki séns að hann komist niður til mín. Ég reyni að taka annað skref, en broddarnir ná bara engu taki í ísnum sem er grjótharður. Ég halla mér aðeins fram og er kominn með hendurnar í brekkuna fyrir framan mig. Þetta var hrikalega óþægileg staða þar sem ég gat hvorki hreyft mig upp né niður án þess að renna af stað. Fyrir neðan mig voru svona 100 m af snarbrattri hlíð. Ég hefði nú ekki drepist af að húrra þarna niður, en ég hefði ekki orðið betri á eftir heldur. Ég beit á jaxlinn og reyndi að meta hvað væri best að gera í stöðunni. Við Örvar vorum sammála um að það væri eina leiðin að reyna að klifra upp af því við vissum um aðra leið niður sem við gætum farið. Ég byrjaði því að pikka í ísinn með Esju broddunum mínum, þetta tók dálítinn tíma en mér tókst að komast yfir versta kaflann og upp á brún.

Útsýnið og færðin var æðisleg upp á Skarðsheiðinni og við vorum báðir svolítið uppgíraðir eftir að hafa lent í smá hremmingum. Þetta var alveg ógleymanlegur túr sem minnir mann samt á að maður þarf að fara varlega og vera skynsamur þegar maður er á fjöllum.