Yfirheyrsla: Inga Erlingsdóttir úr Skokkhópi Hauka

birt 26. maí 2016


Inga í Hvítasunnuhlaupi Hauka núna um daginn.

Inga Erlingsdóttir úr Skokkhópi Hauka er í Yfirheyrslunni þessa vikuna. Eftir að hafa tekið skorpur í hlaupum og hreyfingu alla tíð hefur Inga hlaupið reglulega frá upphafi árs 2011. Kynnumst Ingu nánar.

Sjá fleiri Yfirheyrslur á hlaup.is eða bentu á skemmtilegan viðmælanda á heimir@hlaup.is.

Fullt nafn: Ingveldur Erlingsdóttir.

Aldur: 41 árs.

Heimabær: Hafnarfjörður.

Fjölskylda: Gift Viðari Gunnarssyni og saman eigum við þrjá stráka, Erlingur Ísar 14 ára, Birkir Gunnar 9 ára og Egill Ernir 5 ára, við eigum líka hundinn Bassa.

Skokkhópur: Ég er í Skokkhópi Hauka, byrjaði með þeim apríl 2012.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa?
Ég hef hlaupið lengi, fyrstu árin samt alltaf á eftir bolta. En ég tók fyrst þátt í almenningshlaupi 1995 - Miðnæturhlaupinu. Í gegnum árin, á milli barnsburða náði ég alltaf að hlaupa í 5-10 km hlaupum. En frá janúar 2011 hef ég æft óslitið og hlaupalengdirnar líka lengst.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur?
Í keppnishlaupi er það 21 km. Einnig finnst mér mjög gaman að hlaupa 10-20 km á æfingum.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa?
Utanvega, helst í „uppsveitum" Hafnarfjarðar... þær kallast það kannski ekki. En að hlaupa frá Ásvöllum og sem leið liggur að Hvaleyrarvatni, að Kaldárselinu og inn í Heiðmörk, algerlega frábær og skemmtileg leið.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa?
Ég er alger A manneskja, finnst morgunhlaupin best og er alveg til í að byrja kl 8.00 á laugardögum. En í raun eru æfingar í miðri viku eftir vinnu og maður stillir sig bara inn á þann tíma. Allir tímar eru góðir. Bara það að hafa orku og getu til að fara út að hlaupa og gefa sér tíma í þetta, eru alger forréttindi.


Inga kemur í mark í Laugaveginum ásamt Helmu hlaupafélaga.

Besti hlaupafélaginn?
Stelpurnar í Haukunum, þær gerast ekki vandaðri. Ef ég missi af æfingu með þeim og hleyp sjálf, þá er það hann Bassi minn sem er besti hlaupafélaginn. Hann er a.m.k. mjög góður eftir ca. 1 km, þá er hann búinn að tæma þvagblöðruna.

Uppáhalds hlaupafatnaður?
CWX í buxum og brjóstahaldara, algerlega frábær föt. En bolirnir eru alls kyns, Nike, Asics, Under Armour, kaupi bara það sem hentar með og er flott.

Hvernig hlaupaskó áttu?
Asics Nimbus, er á sjötta og sjöunda parinu mínu þar. Aiscs Fuji í utanvega.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu?
Góður félagsskapur.


Á góðri stundu með hlaupavinkonum.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands?
Laugavegurinn var algerlega frábær og ég hlakka til að hlaupa hann aftur (2017). Hvítasunnuhlaup okkar Haukamanna er algerlega frábært hlaup líka, þvílíkt skemmtileg og krefjandi leið. Snæfellsjökulshlaupið er líka alger dásemd í þvílíkri náttúruperlu.

Utanlands, hef ég hlaupið hálft í Árósum, mjög skemmtileg og flöt leið og maraþon í Edinborg 2014, svolítið sveitahlaup en gekk vel og var gaman.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum?
Garmin úrið, maður fer varla langt án þess.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í?
Berlínarmaraþon og New York maraþon eru á óskalista.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup?
Að kvöldi, finnst mér gott að fá pasta og kjúkling og smá salat. Og einn ískaldan bjór. Að morgni, tvær ristaðar brauðsneiðar með sultu, Trópí, vatn og hálfur banani.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum?
Nei, er alltaf með svo skemmtilegum stelpum og strákum... en ef er að keppa þá er ég með lagalista sem gengur fram og tilbaka, meðal annars með Kings of Leon og Euphoria.

Uppáhaldsorkudrykkur?
Blár Powerade.

Besti matur eftir keppnishlaup?
Bjór, er það ekki annars matur.

Hvernig slakar þú á?
Leika við strákana mína, taka hjólatúr með þeim. Lesa góða bók.

Mesta afrek á hlaupabrautinni?
Að hafa klárað Laugaveginn og liðið ljómandi vel allan tímann.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa?
Hver tími hefur sinn sjarma, veturinn er sístur en samt gaman að klára sig í gegnum hvern veturinn á eftir öðrum.

Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni?
5 km 27.34 - 10 km 53.39 - 21 km 2.01.55 - 42 km 4.52.18.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun?
Ekki allan ársins hring, en þegar markmiðið er ákveðið þá finnst mér langbest að hlaupa eftir áætlun.

Hvar hleypur þú helst?
Þessa dagana, utanvega í „uppsveitum" Hafnarfjarðar.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu?
Virk og vönduð.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku?
Þessa dagana þrisvar sinnum, ca 10 km á mán og mið, lengra á laugardögum 13-20 km.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Er að hjóla líka, fór WOW í fyrrasumar í 10 manna liði. Frábær tilbreyting að hjóla með.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun?
Já.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum?
Að hafa áfram gaman að þessu og koma heil frá hverju æfingatímabilinu og keppnum, vera virk en vönduð.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum?
Í Skokkhópi Hauka eru hlauparar með okkur sem eru á öllum aldri, elsti 75 ára, ég óska þess að ég geti líka verið enn að hlaupa eftir 30-40 ár.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti?
Ég skrái niður, en fyrst og fremst held ég utan um hlaup og hjól í fornu Excel skjali.

Skoðar þú hlaup.is reglulega?
Já ég geri það, gott að hafa yfirlit yfir komandi hlaup og skoða æfingaáætlanir. Erum núna að koma af stað Reykjavíkurmaraþons átaki í vinnunni og þá er gott að benda á þessa hlaupasíðu sem er full af fróðleik.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is?
Nei, ekki í fljótu bragði.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum?
Er ég var að æfa mig fyrir fyrsta hálfmaraþonið bjó ég í Danmörku (2011), í litlum bæ sunnan Árósa. Ég hljóp eins og ég gat á stígum og inni í skógum til að hafa mjúkt undirlendi. En þegar hlaupin fóru að lengjast varð ég að brjóta þetta upp einhvern veginn (ég var líka alltaf ein). Ég fór þá að hlaupa á malbikuðum götum og það vill til að Danir malbika göturnar sínar þannig að vatn og snjór eigi greiða leið niður, göturnar eru í fáranlegum halla. Ég hljóp alltaf á móti umferð og fór að fá í bakið... skildi ekkert í þessu. En í rauninni var ég alltaf að hlaupa í hliðarhalla. Svo fór ég að prufa að hlaupa með umferðinni og þá lagaðist ég. Það dugði bara að breyta til, ekki hafa alltaf hægri fótinn ofar en vinstri, því ég var alltaf á móti umferð. Það dugði að hlaupa stundum hinum megin og hafa vinstri fótinn ofar. Svo var ég nú bara farin að eigna mér fáfarnar götur og hlaupa eftir miðjulínunni. Kannski ekki „skemmtileg" saga, en stundum þarf maður að skoða hvað maður er að gera „vitlaust" og þarna var það bara undirlagið sem hentaði ekki.