72 milljónir í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons

uppfært 01. september 2020

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fór ekki fram þetta árið vegna aðstæðna sem allir þekkja.  Í ljósi þess að áheitasöfnunin skiptir góðgerðarfélögin miklu máli var fókusinn settur á áheitasöfnun og hlauparar hvattir til að hlaupa sitt maraþon og safna fyrir sín félög. 159 góðgerðarfélög tóku þátt og söfnuðust  72.658.607 krónur sem telst frábær árangur miðað við að ekkert opinbert hlaup fór fram.

Heildarupphæð áheita sem hafa safnast í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka frá því áheitasöfnun hófst árið 2006 er nú komin í tæplega 1.064 milljónir.

Reykjavíkurmaraþon Áheitamyndafrétt
Steindi á sprettinum.

Björgvin Ingi Ólafsson safnaði mest allra einstaklinga, 1.405.000 krónur fyrir Ferðasjóð Guggu, en Björgvin Ingi fékk einnig flest áheit, 245 talsins. Kristín Ösp Þorleifsdóttir safnaði næst mest, 1.171.000 fyrir Ljósið, endurhæfing fyrir krabbameinsgreinda. Þriðja hæst var Lára Guðmundsdóttir sem hljóp fyrir Berglindi og safnaði hún 1.128.499 krónum.

Sá hlaupahópur sem safnaði mest var hópurinn Hlaupum fyrir Berglindi en þau söfnuðu 7.229.500 krónum, næst voru Félagar Svenna sem söfnuðu 2.532.000 krónum. Þau félög sem fá mest í ár eru Hlaupum fyrir Berglindi, 10.7 milljónir og Ljósið sem fær 6.3 milljónir.

Alls bárust 16.296 einstök áheit í söfnuninni og var meðalupphæð áheita 4.447 krónur.

Öll áheit sem bárust renna beint til góðgerðarfélaganna. Íslandsbanki greiðir allan kostnað við söfnunina.

Áheitin verða greidd til góðgerðarfélaganna í lok október, en þá berast síðustu greiðslur frá korta og símafyrirtækjum.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka þakkar öllum sem lögðu sitt af mörkum í söfnuninni.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka árið 2021 fer fram þann 21. ágúst.

Mynd: Heimasíða Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka, rmi.is.