Að klára 3100 mílna hlaup - Ókeypis fyrirlestur

uppfært 09. ágúst 2022

Ókeypis fyrirlestur verður um 3100 mílna hlaup Nirbhasa Magee í Sri Chinmoy setrinu, Ármúla 22, fimmtudagskvöldið 11. ágúst kl. 19.30.

Nirbhasa Magee, Reykvíkingur sem er upprunalega frá Írlandi, hefur fjórum sinnum lokið lengsta hlaupi heims - Sri Chinmoy 3100 mílna hlaupinu (tæpir 5000 km). Í þessu hlaupi - Sri Chinmoy 3100 mílna hlaupinu (tæpir 5000km) - verða þátttakendur að hlaupa meira en 95 km á dag í kringum húsaröð eina í Queens, New York, frá klukkan sex á morgnana til miðnættis til að klára hlaupið innan 52 daga. Hann mun þreyta hlaupið í fimmta sinn í september næstkomandi.

Í þessu óformlega erindi mun hann deila nokkrum leyndarmálum, sem munu nýtast jafnt hlaupurum sem öðrum

  • Hlaup sem andlegt ferðalag til að uppgötva sjálfan sig og verða betri manneskja
  • Hugleiðslu- og einbeitingaræfingar til að geta gert sitt besta
  • Hvernig á að vera einn með sjálfum sér á langri leið
  • Hvað á að gera þegar plönin fara úrskeiðis...

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Nánari upplýsingar og skráning á: hugleidsla.org

Hleypur hring eftir hring í kringum Tjörnina til að æfa fyrir lengsta hlaup heims

Til að undirbúa sig fyrir hlaupið, ætlar Nirbhasa að hlaupa allan daginn á mánudaginn 8. og þriðjudaginn 9 ágúst í kringum Tjörnina í Reykjavík, frá sex um morguninn til miðnættis, rétt eins og í 3100 mílna hlaupinu. Hann mun hlaupa hring í kringum báðar tjarnirnar sem er rétt tæp ein bandarísk míla. Öllum er velkomið að koma og hvetja Nirbhasa eða hlaupa með honum nokkur skref eða fleiri. Hann verður með símann sinn með sér eins mikið og hann getur: 698-2799

Nirbhasa hefur verið búsettur á Íslandi síðan 2013 og vinnur við umönnun á Droplaugarstöðum. Hann tók fyrst þátt í þessu lengsta götuhlaupi heims árið 2015. Hann hljóp það aftur árið 2017 og svo 2019, en það ár varð hann í öðru sæti og sett persónulegt met: 48 dagar og 9 klukkutímar. Hann lauk hlaupinu í fjórða sinn árið 2020, þegar það var tímabundið flutt til Salzburg í Austurríki vegna Covid. Þetta ár verður hann einn af 13 keppendum - 10 körlum og 3 konum - sem koma frá öllum heimshornum: Finnlandi, Ítalíu, Rússlandi, Ísrael, Taiwan, Japan, Mongólíu, Úkraínu, Slóvakíu, Nýja Sjálandi og Ástralíu.

Hlaupið var stofnað af Sri Chinmoy árið 1997 til að vekja athygli á íþróttum sem leið til andlegs þroska. Hlaupið gefur þátttakendum tækifæri á að sigrast á takmörkunum sínum og öðlast ánægju af því að efla eigin getu. Asprihanal Aalto frá Finnlandi á heimsmetið: 40 dagar og 9 klukkutímar, sem hann setti árið 2015; hann þreytir hlaupið í sextánda sinn í ár.

Vefsíða hlaupsins: 3100.srichinmoyraces.org