Afrekaskrá Sigurðar P. Sigmundssonar

birt 09. apríl 2004

Afrekaskrá Sigurðar P. Sigmundssonar er komin út með 60 bestu tímunum í öllum aldursflokkum karla og kvenna frá upphafi til 1. apríl 2001.

 • 10 km, hálfmaraþon, maraþon og afrekaskrá 6 bestu í aldursflokkum í brautarhlaupum frá 800m til 10.000m.
 • Einnig afrekaskrá Laugavegsins og upplýsingar um ofurmaraþon Íslendinga.
 • Tilvalið að glugga í skráinni í upphafi hlaupatímabilsins og setja sér markmið fyrir sumarið.

Nýjungar frá seinustu skrá sem kom út 1. ágúst 1999:

 • 60 bestu í stað 50 áður.
 • Afrekaskrá Laugavegsins eftir aldursflokkum.
 • Afrek í ofurmaraþoni.
 • Skráin er prentuð, en var áður fjölrituð.

Nánari upplýsingar um úrvinnslu afrekaskrár

Eftirfarandi skilgreiningar þarf að hafa í huga:

1. Skipting aldursflokka
35-39 ára 40-44 ára 45-49 ára 50-54 ára
55-59 ára 60-64 ára 65-69 ára 70 ára og eldri

Samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu er skráning afreka í aldursflokkum miðuð við afmælisdag, en ekki almanaks-árið eins og yfirleitt er gert í almenningshlaupum til hægðarauka. Þess vegna getur sami einstaklingurinn sett aldursflokkamet í sitt hvorum aldursflokknum á einu og sama árinu.

2. Skráning afreka
Við skráningu afreka verður að gæta að eftirfarandi:

 1. Var hlaupaleiðin rétt mæld skv. þeim reglum sem gilda um mælingar? Hlaupaleið mæld með bifreið eða bifhjóli er t.a.m. ekki lögleg.
 2. Hljóp viðkomandi hlaupari rétta leið? Þegar skrásetjari verður var við óvenju góða tíma t.d. hjá óþekktum hlaupurum er rétt að kanna málið betur. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því s.s. ókunnugleiki, misskilningur og jafnvel svindl. Einnig þarf að fá vitneskju um það ef mistök af hálfu framkvæmdaraðila hafa orðið hvað varðar merkingar eða tímatöku.
 3. Var hlaupaleiðin lögð skv. alþjóðlegum reglum s.s. hvað varðar hæðarmun?
 4. Upplýsingar um viðkomandi hlaupara þurfa að vera réttar s.s. nafn, fæðingardagur og ár. Mikilvægt vegna röðunar í aldursflokka. Einnig er nauðsynlegt að staður og dagsetning viðkomandi hlaups liggi fyrir. Þetta á sérstaklega um þátttöku í hlaupum erlendis þar sem upplýsingar um innlend hlaup liggja yfirleitt fyrir í hlaupaskrá.
 5. Skrásetjari þarf að leitast við að fá upplýsingar um alla þá sem kunna að hafa keppt á mældri vegalengd heima og erlendis.