Andrea Kolbeinsdóttir og Arnar Pétursson sigruðu í Laugavegshlaupinu

uppfært 16. júlí 2023

Laugavegshlaupið fór fram í 27. sinn laugardaginn 15. júlí í blíðskaparveðri. 579 hlauparar hlupu af stað í Landmannalaugum og lögðu leið sína yfir í Þórsmörk, en leiðin er 55 kílómetrar að lengd.  Að sögn hlaupara var frábært hlaupaveður, þægilegur hiti og meðvindur á köflum. Hlaupið í ár var æsispennandi og tóku margir af sterkustu hlaupurum landsins þátt ásamt keppendum frá fjölmörgum löndum, flestir frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Bretlandi.

Andrea Kolbeinsdóttir tók sig til og sigraði í kvennaflokki á tímanum 04:22:56, en hún bætti brautarmet í kvennaflokki annað árið í röð. Á eftir Andreu í öðru sæti var Íris Anna Skúladóttir á tímanum 04:47:47 og á eftir henni í þriðja sæti var Halldóra Huld Ingvarsdóttir á tímanum 04:59:48.

Í karlaflokki sigraði Arnar Pétursson 04:00:08, en hann hann bæti fyrra met sitt í hlaupinu um 4 mínútur. Á eftir Arnari kom Þorbergur Ingi Jónsson á tímanum 04:04:11 og á eftir honum í þriðja sæti var Þorsteinn Roy Jóhannsson á tímanum 04:06:13.

Hlaup.is verður með myndir, vídeó og viðtöl við hlaupara strax á morgun mánudag.

Andrea Kolbeinsdóttir eftir 3 km
Andrea Kolbeinsdóttir eftir 3 km