Bakgarður Náttúruhlaupa - Ný tegund hlaupakeppni

uppfært 21. september 2020

Bakgarður Náttúruhlaupa var haldinn í fyrsta skiptið í gær í Heiðmörk og var hlaupið frá Elliðavatnsbæ. Hlaupið er af erlendri fyrirmynd og er hægt að keppa í slíkum hlaupum víða um heim.

Hlaupinn er 6,7 km langur hringur á klukkutíma og er í ræst í hvern hring nákvæmlega klukkutíma á eftir þeim síðasta. Keppendur geta notað tímann á milli hringja til að hvílast og nærast. Keppninni lýkur sjálfkrafa þegar aðeins einn keppandi hefur náð að klára einum fleiri hring en allir aðrir.

Bakgarður Náttúruhlaupa D
Hlauparar í einum af 6,7 km hringjunum

Sá sem sigraði hlaupið og sá eini sem kláraði hlaupið var Þorleifur Þorleifsson.  Hann hljóp 25 hringi eða 167,5 km. Keppninni lýkur sjálfkrafa þegar það er aðeins einn keppandi eftir, en það þarf alltaf tvo keppendur til að ræsa annan hring. Rúnar Sigurðsson hóf 25. hringinn með Þorleifi en hætti stuttu eftir ræsingu. Þorleifur hélt áfram og kláraði síðasta hringinn með glæsibrag.

Bakgarður Náttúruhlaupa Þorleifur
Þorleifur Þorleifsson sigurvegari í Bakgarði Náttúruhlaupa

Margir sterkir hlauparar mættu til leiks, en keppni af þessari gerð reynir ekki síður á andlega hlið en líkamlega.

Konurnar í keppninni stóðu sig gríðarlega vel og sú sem hætti keppni síðast var Hildur Aðalsteinsdóttir, en hún hljóp 20 hringi eða 134 km. Fjórar aðrar konur hlupu 100 km eða lengra. Tíu karlar hlupu 100 km eða lengra og þrír af þeim hlupu í sólarhring og náðu að fara 160 km eða 100 mílur.

Bakgarður Náttúruhlaupa F
Hlauparar hlaupa í gegnum start/endastöð

Hlaupið tókst mjög vel þrátt fyrir leiðindaveður á köflum og fóru allir sáttir heim þrátt fyrir að klára ekki hlaupið. Langflestir hlupu eins langt og þeir mögulega gátu. Ekki má gleyma sjálfboðaliðum keppninnar sem sköpuðu ótrúlega góða umgjörð og unnu af kappi við að koma keppendum sem lengst áfram.

Stefnt er að því að halda keppnina aftur að ári.

Bakgarður Náttúruhlaupa B
Hlauparar létu ekki bleytu og óhagstætt veður á sig fá