Baldvin Magnússon á besta tíma frá upphafi í 3000m hlaupi innanhúss

uppfært 10. febrúar 2021

Það er ekki annað hægt en að líta björtum augum til framtíðar í langhlaupum þegar fréttir berast af nýjum afrekum ungra íslenskra hlaupara á erlendri grund. Hlynur Andrésson hefur verið að "brillera" og sett hvert Íslandsmetið á fætur öðru undanfarið og nú er stiginn fram á sjónarsviðið annar stórhlaupari Baldvin Þór Magnússon frá Akureyri.

Þann 6. febrúar hljóp hann á besta tíma frá upphafi í 3000 metra hlaupi innanhúss en hlaupið fór fram á 300 metra braut (oversized) í Allendale í Michigan fylki, en hann keppir fyrir Eastern Michigan háskólann, sama skóla og Hlynur útskrifaðist frá.

Baldvin kom í mark á 7:53,92 mín og er það rúmum 5 sekúndum hraðari tími en tveggja ára Íslandsmet Hlyns Andréssonar. Sá tími var 7:59,11 mín og hljóp Hlynur þá á hefðbundinni 200 metra braut í Bergen í Noregi. 

Þessi tími verður skráður sem besti árangur frá upphafi undir OT (oversized track), þar sem afrek á 300 metra braut geta ekki talið til Íslandsmets.

Frétt af fri.is