Del Passatore 100 km ofurhlaupið á Ítalíu

birt 02. maí 2004

Nokkrir íslenskir kjarkmenn og hlauparar þeir Halldór Kvaran, Svanur Bragason og Pétur Reimarsson æfa nú fyrir 100 km Del Passatore hlaupið sem fram fer 29-30. maí næstkomandi.

100 km Del Passatore hlaupið er fyrir ítalska langhlaupara "móðir allra maraþona". Leiðin á milli Flórens og Faenza skipar í þeirra huga sama sess og Boston maraþon skipar í huga bandarískra hlaupara. Á hverju ári taka þátt um það bil 3000-4000 hlauparar í þessari þrekraun. Í ár hefst hlaupið kl. 15 þann 29. maí í Flórens sem er 52 metra yfir sjávarmáli og endar ekki síðar en 20 tímum seinna í Faenze sem er 35 metra yfir sjávarmáli. Þá hafa hlaupararnir hlaupið erfiða leið upp í 913 metra hæð sem eykur enn frekar á erfiðleikastig hlaupsins. Metið á þessari leið á karlmaður með tímann 6:35:35 og besti kvennatíminn er 7:52:15 bæði tímar frá 1991.

Það verður gaman að sjá hvernig þeim félgögum tekst til og mun Hlaupasíðan birta upplýaingar um gengi þeirra að hlaupi loknu.

Heimild: Vefsíða Félags maraþonhlaupara, vefur Runners World, vefsíða Del Passatore hlaupsins.