birt 02. júlí 2004

Í gær fór fram eitt stærsta brautarhlaup sem haldið hefur verið á Íslandi.  Framfarir, hollvinafélag millivegalengda- og langhlaupara, hélt í samstarfi við FH innanfélagsmót þar sem keppt var í 3000m hlaupum karla og kvenna auk spjótkasts karla og sleggjukasts kvenna.  Skemmst er frá því að segja að þátttaka var gífurleg á mælikvarða íslenskra brautarhlaupa, 31 karl og 8 konur hlupu 3000m en heldur var þátttakan minni í köstunum að þessu sinni.

Í kvennaflokki kom Gerður Rún Guðlaugsdóttir Langhlauparafélaginu fyrst í mark á tímanum 10:43,61mín, önnur varð Jóhanna Eiríksdóttir Laugaskokki á 14:13,51 mín og þriðja Sólveig M. Kristjánsdóttir FH á 14:18,08 mín. Fyrstur karla varð Stefán Guðmundsson Breiðabliki á tímanum 9:31,65 mín, Burkni Helgason ÍR annar á 9:45,09 mín og þriðji Jósep Magnússon UDN á 10:03,39 mín.

Þau Gerður og Stefán hlutu að launum glæsileg verðlaun; ASICS hlaupaskó, Afrekaskrá í lengri vegalengdum eftir Sigurð Pétur Sigmundsson og gullverðlaunapeninga um hálsinn.

Framfarir stefna að fleiri hlaupum af þessu tagi í framtíðinni og vænta áframhaldandi góðra undirtekta íslenskra hlaupara. Heildarúrslit hlaupsins má finna á vefsíðu frjálsíþróttadeildar FH, www.frjalsar.is innan nokkurra daga.