Fjórir Íslendingar á HM í hálfmaraþoni um helgina

uppfært 17. október 2020

Heimsmeistaramótið í hálfu maraþoni fer fram á laugardaginn, 17. október í Póllandi. Fjórir af fremstu langhlaupurum Íslands munu keppa fyrir Íslands hönd á mótinu en alls eru keppendur 283 talsins frá 62 löndum. Þetta kemur fram í frétt á vef á Frjálsíþróttasambandsins sem hér er endurbirt með góðfúslegu leyfi FRÍ. 

Hér verður hægt að horfa beina útsendingu frá hlaupinu. Konurnar byrja kl. 9:00 og karlarnir 10:30 að íslenskum tíma.

Hlaupið verður eina alþjóðlega mótið á vegum World Athletics á þessu ári og á meðal keppenda verða fremstu hlauparar heims. Ísland sendir sitt allra sterkasta lið en þar eru Andrea Kolbeinsdóttir, Arnar Pétursson, Elín Edda Sigurðardóttir og Hlynur Andrésson. Fríða Rún Þórðardóttir er liðsstjóri.

Andrea og Elín Edda eru báðar margfaldir Íslandsmeistarar í langhlaupum og eiga þær annan og þriðja besta tíma íslenskra kvenna í hálfu maraþoni frá upphafi. Aðeins átta sekúndur skilja þær að þar sem Elín á betri tíma. Elín Edda hefur einnig hlaupið næst hraðasta maraþon íslenskrar konu. Andrea á stúlknamet 18-19 og 20-22 ára í hálfu maraþoni ásamt því að eiga Íslandsmetið í 3000 metra hindrunarhlaupi.

Andrea Kolbeins FRÍ mynd
Andrea Kolbeinsdóttir.

Arnar er í þriðja sæti íslenska afrekalistans í hálfu maraþoni og Hlynur í því sjöunda. Þeir eru einnig báðir margfaldir Íslandsmeistarar í langhlaupum. Helsta grein Arnars er maraþon þar sem hann á fjórða besta tíma Íslendings frá upphafi og hefur hann sett stefnuna á að komast á Ólympíuleikana í þeirri grein. Hlynur hefur hins vegar einbeitt sér meira að styttri vegalengdum og þar á hann fjölda Íslandsmeta allt frá 1500 metrum og upp í 10.000 metra.

Arnar Péturs FRÍ mynd
Arnar Pétursson

Íslenska liðið mætir sterkum erlendum keppendum þar sem þar á meðal eru nokkrir heimsmethafar. Þar má nefna Ababel Yeshaneh frá Eþópíu sem á heimsmetið í hálfu maraþoni, Sifan Hassan frá Hollandi sem á heimsmetin í mílu hlaupi og 5 km götuhlaupi og Joshua Cheptegei frá Úganda sem á heimsmetin í 5 km götuhlaupi og 5.000 og 10.000 metra hlaupi á braut.

Hlynur FRÍ mynd
Hlynur Andrésson

Kvennahlaupið hefst klukkan 9 á laugardagsmorgun á íslenskum tíma og karlahlaupið klukkan 10:30.

Það er ljóst að ekki er einfalt verkefni að skipuleggja viðburð sem þennan á tímum heimsfaraldurs. Hér má finna áhugavert viðtal við stjórnenda viðburða hjá alþjóðafrjálsíþróttasambandinu Jakob Larsen. Þar greinir hann frá því af hverju ákveðið var að halda HM í miðjum heimsfaraldri og áskorunum sem því fylgja.

Fyrir áhugasama má sjá myndband af hlaupaleiðinni á Youtube. Á vef alþjóðafrjálsíþróttasambandsins má finna ítarlegar upplýsingar um hlaupið og fylgjast með úrslitum.

Samhliða hlaupinu verður haldið „virtual mass race“ þar sem fólk getur skráð sig og hlaupið hálft maraþon á sama tíma hvar sem er í heiminum. Hver sem er getur skráð sig og er það gjaldfrjálst. Hér má finna ítarlegri upplýsingar um „virtual mass race“.

Frétt og myndir frá FRÍ.