Frjálsíþróttamenn úr Tindastóli í æfingaferð

birt 09. apríl 2004

Frjálsíþróttamenn úr Tindastóli og öðrum skagfirskum félögum eru nýkomnir heim ásamt félögum sínum úr UMSE. Hópurinn keppti m.a. á tveimur mótum þar sem nokkrar bætingar urðu hjá fremstu millivegalengdahlaupurum okkar Íslendinga.

Sveinn Margeirsson bætti sig bæði í 1500m hlaupi og 800m hlaupi. 1500 metrana hljóp hann á 3.50.29 mín, sem er besti tími sem Íslendingur hefur náð í greininni um nokkurra ára skeið. Sveinn átti áður 3.54.93 mín. Í 800m hljóp hann á 1.53.9 mín sem er bæting um 1,5 sekúndur.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson hljóp 800m á 1.53.36 mínútum og bætti sig um meira en sekúndu. Sigurbjörn hefur nýlokið við vörn á doktorsritgerð sinni við Georgíuháskóla í Athens. Hann flyst til Íslands í sumar og mun án efa láta til sín taka í hlaupunum í sumar og vetur.

Ragnar Frosti Frostason, mjög efnilegur hlaupari úr Skagafirðinum, bætti sinn tíma bæði í 400m hlaupi og 800m hlaupi. Ragnar er einn af fjölmörgum sterkum millivegalengdahlaupurum í Tindastóli sem ætla að gera atlögu að meti FH-inga í 4x800m hlaupi í sumar. Annar sterkur hlaupari úr þeirri sveit, Stefán Már Ágústsson, hljóp 800m á 1.56.57 mínútum í Bandaríkjunum og hefur aldrei hlaupið betur í fyrsta hlaupi.