Fyrirkomulag skráningar í Laugavegshlaupið 2023 - Viðtal við Silju hjá ÍBR

uppfært 07. nóvember 2022

Skráning í Laugavegshlaupið hófst 3. nóvember og lýkur fimmtudaginn 10. nóvember. Skilyrði fyrir skráningu í Laugavegshlaupið eru nú breytt þar sem þátttökuskilyrðin eru nú 370 ITRA stig til að fá miða í hlaupið.  Þann 17. nóvember verður svo tilkynnt hver fá miða í hlaupið.

Við ræddum við Silju Úlfarsdóttir hjá ÍBR og spurðum hana út í fyrirkomulagið.

Silja sagði að hlauparar safni ITRA stigum með því að taka þátt í utanvegahlaupum sem eru viðurkennd af ITRA samtökunum (International Trail Running Association). Fjölmörg hlaup á Íslandi og um allan heim eru aðilar að þessum samtökum. Hlauparar sem hafa tekið þátt áður í Laugavegshlaupinu og klárað innan tímatakmarkana (9,5 klst) fá að lágmarki 370 ITRA stig. Það er því ekki nauðsynlegt að vera afrekshlaupari til að ná í skráningu í hlaupið, heldur að hafa tekið þátt í einhverjum af eftirtöldum hlaupum á Íslandi sem gefa hlaupurum ITRA stig og náð þokkalegum tíma þar.

 • Austur Ultra
 • Dyrfjallahlaupið
 • Eldslóðin
 • Fimmvörðuhálshlaupið
 • Hengill Ultra
 • Hólmsheiðarhlaupið
 • Hvítasunnuhlaupið
 • Laugavegshlaupið
 • Mt. Esja Ultra
 • Mýrdalshlaupið
 • Pósthlaupið
 • Súlur Vertical
 • Tindahlaupið
 • Trékyllisheiðarhlaupið
 • Þorvaldsdalsskokkið

200 stigahæstu hlaupararnir fá öruggan miða í hlaupið (skipt jafnt milli kynja), aðrir hlauparar fara í lottó líkt og áður. Þau sem verða ekki dregin út fara á biðlista fyrir hlaupið, en 3. apríl er lokadagur sem verður tekið inn af biðlista. Allar upplýsingar um skráninguna, tímalínuna, úrvinnslu umsókna, greiðslur og góðgerðarskráninguna má finna á heimasíðu Laugavegshlaupsins. Einnig er hægt að finna nánari upplýsingar um ITRA og skráningarfyrirkomulagið á heimasíðu ITRA.