Góðgerðarboðhlaupi Reykjavíkurmaraþons lokið

uppfært 25. ágúst 2020

Í dag fór fram Góðgerðarboðhlaup Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka í frábæru hlaupaveðri. Þrátt fyrir að ekki var hægt að halda Reykjavíkurmaraþonið í ár vildum við halda söfnuninni fyrir góðgerðarfélögin gangandi. Steindi hljóp í dag 10 km með nokkrum þekktum einstaklingum, þar sem allir hlupu 1 km.

Hlaupið hófst kl 14:00 þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid hlupu fyrsta kílómetrann með Steinda. Hlaupasnillingarnir Arnar Pétursson og Martha Ernst tóku kílómetra tvö með Steinda. Elín Edda Sigurðardóttir, hlaupakona, ásamt teymi af læknum og hjúkrunarfræðingum hlupu þriðja kílómetrann og Samtökin 78 tóku við og hlupu fjórða kílómetrann. Slökkviliðið á Höfuðborgarsvæðinu mætti í göllunum sínum og hlupu fimmta kílómetrann með Steinda en svo tók kvennalandsliðið í knattspyrnu við og tóku sjötta kílómetrann. Björvin Ingi Ólafsson, sá einstaklingur sem hefur safnað mest í áheitasöfnuninni hljóp sjöunda kílómetrann fyrir Ferðasjóð Guggu. Skemmtikraftarnir Eva Ruza og Hjálmar Örn tóku áttunda kílómetrann og Elísabet Margeirsdóttir, einn besti langhlaupari Íslands, og Snorri Björsson, hlaðvarpari, tóku níunda kílómetrann. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, tók síðan síðasta kílómeterinn og kláraði Góðgerðarhlaup Íslandsbanka 2020.

Áheitasöfnun hlaupsins á hlaupastyrkur.is er enn í fullum gangi og verður opin til miðnættis á miðvikudaginn 26. ágúst. Áheitin eru þegar komin yfir 60.000.000 kr.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka þakkar öllum fyrir daginn og hvetur alla landsmenn að hlaupa #mittmaraþon!