Hlaupasamfélagið í dvala næstu vikur - öllu frestað

uppfært 06. október 2020

Íslenska hlaupasamfélagið fer ekki varhluta af hertum sóttvarnarráðstöfunum, búið er að fresta fyrsta Powerade vetrarhlaupinu sem átti að fara fram á fimmtudag, Víðavangshlaupi Íslands (10. Október) og öðru Víðavangshlaupi Framfara og Fimbul.is (17. október). Þá hefur fyrsta Flandraspretti vetrarins sem átti að fara fram 20. október verið aflýst. Hlaup.is hefur tekið saman tilkynningar hlaupahaldara hér að neðan.

Hlaup.is tekur undir hvatningu sóttvarnaryfirvalda um landsmenn fari sérstaklega varlega næstu tvær vikur og að m.a. hlaupahópar dragi úr starfsemi sinni. Við getum vel æft með okkar nánustu eða ein. Það er nú kosturinn við hlaupin. Því betur sem við stöndum okkur, því fyrr kemst hlaupasamfélagið og þjóðfélagið allt í réttan gír.

Tilkynning frá Burkna Helgasyni skipuleggjanda Víðvangshlaupa Framfara og Fimbul.is og Víðavangshlaups Íslands:

Í ljósi hertra aðgerða yfirvalda vegna Covid-19 er Víðavangshlaupi Íslands, 10.október, og fyrirhuguðu Víðavangshlaupi Fimbul.is og Framfara sem átti að vera þann 17.október við Gufunesbæ frestað um óákveðinn tíma.

Frekari tilkynninga um þessi hlaup og síðasta hlaup í Framfararöðinni er að vænta þann 20. október næstkomandi.  

Stefán Gíslason einn skipuleggjanda Flandrasprettanna sendi hlaup.is eftirfarandi tilkynningu:

Kæru Flandrarar og Flandravinir. Í ljósi stöðunnar sem uppi er, með hliðsjón af tilmælum Ríkislögreglustjóra um að takmarka ferðir til og frá höfuðborgarsvæðinu og að teknu tilliti til frétta dagsins af hertum sóttvarnaraðgerðum, hefur aðalyfirstjórn Flandra ákveðið að aflýsa fyrsta Flandraspretti vetrarins, sem annars hefði átt að fara fram þriðjudaginn 20. október nk. Ákvörðun um framhaldið verður í fyrsta lagi tekin í byrjun nóvember. Jafnframt hefur verið ákveðið að fresta reglulegum hlaupaæfingum enn um sinn.

Til frekari upplýsingar er rétt að fram komi að samkvæmt reglum um framkvæmd æfinga og keppni, sem Frjálsíþróttasamband Íslands birti í morgun í samvinnu við sóttvarnaryfirvöld, er enn mögulegt að efna til keppnishlaupa á borð við Flandraspretti, enda sé fylgt ströngum takmörkunum varðandi fjölda og samgang keppenda og starfsfólks. Þrátt fyrir þetta telur aðalyfirstjórnin óheppilegt að stefna saman fólki við þær aðstæður sem uppi eru.

Eftir sem áður hvetur aðalyfirstjórnin Flandrara og vini þeirra til að huga vel að eigin líkama og sál, m.a. með því að stunda regluleg hlaup og aðra líkamsrækt. Mikilvægi þess er jafnvel enn meira nú en nokkru sinni fyrr. Um leið er hvatt til að fylgt sé öllum leiðbeiningum yfirvalda um sóttvarnir á hverjum tíma.

Á Facebooksíðu Powerade vetrarhlaupanna birtist eftirfarandi tilkynning:

Ákveðið hefur verið að fresta hlaupinu sem vera átti á fimmtudaginn næstkomandi. Einnig er verðlaunaafhendingu vegna seríunnar 2019-2020 sem vera átti á morgun þriðjudag frestað.

Við vonum síðan að við munum geta haldið nóvember hlaupið fimmtudaginn 12. nóvember.