Hlynur gerir atlögu að Ólympíulágmarki í maraþoni á sunnudag

uppfært 21. mars 2021

Hlynur Andrésson ætlar að gera atlögu að Íslandsmeti Kára Steins Karlssonar (02:17:12 í Berlín 2011) í maraþonhlaupi í Dresden á sunnudaginn kemur. Það sem sem meira er þá hefur Hlynur sett stefnuna á Ólympíulágmarkið sem er 2:11:30. Takist Hlyni ætlunarverk sitt yrði það án efa eitt mesta íþróttaafrek ársins 2021.

Til stóð að Hlynur tæki þátt í maraþoni í Bern síðastliðinn sunnudag en óhagstæð veðurskilyrði komu í veg fyrir að hlaupið færi fram. Þess má geta að þetta verður fyrsta maraþonhlaup Hlyns en hann á fjölda Íslandsmeta í hinum ýmsum vegalengdum hvort sem er á braut eða götu. Við hvetjum íslenska hlaupasamfélagið til að fylgjast vel með þessum metnaðarfulla Vestmannaeyingi á sunnudaginn en hlaupið fer fram á sunnudagsmorgun.

Að lokum má benda áhugasömum á viðtal sem hlaup.is tók við Hlyn fyrir skömmu þegar hann var valinn langhlaupari ársins.