Hlynur setur nýtt Íslandsmet í 10.000m hlaupi

uppfært 07. júní 2021

Vestmannaeyingurinn Hlynur Andrésson setti aftur glæsilegt Íslandsmet í 10.000m hlaupi sunnudaginn 6. júní og hljóp á tímanum 28:36,80 mín og bætti eigið Íslandsmet 28:55,47 mín frá því í fyrra, um 19 sekúndur. Hlynur er eini Íslendingurinn sem hefur hlaupið 10.000m á braut undir 29 mínútum.

Hlaup.is hafði samband við Hlyn og spurði hann hvort maraþon undirbúningurinn frá því í vor, þegar hann sló Íslandsmetið hressilega, væri að skila honum þessum árangri eða eitthvað annað?

Hlynur taldi að þetta væri aðallega uppskera samfelldra æfinga, ekki bara frá því vetur heldur síðustu tveggja ára. Honum hefði liðið mjög vel eftir maraþonið og náð að koma sér aftur í gott form frekar hratt í maí, en væri núna virkilega kominn í toppform og ætlaði að reyna hlaupa hratt í júní og júlí. Síðan í apríl sagðist hann hafa verið að negla allar æfingarnar á brautinni og bara yfir höfuð fundist hann vera orðinn mikið sterkari en í fyrra, sérstaklega í enda æfinga eða keppna.

Prógrammið hafi aðeins breyst síðan í maraþon undirbúningnum og hann stílaði minna á langa túra og meira á ákefð og intervöl á brautinni. Hlynur sagðist hafa vitað að hann væri í formi fyrir eitthvað í kringum 28:30, þannig að 28:36 væri bara fínn tími en taldi að ef hann hefði ekki þurft að leiða svona mikið af hlaupinu og að hraðinn hefði verið aðeins jafnari í seinni helmingnum að þá hefði tíminn hefði verið nær 28:20.

Hlynur Andrésson VES2020 387
Hlynur Andrésson í Vestmannaeyjahlaupinu 2020

Við spurðum Hlyn aðeins út hvernig hlaupið hefði þróast og hann sagði að fyrstu 5 km, sem hann hljóp á 14:14, hefðu verið eins hann væri að jogga meiri hlutann af fyrri helmingnum. "Svo hefðu hérarnir dottið út og þá lenti það á keppnishlaupurunum sjálfum að halda uppi hraðanum sem getur stundum verið rosa erfitt, því þarna eru menn orðnir þreyttir líkamlega og andlega og það eyðir mun meiri orku að leiða, þannig að það er alltaf smá vandamál að fá aðra til þess að vinna með sér" sagði Hlynur. Síðustu þrír kílómetrarnir voru líka mjög erfiðir, andlega og líkamlega, en Hlynur kláraði síðasta kílómeterinn á 2:43 og síðustu 400m á 61 sek, þannig að hann sagðist hiklaust vera sterkari en hann hefði áður verið og það hefði sést í lok hlaupsins.

Hlynur sagðist að lokum vera með 5000m í hausnum og taldi að hann væri í formi fyrir eitthvað í kringum 13:30, en viðurkenndi að það er eitt að segja það og annað að gera það.

Hlynur á jafnframt Íslandsmet utanhúss í 3000 m hlaupi, 3000 m hindrunarhlaupi, 10 km götuhlaupi, hálfu maraþoni og maraþoni. Hann átti áður Íslandsmetið líka í 5000 m hlaupi en Baldvin Þór Magnússon bætti það fyrr á árinu.