Hlynur sló Íslandsmet með lausa skóreim

uppfært 21. september 2020

Hlynur Andrésson lætur ekki heimsfaraldur aftra sér frá því að vera í feyknaformi um þessar mundir. Hann bætti Íslandsmet sitt frá 2018 í 10.000m hlaupi um hálfa mínútu í Hollandi um helgina, hljóp á 28.55,47.  Frábær tími en þess má geta að meðalhraði Hlyns í hlaupinu var 2 mín 54 sek á kílómetra.

Morgunblaðið fjallar um afrekið í mánudagsútgáfu sinni og þar kemur m.a. fram að reiminn á öðrum skóm Hlyns hafi losnað skömmu eftir að hlaupið hófst, hann hafi því hlaupið bróðurpart hlaupsins með fótinn lausan í skónum. „Fyrst hafði ég miklar áhyggjur af þessu en svo gleymdi ég þessu í því andlega stríði sem fylgir síðustu tíu hringjunum. Að hlaupa 10 þúsund metra tekur mjög á andlega því þú þarft að vera með allt í botni í hálftíma,“ sagði Hlynur í spjalli við blaðamann Morgunblaðsins.

Jafnframt segir Hlynur að tíminn hafi ekki komið sér sérstaklega á óvart, hlaupið hafi gengið samkvæmt áætlun og þá hafi verið mjög jákvætt að taka þátt í jafn sterku hlaupi upp á samkeppnina að gera. Þess má geta að sigurvegarinn í hlaupinu, Nicholas Kipkorir frá Kenýu, kom í mark á 26:58,97.

Í færslu á Facebooksíðu sinni segir Hlynur: „28:55,47 fyrir 10km á braut í gærkvöldi á Hollenska meistaramótinu. 25 sek bæting á Íslandsmeti mínu og fyrsti Íslendingur til að hlaupa vegalengdina undir 29 mín. Lítið um tækifæri þetta utanhúss tímabil vegna ástandsins en setti met í þeim þremur skiptum sem ég steig á brautina. Næsta verkefni er HM í hálfmaraþoni í Póllandi ef Covid-19 kemur ekki í veg fyrir að sú keppni verður haldin,“ segir Hlynur í færslu á Facebook.

Við minnum lesendur á fróðlegt viðtal við Hlyn sem birtist í síðustu viku.