Íslandsmet Hlyns Andréssonar á heimsmeistaramótinu í hálfu maraþoni

uppfært 17. október 2020

Heimsmeistaramótið í hálfu maraþoni fór fram í dag laugardaginn, 17. október í Póllandi. Fjórir af fremstu langhlaupurum Íslands kepptu fyrir Íslands hönd á mótinu en alls voru keppendur 283 talsins frá 62 löndum. Hlaupnir voru fjórir 5 km hringir í borginni Gdynia í topp aðstæðum. Hlaupið var eina alþjóðlega mótið á vegum World Athletics á þessu ári og á meðal keppenda voru fremstu hlauparar heims, meðal annars nokkrir heimsmetshafar. Fyrir hönd Ísland kepptu sterkustu langhlauparar á Íslandi þau Andrea Kolbeinsdóttir, Arnar Pétursson, Elín Edda Sigurðardóttir og Hlynur Andrésson.

Í kvennaflokki lauk Andrea Kolbeinsdóttir keppni á 1:17:52 og bætti tímann sem hún átti. Elín Edda Sigurðardóttir hljóp á tímanum 1:24:20, en meiðsli í fæti snemma í hlaupinu gerðu henni erfitt fyrir. Hún sýndi mikla keppnishörku og kláraði hlaupið en nokkuð frá sínu besta.

Í karlaflokki lenti Hlynur Andrésson í 52. sæti af 122 hlaupurum og setti glæsilegt Íslandsmet 1:02:47 og bætti þar með met Kára Steins Karlssonar (1:04:55) um rúmlega 2 mínútur. Frábært afrek og mikils að vænta af Hlyn í framtíðinni. Arnar Pétursson þurfti hins vegar að hætta í hlaupinu vegna magavandræða.

Hlaup.is heyrði í hópnum stuttu eftir hlaup og við byrjuðum á að ræða við Andreu Kolbeinsdóttur.

Andreu sagðist hafa liðið vel í hlaupinu en kannski ekki átt von á því að bæta sig. Brautin hafi ekki virkað hröð fyrir fram, á fótinn í fyrri hluta með nokkrum smá brekkum og tveimur 180° beygjum, en annað kom á daginn.

Hún hafi verið búin að undirbúa sig vel í vor fyrir hlaupið þegar það var á dagskrá þann 29. mars en þegar hlaupinu var frestað hellti hún sér í undirbúning fyrir inntökupróf í læknisfræði og sagðist hafa lítið hlaupið í 3-4 mánuði. Hún var því nýkomin í gang aftur þegar hlaupið var sett á dagskrá og ákveðið með mánaðar fyrirvara að senda lið á mótið. Það var því ekki mikill tími til stefnu, en Martha Ernstsdóttir þjálfari hennar fullvissaði hana um að hún væri með nóg í „bankanum“ af hlaupum og ætti að láta slag standa, sem sannarlega skilaði sér.

Andrea sagði líka að þetta væri allt öðruvísi keppnisferðalag en hún væri vön út af öllum þeim takmörkunum sem væru við líði út af Covid-19. Að lokum sagðist Andrea telja sig eiga töluvert inni og það verður spennandi að fylgjast með henni á næstu misserum.

Andrea Kolbeins FRÍ mynd
Andrea Kolbeinsdóttir

Hlaup.is ræddi líka við Hlyn Andrésson sem setti glæsilegt Íslandsmet.

Hlynur sagði að aðstæður hefðu verið frábærar, 8-9°C og logn, brautin að vissu leyti krefjandi en þegar á reyndi hefði það jafnast út á hringnum. Fyrri hluti hringsins hefði verið aðeins upp í móti en seinni hluti aðeins niður og hægt að ná sér til baka eftir fyrri hlutann.

Hann hefði gert sér vonir, eftir að hafa náð að hlaupa 10 km undir 29 mín á braut, um að ná að hlaupa á tímanum 1:03:40, en lét sig ekki dreyma um að fara undir 1:03. Hlynur sagðist hafa komið sér fyrir í góðum hóp með góðan rúll hraða, en þegar fyrstu 5 km voru búnir á 14:58, þá sagðist hann hafa hugsað um að þetta væri fullhratt, en ákvað að taka sénsinn og halda hraðanum með hópnum. Eftir 10 km á 29:32 leið honum ennþá vel og einnig eftir 15 km, en þegar 16 km voru að baki, þá byrjaði að síga í. Síðasti hringurinn var því ansi erfiður en Hlynur sagðist hafa keyrt á það og klárað síðan á glæsilegu Íslandsmeti.

Spurður að því hvað væri næst á dagskrá, sagðist Hlynur ætla fara heim til Hollands þar sem hann býr og starfar, taka viku hvíld og ræða við þjálfara sinn um næstu skref. Ólympíulágmarkið 2:11:30 í maraþoni freistaði hins vegar og Hlynur segir það ekki ólíklegt að hann reyni við það lágmark í janúar, í maraþoni í Sevilla á Spáni. Hann segir það jafnvel raunhæft, því hann hafi verið að vinna hlaupara sem hafa verið að hlaupa maraþon á 2:10.

Hlynur segir að hann hafi lagt hart að sér undanfarin 2 ár, eftir að hann kláraði háskólanám og æft mikið. Hann hafi núna náð þeim markmiðum sem hann setti sér í brautarhlaupum, það er að hlaupa 3 km undir 8 mín, hlaupa 5 km undir 14 mín og hlaupa 10 km undir 29 mín. Honum finnist því alveg vera kominn tími á að spreyta sig meira í götuhlaupunum.

Sjá líka viðtal við Hlyn hér á hlaup.is eftir Vestmannaeyjahlaupið.

VES2020 384
Hlynur Andrésson

Við ræddum líka við Arnar Pétursson, en hann þurfti að hætta í hlaupinu vegna magavandræða. Hann segir að þessi magavandamál hafi gert vart við sig áður bæði í Reykjavíkurmaraþoni 2012 og nokkrum öðrum hlaupum og nú síðast á æfingu í byrjun vikunnar. Hann hafi því verið orkulaus í upphafi hlaupsins og glímt við magann sem varð til þess að hann gat ekki hlaupið meira og hætti.

Þetta var því ekki hans dagur. Arnar sagðist hafa unnið vel í hraðanum, ma. hlaupið Adidas Boost hlaupið mjög vel á 30:26 og því stefndi allt í góðan tíma. Óvissan á þessum Covid tímum og breytingar á Ólympíulágmarkinu sem hann stefndi að hefðu líka haft truflandi áhrif. Hann horfir samt björtum augum til framtíðar og vonandi sjáum við hann áfram sterkan á hlaupabrautinni til langrar framtíðar.

Arnar Pétursson RM2019 07005
Arnar Pétursson

Elín Edda Sigurðardóttir sýndi miklar keppnishörku og kláraði hlaupið þrátt fyrir að hafa fengið sáran verk undir ilina strax eftir 5 km hlaup. Hún sagði að sér hefði liðið mjög vel fyrir hlaupið og hefði fengið góðan undirbúning í morgun, en svo hefði þetta gerst. Hún sagði að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem hún hefði lent í þessu, þetta hefði verið að hrjá hana áður og væri líklega blanda af gömlum kálfameiðslum og iljarfellsbólgu (plantar fasciitis) sem áður hefur gert vart við sig.

Elín Edda sagði að þetta væri líklega eitt versta hlaup sem hún hefur tekið þátt í og þegar 3 km voru eftir sagðist hún hafa stoppað í 2 mínútur og velt fyrir sér að hætta, en ákveðið síðan að klára hlaupið þrátt fyrir allt. Hún væri samt stolt yfir árangri Andreu og Hlyns og það hefði verið gaman að vera hluti af því þegar Hlynur setti Íslandsmetið.

Elín EddaHVI2020 0153
Elín Edda Sigurðardóttir