Íslenski Írinn lauk 4989 km hlaupi á 51 degi

uppfært 27. nóvember 2020

Íslenski írinn Nirbhasa Magee tókst að klára lengsta götuhlaup heims, Sri Chinmoy 3100 mílna hlaupið (4989 km), sem lauk í Salzburg 3. nóvember.

Tími Nirbhasa var 51 dagur, 9 klukkutímar, 41 mínúta og 53 sekúndur en honum tókst að klára 12 klukkutímum og 18 mínútum áður en hlaupinu lauk endanlega. Að meðaltali hljóp Nirbhasa 97,07 km á dag.

Þetta er í fjórða sinn sem Nirbhasa tekst að klára þetta hlaup, en þessi 41 árs Íri hefur búið og æft fyrir öll þessi fjögur hlaup á Íslandi en hann hefur búið á klakanum góða í sjö ár.

Það eitt að ná að klára þetta hlaup er mikið afrek eins og eflaust allir átta sig á. Aðeins örfáir fá leyfi til að taka þátt á ári hverju og ekki allir ná að klára. Í ár tóku fimm hlauparar þátt og þrír náðu að klára.