Kilian Jornet reynir við 24 klst metið á braut - Bein útsending

uppfært 27. nóvember 2020

Í dag föstudaginn 27. nóvember reynir Kilian Jornet, besti utanvegahlaupari sögunnar, að bæta metið í 24 klst hlaupi á braut. Heimsmetstilraunin Kilian í 24 klst hlaupinu fer fram í norska bænum Måndalen, sem er um 6 klst norður af Osló. Vegna veðuraðstæðna, m.a. mikils snjós þá hefur þurft að fresta hlaupinu nokkrum sinnum, en nú er stundin runnin upp og Kilian lagður af stað. Það er nokkuð kalt í veðri og köld gjóla sem leikur um völlinn.

Núgildandi met var sett árið 1997 af Yiannis Kouros, samtals 303,506 km (meðalhraði 4:44 mín/km) en hann á einnig 24 klst metið í götuhlaupi 290,221 km. Yiannis er grískur hlaupari fæddur 1956 og er einn allra besti ultra hlaupari sögunnar. Hann setti hvert ultrahlaupametið af öðru á síðustu tveim áratugum síðustu aldar og til gamans má geta þess að hann á heimsmetin í 1000 km hlaupi á braut 5 dagar 16 klst og 17 mín (meðalhraði 8:11 mín/km) og 1000 km á götu, 5 dagar 20 klst og 40 sek (meðalhraði 8:25 mín/km). Sá sem næst hefur komist meti Yiannis er Dennis Zhalybin sem hljóp 282,28 km og þess má líka geta að Yiannis á 11 bestu 24 klst tímana sem skráðir hafa verið. Hvernig nær maður svona árangri? Yiannis segir að leyndarmál sitt sé eftirfarandi: „Þegar aðrir hlauparar verða þreyttir þá stoppa þeir. Ég geri það ekki. Ég yfirtek líkama minn með huganum og segi líkamanum að hann sé ekki þreyttur. Og líkaminn hlustar.“

En hver er Kilian Jornet? Kilian Jornet er spænskur, nánar tiltekið frá því ágæta héraði Cataloníu og er fæddur árið 1987. Hann hefur unnið öll helstu og frægustu  ultrahlaup í heimi eins og UTMB, Western States Endurance Run og Hardrock Hundred Mile Endurance Run svo einhver séu upptalin og sum oftar en einu sinni og tvisvar. Kilian á líka bestu tíma í hlaupum upp og niður frægustu og hæstu fjöll í heimi eins og Mt. Everest, Mont Blanc, Denali og Matterhorn. En hann getur meira en hlaupið, hann á líka metið í 24 klst skíðagöngu upp í móti, 23.864 metrar. Þegar horft er yfir afrekalistann hans, þá er algengast að sjá fyrsta sæti í hinum ýmsu keppnum, en þó slæðast með annað og þriðja sæti í nokkur skipti. En þrátt fyrir að hlaupa og keppa í löngu fjallahlaupum séu hans einkenni, þá er hann líka vel liðtækur í styttri hlaupum og fyrir nokkrum vikum keppti hann í 10 km götuhlaupi og hljóp það á rétt um 31 mínútu.

Það má því segja að Kilian Jornet sé fremstur fjallahlaupara í heiminum en einnig gífurlega góður alhliða hlaupari og íþróttamaður.

Kilian Jornet 7
Kilian Jornet - Myndir af Instagram síðu Salomon Running

Þegar þetta er skrifað hefur Kilian haldið 4:22 pace og hlaupið maraþon á 3:04:28, sem þýðir að takist honum að halda þessum hraða mun hann hlaupa rúmlega 330 km á þessum 24 tímum. Þessi hraði er töluvert undir meðalhraða Yiannis (4:44) þegar hann setti sitt met en hafa verður í huga að þegar líður á hlaupið þá getur hægst á Kilian, en einnig þarf að gera ráð fyrir tíma til næringar og klósettferða.

Svona löng hlaup snúast ekki bara um þol og þrek, heldur þarf að skipuleggja gríðarlega vel næringar- og vökvainntöku sem bæði skilar orku allan tímann en tryggir líka að magi og líkami þoli og geti unnið úr næringunni án vandkvæða. En þetta ætti ekki að verða vandamál, því Kilian hefur mikla reynslu í svona löngum hlaupum.

Hægt er að fylgjast „live“ með heimsmetstilrauninni á: https://www.salomon.com/phantasm24

Tímar og split "Live" eru á: https://racetracker.no/events/2020/moon-valley-24h