Kjóstu langhlaupara ársins 2021 hjá hlaup.is

uppfært 08. febrúar 2022

Í samvinnu við Sportís og HOKA stendur stendur hlaup.is fyrir vali á langhlaupara ársins í þrettánda skiptið, bæði í karla- og kvennaflokki. Þá er einkum verið að horfa til afreka í götu- og utanvegahlaupum eða annarri keppni í langhlaupum.

Að þessu sinni hafa 6 konur og 6 karlar verið valdir af fulltrúum hlaup.is, sem mynda endanlegan lista hlaupara sem kjósa á um. Það val var ekki auðvelt frekar en áður, því margir af þeim hlaupurum sem tilnefndir voru, hafa hver á sinn hátt unnið góð afrek á síðasta ári.

Allir sem kjósa fara í pott og geta unnið HOKA hlaupaskó frá Sportís. Kosning hefst þriðjudaginn 25. janúar og hægt verður að kjósa til miðnættis fimmtudaginn 10. febrúar.

Til að kjósa verður þú að skrá þig inn á Mínar síður á hlaup.is (sjá innskráningu efst til hægri á þessari síðu).

Hér fyrir neðan eru tilnefningar í stafrófsröð.

Karlar

Arnar Pétursson (30 ára) var með besta árangur ársins í hálfmaraþoni en hann sigraði í Vormaraþoninu á 1:08:58 klst  og í 10 km er hann sigraði í Ármannshlaupinu á 31:29 mín. Arnar sigraði í Víðavangshlaupi Íslands 8 km og tók jafnframt þátt í fjölmörgum götuhlaupum og var jafnan sigursæll. Má þar nefna Fjölnishlaupið (31:35),  Akureyrarhlaupið (31:51) og Adidas Boost (31:34).

Arnar Pétursson VID2021 0165
Arnar Pétursson

Baldvin Þór Magnússon (22 ára) náði góðum árangri í víðavangshlaupum í háskólakeppnum í Bandaríkjunum og komst m.a. á Bandaríska háskólameistaramótið í víðavangshlaupi en það er ekki auðvelt að fá þar keppnisrétt.  Baldvin náði mjög góðum árangri í brautarhlaupum. Setti Íslandsmet í 3.000m innanhúss (7:53,72), bætti 38 ára gamalt met Jóns Diðrikssonar í 1.500m utanhúss, hljóp á 3:40,74 og náði best 13:45,00 mín í 5.000m sem var Íslandsmet um tíma þar til Hlynur bætti það. Baldvin hefur lítið tekið þátt í götuhlaupum en tók þátt í 5 km Akureyrahlaupsins og náði þar besta árangri ársins í þeirri vegalengd (14:40).

Baldvin Þór Magnússon
Baldvin Þór Magnússon

Hlynur Andrésson (28 ára), átti mjög góðu gengi að fagna í hlaupum á árinu. Setti Íslandsmet í maraþonhlaupi 2:13:37 klst. í Dresden 21. mars og bætti þar met Kára Steins Karlssonar frá árinu 2011 um rúmar þrjár og hálfa mínútu. Fylgdi þessum árangri eftir með Íslandsmetum í 3.000m (7:54,72), 5.000m (13:41,06) og 10.000m (28:36,80) brautarhlaupum. Sigraði 5.000m í 2.deild Evrópubikarkeppni Landsliða er fram fór í Stara Zagora í Búlgaríu í júní.

Hlynur Andrésson VES2020 387
Hlynur Andrésson

Þorbergur Ingi Jónsson (40 ára) var sigursæll í utanvegahlaupum á árinu. Sigraði North Ultra 54 km (5:44:27 klst), Súlur Vertical 55 km (5:44:10 klst), Hengill Ultra 53 km (4:24:07 klst) sem gaf 844 ITRA stig og Mt.Esja Ultra 46 km (5:12:31 klst). Þá varð Þorbergur Ingi annar í Laugavegshlaupinu (4:32:04 klst) en fyrstur Íslendinga. .

Þorbergur Ingi Jónsson
Þorbergur Ingi Jónsson

Þorsteinn Roy Jóhannsson (30 ára) var sterkur í utanvegahlaupunum. Sigraði Eldslóðina 28 km (2:01:01 klst) og Austur Ultra 50 km (4:34:31 klst) sem gaf 795 ITRA stig. Þá varð Þorsteinn Roy þriðji í Laugavegshlaupinu (4:36:44 klst) svo og í Hvítasunnuhlaupi Hauka 22 km (1:27:23 klst). Sýndi í Adidas Boost 10 km (34:04 mín) að hann er vel liðtækur í götuhlaupum.

Þorsteinn Roy Jóhannsson
Þorsteinn Roy Jóhannsson

Þórólfur Ingi Þórsson (45 ára) bætti sinn fyrri árangur í hálfmaraþoni er hann sigraði í Haustþoninu á 1:12:02 og í Vormaraþoninu á 2:34:49, en þetta voru jafnframt þriðju bestu hálfmaraþon- og maraþontímar ársins. Var einnig öflugur í 10 km og náði þar best 33:06 í Miðnæturhlaupi Suzuki. Hann toppaði þennan árangur með því að sigra í sínum aldursflokki (40-45 ára) á Norðurlandameistaramótinu í víðavangshlaupi 7,5 km er fram fór í Tullinge í Svíþjóð í byrjun nóvember.

Þórólfur Ingi Þórsson
Þórólfur Ingi Þórsson

Konur

Andrea Kolbeinsdóttir (22 ára) varð fyrst kvenna til að brjóta 5 klst múrinn í Laugavegshlaupinu er hún hljóp á 4:55:56 klst (712 ITRA stig).  Andrea náði besta árangri ársins í 10 km er hún sigraði í Fjölnishlaupinu á 35:49 mín. Var jafnframt með besta árangurinn í 5 km en hún sigraði í Víðavangshlaupi ÍR á 17:16 mín svo og í hálfmaraþoni (1:20:39) er hún sigraði í Miðnæturhlaupi Suzuki. Andrea hljóp sitt fyrsta maraþon í Haustþoninu og sigraði á 3:06:22.

Andrea Kolbeinsdóttir LAU2021 2194
Andrea Kolbeinsdóttir

Fríða Rún Þórðardóttir (51 árs) hefur keppt frá því hún var unglingur og ávallt verið í fremstu röð langhlaupara kvenna á Íslandi. Náði best 40:51 í 10 km í Adidas Boost hlaupinu og 19:28 í 5 km Víðavangshlaup ÍR. Hún toppaði þennan árangur með því að sigra í sínum aldursflokki (50-54 ára) á Norðurlandameistaramótinu í víðavangshlaupi 7,5 km er fram fór í Tullinge í Svíþjóð í byrjun nóvember. Þá var Fríða Rún öflug sem endranær í brautarhlaupum á árinu og náði fjölmörgum Íslandsmeistaratitlum í öldungaflokki.

Fríða Rún Þórðardóttir
Fríða Rún Þórðardóttir

Íris Anna Skúladóttir (32 ára) varð þriðja í sínu fyrsta Laugavegshlaupi á 5:20:33 klst (657 ITRA stig). Sigraði í 3 - Tinda hlaupinu (1:47:17 klst) í Mosfellsbæ og varð þriðja í Hengill Ultra 25 km (2:12:24 klst). Íris Anna tók þátt í fjölmörgum götuhlaupum og náði best 37:02 mín í 10 km í Ármannshlaupinu. Þá var hún valinn í landslið Íslands er tók þátt í 2.deild Evrópubikarkeppni landsliða er fram fór í Stara Zagora í Búlgaríu í júní. Hljóp þar 3.000 m hindrunarhlaup á 11:32,95 mín.

Íris Anna Skúladóttir
Íris Anna Skúladóttir

Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir (40 ára) hefur verið atkvæðamikil í götu- og utanvegahlaupum undanfarinn áratug. Hún sigraði í Hengill Ultra 161 km á 26:07:58 klst (616 ITRA stig) og varð önnur í North Ultra 54 km á 7:58:54 klst og önnur í Hvítasunnuhlaupi Hauka 22 km á 1:46:58 klst.

Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir
Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir

Rannveig Oddsdóttir (48 ára) sigraði í hálfmaraþonhlaupi Akureyrahlaupsins á 1:27:24 og tveimur vikum seinna varð hún önnur í Laugavegshlaupinu á 5:10:02 klst (680 ITRA stig). Hún sigraði í fjórum utanvegahlaupum sem voru Súlur vertical 55 km (7:19:12 klst), North Ultra 56 km (7:40:34 klst), Dyrfjallahlaupið 23 km (2:33:14 klst) og í Hvítasunnuhlaupi Hauka 22 km (1:40:46 klst).

Rannveig Oddsdóttir
Rannveig Oddsdóttir

Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (31 árs) náði fimmta besta árangri kvenna frá upphafi í maraþonhlaupi er hún hljóp á 2:53:19 klst í Berlín í september og var það einnig besti árangur síðasta árs. Bætti sig vel í 10 km er hún hljóp á 36:44 í Ármannshlaupinu. Var í fyrsta skipti í landsliði Íslands í frjálsíþróttum sem tók þátt í 2.deild Evrópubikarkeppninnar er fram fór í Stara Zagora í Búlgaríu í júní. Náði þar sínum besta árangri í 3.000m (10:23,44) og 5.000m (17:52,14).

Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir
Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir