Kjóstu langhlaupara ársins 2022 hjá hlaup.is

uppfært 27. janúar 2023

Í samvinnu við Sportís og HOKA stendur stendur hlaup.is fyrir vali á langhlaupara ársins í fjórtánda skiptið, bæði í karla- og kvennaflokki. Þá er einkum verið að horfa til afreka í götu- og utanvegahlaupum eða annarri keppni í langhlaupum.

Að þessu sinni hafa 7 konur og 7 karlar verið valdir af fulltrúum hlaup.is, sem mynda endanlegan lista hlaupara sem kjósa á um. Það val var ekki auðvelt frekar en áður, því margir hlauparar hafa hver á sinn hátt unnið góð afrek á síðasta ári.

Allir sem kjósa (og skrá netfangið sitt á Mínar síður) fara í pott og geta unnið HOKA hlaupaskó frá Sportís. Kosning hefst sunnudaginn 21. janúar og hægt verður að kjósa til miðnættis miðvikudaginn 8. febrúar.

Til að kjósa verður þú að skrá þig inn á Mínar síður á hlaup.is (sjá innskráningu efst til hægri á þessari síðu) og til að fara í útdráttarverðlaunapottinn, þá verður þú að skrá netfangið þitt á Mínar síður hlaup.is.

Hér fyrir neðan eru tilnefningar í stafrófsröð.

Karlar

Arnar Pétursson (31 ára) var nokkuð frá sínu besta í götuhlaupum á árinu en kom þeim mun sterkari inn í utanvegahlaupin. Hljóp hálfmaraþon best á 1:09:16 þar sem hann varð annar eftir Baldvini Magnússyni á Íslandsmótinu á Akureyri í lok júní. Arnar sigraði í hálfmaraþoni (1:11:13) í Miðnæturhlaupinu og síðan í maraþoni (2:35:18) RM í rokinu. Arnar tók þátt í fjölmörgum öðrum götuhlaupum á árinu og hafði jafnan sigur, varð m.a. Íslandsmeistari í 5 km (15:24) og í 10 km (31:40). Hæst ber þó sigur Arnars í Laugavegshlaupinu (4:04:53) þar sem hann var aðeins 5 mín frá brautarmeti Þorbergs Inga Jónssonar.

Arnar Pétursson ADI2022 003
Arnar Pétursson

Baldvin Þór Magnússon (22 ára) er einkum þekktur fyrir afrek sín á hlaupabrautinni þar sem hann setti Íslandsmet í 5.000 m (13:32,47) á árinu og einnig innanhúss (14:01,29) og í 3.000 m innanhúss (7:49,34). Baldvin reimaði þó á sig götuhlaupaskóna og varð Íslandsmeistari í hálfmaraþoni (1:08:48) á Akureyri í lok júní. Þá varð hann annar í Þorvaldsdalskokkinu (25 km) á eftir Þorbergi Inga. Baldvin náði einnig góðum árangri í víðavangshlaupum í keppni milli háskóla í Bandaríkjunum þar sem hann stundar nám.

Baldvin Þór Magnússon
Baldvin Þór Magnússon

Hlynur Andrésson  (29 ára) var öflugur í götuhlaupum á árinu. Setti Íslandsmet í 5 km (14:14 mín) í Bologna í október og í 10 km  hlaupi (29:26) í Valencia í janúar. Þá hljóp hann nálægt Íslandsmeti sínu á hálfmaraþoni, fyrst á 1:03:05 klst í Berlín í apríl og síðan á 1:03:35 í Arezzo í lok október. Hlynur sigraði í hálfmaraþoni RM á 1:08:52 í miklu roki. Þá var Hlynur öflugur í brautarhlaupum og setti m.a. mótsmet er hann varð Íslandsmeistari í 5.000 m (14:13,92) í Kaplakrika í lok júni. Hlynur býr nú á Ítalíu og hyggst gera atlögu að Íslandsmeti sínu í maraþonhlaupi á þessu ári.

Hlynur Andrésson
Hlynur Andrésson

Þorbergur Ingi Jónsson (41 árs) varð fyrstur Íslendinga á HM í 80 km utanvegahlaupi (42.sæti) er fram fór í Tælandi í nóvember. Varð í 32. sæti og fyrstur Íslendinga í OOC 56 km og síðan í 2. sæti í Nice by UTMB 59 km. Þorbergur sigraði í Dyrfjallahlaupinu (23,4 km) á nýju brautarmeti og í Þorvaldsdalsskokkinu (25 km). Þá má geta þess að Þorbergur tók þátt í nokkrum hljólreiðakeppnum á árinu og sigraði Mývantsmaraþonið og Tour de Ormurinn auk þess að verða þriðji á Íslandsmeistaramótinu í götuhjólreiðum.

Þorbergur Ingi Jónsson
Þorbergur Ingi Jónsson

Þorleifur Þorleifsson (43 ára) keppti mest í utanvegahlaupum á árinu. Varð annar í Bakgarðshlaupinu er fram fór í Elliðaárdalnum í lok apríl. Hljóp samtals 281,6 km á 41:55:03 klst sem nálgast tvo sólarhringa. Fylgdi því svo eftir með því að hlaupa í október Backyard Ultra World Team Championship þar sem hann varð fyrstur Íslendinga með 247,8 km á 36:51:33 klst.

Þorleifur Þorleifsson
Þorleifur Þorleifsson

Þorsteinn Roy Jóhannsson (31 árs) keppti mest í utanvegahlaupum á árinu. Varð fjórði í Laugavegshlaupinu (4:27:45), annar í Salomon Hengill Ultra 53 km (4:50:31) og sigraði í Mt.Esja Ultra 45 km (5:40:35) og í Mýrdalshlaupinu 21 km (1:51:52). Þá vann hann Volcano Trail Run – Þórsgatan (12 km). Þorsteinn Roy hefur einnig sýnt að hann er góður götuhlaupari og varð m.a. annar í Gamlárshlaupi ÍR 10 km (34:27). Þá keppti Þorsteinn Roy með landsliðinu í 80 km utanvegahlaupi á HM í Tælandi er fram fór í nóvember.

Þorsteinn Roy Jóhannsson
Þorsteinn Roy Jóhannsson

Þórólfur Ingi Þórsson (46 ára) keppti í fjölmörgum hlaupum á árinu og var jafnan meðal fyrstu þriggja í mark. Sigraði m.a. í Hvítasunnuhlaupi Hauka (22 km), í Tindahlaupinu í Mosfellsbæ (34,4 km) og í Fossvogshlaupinu þar sem hann náði sínum besta tíma í 10 km (33:03). Hljóp Laugavegshlaupið á 4:50:36. Þá varð Þórólfur annar í hálfmaraþoni (1:13:37) í Miðnæturhlaupinu í júní og hljóp á sínum besta tíma í maraþoni (2:40:35) í Hamborg í lok apríl. Þá keppti Þórólfur með landsliðinu í 40 km utanvegahlaupi á HM í Tælandi er fram fór í nóvember.

Þórólfur Ingi Þórsson
Þórólfur Ingi Þórsson

Konur

Andrea Kolbeinsdóttir (23 ára) hefur verið að færa sig meira í utanvegahlaupin þar sem hún var ósigrandi í kvennaflokki og stórbætti m.a. brautarmet kvenna í Laugavegshlaupinu er hún hljóp á 4:33:07 klst. Hápunkturinn var svo 21. sæti á HM í 40 km utanvegahlaupi er fram fór í Tælandi í nóvember. Þá var Andrea mjög sigursæl í götuhlaupum á árinu og ber þar hæst sigurinn í RM þar sem hún hljóp maraþonvegalengdina á 2:47:22 í leiðindaveðri og ljóst að hún getur sótt að Íslandsmeti Mörthu Ernstdóttur á næstu árum. Í hálfmaraþoni hljóp Andrea á 1:19:34 í Vorþoninu í apríl og á 1:18:06 í Haustþoninu í október. Þá varð hún Íslandsmeistari í 5 km hlaupi (17:09) og 10 km hlaupi (35:00).

Andrea Kolbeinsdóttir
Andrea Kolbeinsdóttir

Íris Anna Skúladóttir (33 ára) kom sterk inn í keppnistímabilið eftir að hafa æft mjög vel um veturinn. Keppti jöfnum höndum í brautarhlaupum, götuhlaupum og utanvegahlaupum. Varð önnur í Laugavegshlaupinu (5:18:31), bætti sinn fyrri árangur verulega í hálfmaraþoni er hún hljóp á 1:19:22 í Kaupmannahöfn í september. Þá bætti hún sig einnig í 10 km (36:16) í Adidas Boost hlaupinu í lok júlí. Varð önnur á Íslandsmótinu í 5 km (17:24) og einnig önnur í 5.000 m brautarhlaupi (17:09,10) á Smáþjóðameistaramótinu er fram fór á Möltu í júní og bætti þar sinn fyrri tíma á vegalengdinni töluvert. Þá keppti Íris Anna með landsliðinu í 40 km utanvegahlaupi á HM í Tælandi er fram fór í nóvember.

Íris Anna Skúladóttir
Íris Anna Skúladóttir

Íris Dóra Snorradóttir (31 árs) stórbætti fyrri árangur sinn í hálfmaraþoni er hún hljóp á 1:21:01 í Kaupmannahöfn í september. Bætti sig einnig verulega í öllum hlaupagreinum á árinu, hljóp 10 km best á 37:46 í Fossvogshlaupinu og sigraði þar í kvennaflokki og hljóp 5 km á 18:31 mín. Þá bætti hún sig verulega í 3.000 m (10:29,01) og 5.000 m (18:18,83) á brautinni.

Íris Dóra Snorradóttir
Íris Dóra Snorradóttir

Mari Järsk (34 ára) keppti nær eingöngu í utanvegahlaupum. Hún varð fyrst, kvenna og karla, í Bakgarðshlaupinu er fram fór í Öskjuhlíðinni í lok apríl. Hljóp samtals 288 km á 42:54:33 klst sem nálgast tvo sólarhringa. Fylgdi því svo eftir með því að hlaupa Laugaveginn á 5:52:38 og í október Backyard Ultra World Team Championship þar sem hún náði 241,4 km á tæpum 36 klst og varð önnur Íslendinga.

Mari Järsk
Mari Järsk

Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (32 ára) varð Íslandsmeistari í hálfmaraþoni (1:20:42) á Akureyri í lok júní og bætti þann árangur enn frekar er hún hljóp á 1:19:03 í Kaupmannahöfn í september. Bætti sig einnig í 10 km götuhlaupi (36:37) í Adidas Boost hlaupinu í lok júlí. Sigþóra keppti í fjölmörgum hlaupum á árinu og sigraði m.a. í Fjögurra skóga hlaupinu (17,6 km) og í Hvítasunnuhlaupi Hauka (17,5 km). Þá varð hún önnur í 26 km Salomon Hengill Ultra á eftir danskri landsliðskonu. Þá má nefna að Sigþóra bætti fyrri árangur sinn í 5.000 m á braut (17:43,66). Þá keppti Sigþóra með landsliðinu í 40 km utanvegahlaupi á HM í Tælandi er fram fór í nóvember.

Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir
Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir

Thelma Björk Einarsdóttir (32 ára) fyrrum knattspyrnukona hefur verið að hasla sér völl sem langhlaupari í fremstu röð. Hún varð í 4.sæti kvenna í maraþoni RM á 3:12:17, hljóp Laugaveginn á 5:50:18 (7.sæti kvenna), hljóp 10 km best á 38:45 í Adidas Boost í lok júlí, hálfmaraþon á 1:28:12 í Vorþoninu og varð þriðja konan í mark í Hvítasunnuhlaupi Hauka 22 km (1:48:01).

Thelma Björk Einarsdóttir
Thelma Björk Einarsdóttir

Verena Karlsdóttir (37 ára) var önnur á afrekaskrá kvenna í maraþonhlaupi, hljóp á 3:07:50 klst. í rokinu í RM í ágúst. Hún tók þátt í fjölmörgum hlaupum á árinu og var jafnan í fremstu röð kvenna. Má nefna 39:15 í 10 km í Adidas Boost hlaupinu og 19:05 í 5 km í Stúdíó sport hlaupinu.

Verena Karlsdóttir
Verena Karlsdóttir