Kjóstu langhlaupara ársins 2023 hjá hlaup.is

uppfært 20. janúar 2024

Í samvinnu við Sportís og HOKA, Icelandair og Íslandsbanka stendur hlaup.is fyrir vali á langhlaupara ársins í fimmtánda skiptið, bæði í karla- og kvennaflokki. Þá er einkum verið að horfa til afreka í götu- og utanvegahlaupum eða annarri keppni í langhlaupum. Sportís, Icelandair og Íslandsbanki munu gefa verðlaun hlaupara í 3. efstu sætunum.

Langhlaupari Ársins 2023 Öll Logo

Að þessu sinni hafa 7 konur og 7 karlar verið valdir af fulltrúum hlaup.is, sem mynda endanlegan lista hlaupara sem kjósa á um. Það val var ekki auðvelt frekar en áður, því margir hlauparar hafa hver á sinn hátt unnið góð afrek á síðasta ári.

Allir sem kjósa (og skrá netfangið sitt á Mínar síður) fara í pott og geta unnið HOKA hlaupaskó frá Sportís. Kosning hefst föstudaginn 20. janúar og hægt verður að kjósa til miðnættis fimmtudaginn 1. febrúar.

Til að kjósa verður þú að skrá þig inn á Mínar síður á hlaup.is (sjá innskráningu efst til hægri á þessari síðu) og til að fara í útdráttarverðlaunapottinn, þá verður þú að skrá netfangið þitt á Mínar síður hlaup.is.

Hér fyrir neðan eru tilnefningar í stafrófsröð.

Karlar

Arnar Pétursson (1991) varð Íslandsmeistari í hálfmaraþoni á 1:08:22 klst sem fram fór á Akureyri. Þá sigraði hann í annað skiptið í röð í Laugavegshlaupinu á 4:00:48 klst. Arnar var sigursæll í fjölmörgum öðrum hlaupum á árinu og má þar nefna hálfmaraþonið í Miðnæturhlaupinu (1:10:29), Puffin Run 20 km, Stjörnuhlaupið 22 km, Brúarhlaup Selfoss 10 km og Hólmsheiðarhlaup Ultraform og fram (22 km). Arnar keppti fyrir hönd Íslands á Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi (45 km) er fram fór í Austurríki í byrjun júní.

Arnar Pétursson STJ2023 0337
Arnar Pétursson

Baldvin Þór Magnússon (1999) setti Íslandsmet í 10 km götuhlaupi 28:51 mín í Leeds 22.okt. Náði svo í desember langbesta árangri Íslendings í víðavangshlaupi frá upphafi er hann varð í 16.sæti af 82 keppendum á Evrópumeistaramótinu er fram fór í Brussel 10. desember. Þá náði Baldvin mjög góðum árangri í brautarhlaupum á árinu á vegalengdum frá 800 - 10.000 m.  Bætti Íslandsmet sitt í 1.500 m hlaupi (3:40,36), setti Íslandsmet í 3.000 m (7:49,68) svo og Íslandsmet innanhúss í míluhlaupi (3:59,60) og í 5.000 m (13:58,24). Fjölhæfni Baldvins er slík að hann hljóp sem dæmi 800 m á 1:50,50 mín sem er aðeins 1,7 sek frá Íslandsmetinu í greininni og síðan 10.000 m á 28:57,17 mín sem er aðeins 21 sek frá Íslandsmeti Hlyns Andréssonar. Þá má nefna að Baldvin keppti fyrir hönd Íslands í Norðurlandameistaramótinu í víðavangshlaupi er fram fór í Reykjavík í byrjun nóvember.

Baldvin Þór Magnússon AKU2022 0832 (1)
Baldvin Þór Magnússon

Kristján Svanur Eymundsson (1994) náði besta árangri Íslendings á árinu í maraþonhlaupi er hann hljóp á 2:29:26 klst í Valencia 3. des. Hann er þar með kominn í 8. sætið á afrekaskránni í maraþonhlaupi frá upphafi. Um vorið hafði hann hlaupið Rotterdam maraþon á 2:34:34 klst. Kristján hljóp á 4:46:13 klst í Laugavegshlaupinu. Varð annar í Hengill Ultra 26 km og annar í Hvítasunnuhlaupi Hauka 14 km sem og í Hólmsheiðarhlaupi Ultraform og Fram 10 km. Kristján er nú búsettur á Spáni.

Kristján Svanur Eymundsson HVI2023 0726
Kristján Svanur Eymundsson

Sigurjón Ernir Sturluson (1990) varð Íslandsmeistari í maraþonhlaupi er hann hljóp á 2:38:25 klst í RM (4.sæti í heild). Hann sigraði í Hengill Ultra 53 km, í Dyrfjallahlaupinu 50 km, Mt.Esja Ultra 43 km, Súlur Vertical 18 km og í Mývatnsmaraþoninu (2:55:09). Tók þátt í fjölda annarra hlaupa á árinu og var jafnan í fremstu röð m.a. í 5.sæti í Laugavegshlaupinu (4:21:00), í 4.sæti í Puffin Run 20 km og í 5.sæti í Mýrdalshlaupinu 21 km.

Sigurjón Ernir Sturluson LAU2023 0022
Sigurjón Ernir Sturluson

Snorri Björnsson (1994) Bætti sig vel í 10 km er hann hljóp á 32:20 mín (2.sæti) í Akureyrarhlaupinu sem var fjórði besti árangur Íslendings á þeirri vegalengd á árinu. Varð fjórði í Laugavegshlaupinu á 4:06:42 klst. Sigraði í Súlur Vertical 28 km, í Fimmvörðuhálshlaupinu 28 km og í Hvítasunnuhlaupi Hauka 22 km. Þá varð hann annar í Mýrdalshlaupinu 21 km. Snorri keppti fyrir hönd Íslands í Norðurlandameistaramótinu í víðavangshlaupi og á Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi (85 km) er fram fór í Austurríki í byrjun júní.

Snorri Björnsson HVI2023 0716
Snorri Björnsson

Þorsteinn Roy Jóhannsson (1991) varð þriðji í hálfmaraþoni RM á 1:11:07 á eftir tveimur erlendum keppendum. Hann varð þriðji í Laugavegshlaupinu á 4:06:13 klst. Sigraði í Súlur Vertical 43 km, í Mýrdalshlaupinu 21 km, í Adidas Boost hlaupinu 10 km (32:19), í Álafosshlaupinu 10 km og í Fossvogshlaupinu (33:14). Þorsteinn Roy varð annar í Snæfellsjökulshlaupinu (1:24:42). Keppti fyrir hönd Íslands í Norðurlandameistaramótinu í víðavangshlaupi og á Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi (45 km) er fram fór í Austurríki í byrjun júní.

Þorsteinn Roy Jóhannsson HOL2023 1382
Þorsteinn Roy Jóhannsson

Þórólfur Ingi Þórsson (1976) er orðinn 47 ára en bætir árangur sinn jafnt og þétt á hverju ári. Á þessu ári var áherslan á maraþon sem hann hljóp á 2:31:09 klst í Valencia og hjó þar mjög nærri Íslandsmeti Stefáns Guðmundssonar í aldursflokki 45-49 ára. Þórólfur sigraði í hálfmaraþoni Vormaraþonsins (1:13:48), í Álafosshlaupinu 10 km og í Fossvogshlaupinu 10 km á 33:14 mín. Varð annar á Íslandsmótinu í hálfmaraþoni (1:13:56) er fram fór á Akureyri svo og annar í hálfmaraþoni Haustmaraþonsins (1:14:01) og í Miðnæturhlaupinu (1:15:16). Var meðal þriggja efstu í fleiri hlaupum m.a. þriðji í Snæfellsjökulshlaupinu (1:32:28).

Þórólfur Ingi Þórsson HAF2023 0134
Þórólfur Ingi Þórsson
Konur

Andrea Kolbeinsdóttir (1999) var ósigrandi í hlaupum hérlendis á árinu og bætti sig í öllum hlaupagreinum. Sigraði maraþonið í RM á 2:42:11 klst, varð Íslandsmeistari í hálfmaraþoni á Akureyri á 1:17:42 klst og Íslandsmeistari í 5 km á 16:27 mín í Víðavangshlaupi ÍR. Þá varð hún fyrst kvenna í Laugavegshlaupinu á 4:22:56 klst og sló brautarmet sitt um rúmar 10 mínútur frá árinu áður. Andrea keppti í Heimsmeistaramóti í utanvegahlaupi (45 km) er fram fór í Austurríki í byrjun júní og náði bestum árangri Íslendinganna. Þá má nefna að Andrea setti Íslandsmet í 3.000 m hindrunarhlaupi 10:08,85 mín.

Andrea Kolbeinsdóttir LAU2023 0033
Andrea Kolbeinsdóttir

Anna Berglind Pálmadóttir (1979) átti mjög góðu gengi að fagna í götuhlaupum á árinu. Bætti sig í hálfmaraþoni (1:20:39) í Valencia 22.október og nýtti þá reynslu til að hlaupa maraþon í Valencia 6 vikum seinna og bætti sinn fyrri árangur, hljóp á 2:55:04 klst.  Anna Berglind sigraði í 10 km kvenna í RM á sínum besta tíma 37:31 mín og í 10 km í Akureyrarhlaupinu (37:44). Þá sigraði hún í Fjögurraskógahlaupinu (17,6 km) og Pósthlaupinu (26 km). Anna Berglind keppti fyrir hönd Íslands í Norðurlandameistaramótinu í víðavangshlaupi í byrjun nóvember og á Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi (45 km) er fram fór í Austurríki í byrjun júní.

Anna Berglind Pálmadóttir FJO2023 0024
Anna Berglind Pálmadóttir

Halldóra Huld Ingvarsdóttir (1988) bætti árangur sinn mjög mikið á árinu. Sigraði í hálfmaraþoni RM á 1:20:04 klst, hljóp 10 km á 36:54 mín í Adidas Boost og 36:53 mín í Gamlárshlaupi ÍR sem hún sigraði. Varð þriðja á 4:59:48 klst í Laugavegshlaupinu. Halldóra Huld var fyrst íslenska kvenna í Norðurlandameistaramótinu í víðavangshlaupi er fram fór í Reykjavík í byrjun nóvember. Hún keppti jafnframt fyrir hönd Íslands á Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi (85 km) er fram fór í Austurríki í byrjun júní. Þá má nefna að Halldóra Huld náði eftirtektarverðum árangri í brautarhlaupum innanhúss og er komin þar í fremstu röð íslenskra kvenna.

Halldóra Huld Ingvarsdóttir HOL2023 1401
Halldóra Huld Ingvarsdóttir

Íris Anna Skúladóttir (1989) átti sitt besta ár hingað til og bætti sig verulega í flestum greinum.  Hljóp hálfmaraþon á 1:18:18 klst  á Akureyri, 10 km á 35:40 mín í Adidas Boost,  5 km á 17:25. Þá varð hún önnur á 4:47:47 klst í Laugavegshlaupinu og bætti sinn fyrri tíma um hálfa klst. Íris Anna varð Íslandsmeistari í víðavangshlaupi er fram fór í Laugardal í október. Keppti fyrir hönd Íslands í Norðurlandameistaramótinu í víðavangshlaupi og á Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi (45 km) er fram fór í Austurríki í byrjun júní. Þá má nefna góðar bætingar í brautarhlaupum 5.000 m (17:04,68) og 10.000 m (36:00,19).

Íris Anna Skúladóttir LAU2023 0044
Íris Anna Skúladóttir

Íris Dóra Snorradóttir (1991) einbeitti sér að brautarhlaupum á árinu og bætti sig á öllum vegalengdum innan- og utanhúss. Ber þar hæst 17:38,05 mín í 5.000 m og 36:33,36 mín í 10.000 m. Hún tók jafnframt þátt í mörgum götuhlaupum og var í fremstu röð, hljóp 10 km best á 38:07 mín (3.sæti) í Adidas Boost, sigraði í Miðnæturhlaupinu (38:36) og í Fossvogshlaupinu (38:11) og varð önnur í Brúarhlaupi Selfoss (38:16). Þá varð Íris Dóra þriðja á Íslandsmótinu í hálfmaraþoni á 1:21:17 sem var hluti af Akureyrarhlaupinu. Þá keppti hún fyrir Íslands hönd á Norðurlandameistaramótinu í víðavangshlaupi er fram fór í Reykjavík í nóvember.

Íris Dóra Snorradóttir FJO2023 0020
Íris Dóra Snorradóttir

Rannveig Oddsdóttir (1973) er búin að eiga langan og góðan hlaupaferil. Á greinilega enn mikið inn en hún skellti sér í maraþonhlaup í Valencia í byrjun desember og hljóp á 2:56:02 km sem er Íslandsmet í flokki 45-49 ára. Nokkrum dögum seinna varð hún fimmtug og því nýjar áskoranir á næsta ári. Rannveig varð önnur í Dyrfjallahlaupinu (23,4 km), Súlur Vertical (43 km) og Eldslóðinni (28 km). Þá varð hún sjötta í Laugavegshlaupinu (5:17:41). Rannveig keppti jafnframt fyrir hönd Íslands á Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi (85 km) er fram fór í Austurríki í byrjun júní.

Rannveig Oddsdóttir LAU2023 0144
Rannveig Oddsdóttir

Thelma Björk Einarsdóttir (1990) náði sínum besta árangri í Laugavegshlaupinu (5:15:19) þar sem hún varð í 5.sæti kvenna. Sigraði í Mt. Esja Ultra 14 km og í Súlur Vertical 53 km. Thelma bætti sig mikið í götuhlaupum á árinu. Hljóp 5 km best á 17:58 mín (3.sæti) í Fossvogshlaupinu. Náði sínum besta tíma í 10 km 38:18 mín (2.sæti) í Ármannshlaupinu svo og í hálfmaraþoni 1:24:00 klst (3.sæti) í RM.

Thelma Björk Einarsdóttir HEN2023 0126
Thelma Björk Einarsdóttir